Fara í efni
Til baka í lista

Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, Kjós

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1878

Byggingarár: 1878 í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Hönnuður: Eyjólfur Þorvarðsson forsmiður frá Bakka.[1]

Breytingar: Flutt að Vindáshlíð 1957 og kór reistur við kirkjuna og innri gerð breytt verulega.

Hönnuður: Aðalsteinn Thorarensen húsgagnasmiður.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er timburhús, 7,70 m að lengd og 6,40 m á breidd, með kór undir minna formi, 1,88 m að lengd og 3,40 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþak. Hljómop með hlera er á framhlið turns. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni yfir kirkjudyrum en lítill gluggi hvorum megin á kór. Yfir gluggum, nema kórgluggum, er bjór. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir með stólum hvorum megin hans. Kórdyr undir oddboga eru á mörkum framkirkju og kórs. Veggir eru klæddir spónlögðum plötum og á þeim inndregnir oddbogar utan um glugga og á milli þeirra, svo og á göflum. Yfir fremsta stafgólfi er afþiljað loft og stigi við vesturgafl norðan megin. Í norðvesturhorni er orgelpallur. Yfir kirkjunni er risloft klætt skörðuðum spónlögðum plötum og kraftsperrur eru á milli súðanna.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 91. Bréf 1879. Byggingarreikningur Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd 1878, ásamt fylgiskjölum; Borgarfjarðarprófastsdæmi AA/10. Saurbær 1879.

[2]Guðrún Edda Gunnarsdóttir. Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, 87-92; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 12. Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, 309-319. Reykjavík 2008.