Fara í efni
Til baka í lista

Brúnavegur 8, Gamla pósthúsið

Brúnavegur 8
Friðlýst hús

Byggingarár: 1847

Friðun

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.


Gamla pósthúsið við Pósthússtræti 11. Timburhús reist 1847. Tekið niður, flutt í Skerjafjörð og endurreist þar 1928. Tekið niður, flutt að Brúnavegi og endurreist þar 1941.


Húsið sem nú stendur á lóð nr. 8 við Brúnaveg í Reykjavík hefur gert víðreist. Hallgrímur Scheving, yfirkennari við Bessa­staðaskóla, lét reisa það árið 1847 á lóð sem hann fékk við Austurvöll, skömmu eftir að hann flutti til Reykjavíkur um svipað leyti og Bessastaðaskóli var fluttur þangað.Húsið var einlyft grindarhús, borðaklætt með risi og helluþaki og var múrsteini hlaðið í grindina. Hallgrímur bjó í húsinu til dauðadags 31. desember 1861.[1]

Síðar eignaðist húsið Ole P. Finsen verslunarstjóri og stækkaði það verulega enda veitti ekki af; árið 1872 var hann skipaður póstmeistari fyrstur manna og var þá sett þar upp póstafgreiðsla eða pósthús. … Póstafgreiðslan var í norðurenda hússins og varð þar æði mikil þröng er það fréttist að póstur hefði borist til bæjarins, en þá tíðkaðist ekki útburður bréfa. Margir komu þarna einkum fyrir forvitni sakir og var troðningurinn oft slíkur að við lá að menn yrðu fyrir meiðslum. Árið 1898 voru þrengslin í pósthúsinu orðin slík að ekki varð lengur við unað. Um þær mundir losnaði rými í Barnaskólanum við Pósthússtræti og var póstafgreiðslan flutt þangað.[2]

Fyrst eftir að Finsen keypti húsið var það kallað Finsenshús, meðan póstafgreiðsla var rekin í húsinu gekk það undir nafninu Pósthúsið og síðan Gamla pósthúsið þegar póstafgreiðslan var flutt í ný húsakynni. Húsið fékk númerið 11 við Pósthússtræti, en gatan fékk einmitt nafn sitt af þeirri starfsemi sem fram fór í þessu húsi.[3]

Árið 1902 eignaðist Thor Jensen húsið og bjó þar um skeið uns hann fluttist að Fríkirkjuvegi 11. Um tíma voru skrifstofur Milljónafélagsins svokallaða í þessu húsi. Nokkru síðar hafði Morgunblaðið bækistöð í húsinu um skeið.[4]

Þegar fyrirhugað var að byggja veglegt hótel við Austurvöll varð húsið að víkja og var það flutt suður í Skerjafjörð árið 1928, en Hótel Borg var tekin í notkun árið 1930. Það var Jón Kristjáns­son nuddlæknir sem keypti húsið og lét reisa það að nýju við Reykjavíkurveg 1. Um tíma var rekið barnaheimili í húsinu í Skerjafirði. Skömmu eftir að Hallur Hallson tannlæknir eignaðist húsið 1941 var það enn fyrir þegar Reykjavíkurflugvöllur var byggður. Þá flutti breska hernámsliðið húsið inn í Laugarás, þar sem það stendur enn. Nú var húsinu gefið nafnið Breiðablik.[5]

Með tímanum hafði húsið glatað að mestu sína upprunalega útliti, en árið 1983 var ráðist í það að koma því í upprunalegt horf.Leifur Blumenstein sagði fyrir um breytingar en um verkið sá Eiríkur K. Davíðsson.[6]

 



[1]Páll Líndal (1986-1991).Reykjavík. Sögustaður við Sund. 2. bindi, bls. 200. Reykjavík: Örn og Örlygur; Jón Þorkelsson (1964). Hallgrímur Scheving. Í Merkir Íslendingar. Nýr flokkur III, bls. 109-114. Jón Guðnason bjó til prentunar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan; Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1987). Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur, bls. 180. Reykjavík: Torfusamtökin; Jón Helgason (1937). Reykjavík. Þættir og myndir úr sögu bæjarins 1786-1936, bls. 29. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

[2]Páll Líndal (1986-1991).Reykjavík. Sögustaður við Sund. 2. bindi, bls. 200-201. Reykjavík: Örn og Örlygur.

[3]Hörður Ágústsson (2000).Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 116. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins; Páll Líndal (1986-1991).Reykjavík. Sögustaður við Sund. 2. bindi, bls. 200. Reykjavík: Örn og Örlygur; Brúnavegur 8, Reykjavík, verknr. 2276 í gagnasafni Húsafriðunarnefndar.

[4]Páll Líndal (1986-1991), 2. bindi, bls. 201; Brúnavegur 8, Reykjavík, verknr. 2276 í gagnasafni Húsafriðunar­nefndar.

[5]Páll Líndal (1986-1991).Reykjavík. Sögustaður við Sund. 2. bindi, bls. 201. Reykjavík: Örn og Örlygur.

[6]Hörður Ágústsson (2000).Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, bls. 116. [Reykjavík:] Húsafriðunarnefnd ríkisins.