Fara í efni
Til baka í lista

Hjarðarholtskirkja, Stafholtstungum, Stafholtstungur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1895

Hönnuður: Árni Þorsteinsson forsmiður, bóndi og fræðimaður frá Brennistöðum í Flókadal.[1]

Breytingar: Í öndverðu var þak kirkju og suðurhlið klædd bárujárni en aðrar hliðar klæddar timbri. Þær voru klæddar bárujárni í áföngum á árunum fram til um 1915.[2]

Á árunum 1994–1995 var kirkjan færð til upprunalegs horfs að utan og að innan árin 2003–2004.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hjarðarholtskirkja er timburhús, 6,42 m að lengd og 5,15 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og undir honum bjúgstallur. Á framhlið turns er hljómop með vængjahlerum fyrir og bogagluggi yfir. Þök eru klædd bárujárni, turn sléttu járni en veggir láréttum plægðum borðum og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Undir þakbrúnum eru laufskornar vindskeiðar. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni yfir kirkjudyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans en lausabekkir í kór. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Efst á þeim er strikasylla sem leidd er fyrir kórgafl. Hvorum megin altaris eru flatsúlur með súluhöfuð og bogi yfir því. Yfir fremsta stafgólfi framkirkju er afþiljað loft og stigi við framgafl að norðanverðu. Reitaskipt stjörnusett hvelfing er yfir innri hluta kirkju.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 101. Bréf 1898. Reikningur yfir kostnað við endurbyggingu Hjarðarholtskirkju í Mýrasýslu 1895 og málning hennar 1896; Borgfirskar æviskrár V, 85. Útg. Sögufélag Borgarfjarðar. Akranes 1978.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/9 og 10. Hjarðarholtskirkja 1896, 1911 og 1917.

[3]Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 14, Hjarðarholtskirkja, 169-181. Reykjavík 2009.