Fara í efni
Til baka í lista

Flugskýli 1, Reykjavíkurflugvelli

Friðlýst hús

Byggingarár: 1941

Friðlýst af mennta- og menningarmálaráðherra 3. febrúar 2020, skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar.  Friðlýsingin tekur til stálburðargrindar og upprunalegra rennihurða á göflum skýlisins. Undanskildar ákvæðum friðlýsingar eru seinni tíma breytingar: viðbyggingar og klæðningar utan- sem og innanhúss.

Byggingarefni

Stálburðargrind.

Höfundur

Sett upp af fyrirtækinu Teeside Bridge and Engineering Co. Ltd. Í Middlesborough.


Flugskýli 1 er fyrsta flugskýlið sem byggt var á Reykjavíkurflugvelli. Það er eitt fjögurra breskra flugskýla af gerðinni T-2 sem smíðuð voru og sett upp á Reykjavíkurflugvelli fyrir breska herinn af fyrirtækinu Teeside Bridge and Engineering Co. Ltd. Í Middlesborough. Sama fyrirtæki smíðaði og setti upp Ölfusárbrúna á Selfossi árið 1945.  Burðargrind skýlisins er upprunaleg en ytri klæðing hefur verið endurnýjuð. Þá hefur skýlið verið að hluta til klætt og einangrað að innan. Dyraop við suðurgafl var hækkað á kafla til að þotur kæmust inn í skýlið.

Flugskýlið er eitt elsta mannvirkið á Reykjavíkurflugvelli og tengist sem slíkt sögu hernámsáranna og flugsögu Íslands. Flest flugfélög sem starfað hafa hér á landi hafa haft aðstöðu í húsinu á ólíkum tímabilum. Skýlið stendur við hlið gamla flugturnsins sem er friðlýst bygging. Saman mynda þau varðveisluheild sem hefur fágætisgildi á landsvísu. Burðargrind skýlisins er upprunaleg og afar sérstök. Mjög fá önnur skýli af þessari gerð hafa varðveist og kann skýlið því að hafa varðveislugildi á heimsvísu.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um minjar á flugvallarsvæðinu í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur frá árinu 2013: Fornleifaskráning og húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur (skýrsla nr. 161) .