Fara í efni
Til baka í lista

Hrepphólakirkja, Hrunamannahreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1909

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.

Athugasemd: Hrepphólakirkja er byggð upp úr kirkju sem reist var í Hrepphólum 1903 eftir teikningum Rögnvalds Ólafssonar arkitekts, en kirkjan fauk 1908. Við endurbygginguna 1909 var kirkjuskipið stytt um eina alin og gluggum fækkað um einn á hvorri hlið og kórinn styttur um ¾ alin, turni og umbúnaði glugga var breytt og dregið úr skrauti innandyra. Yfirsmiður endurbyggingar var Samúel Jónsson forsmiður.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hrepphólakirkja er timburhús, 8,24 m að lengd og 6,34 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,81 m að lengd og 3,78 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur burstsettur turn á breiðum stalli. Hljómop með hlera er á framhlið turns. Laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á hvorri hlið kórs, allir með tveimur bogarömmum. Á framstafni eru þrír gluggar, miðglugginn samskonar og aðrir gluggar kirkjunnar en hinir tveir minni hálfgluggar. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogadreginn skorinn tréskjöldur.

Yfir þvera kirkju er forkirkja, stúkuð af framkirkju með þili. Norðan megin í henni er stigi upp á söngloft. Á milliþili eru dyr að framkirkju og fyrir þeim vængjahurðir. Inn af þeim er gangur og beggja vegna hans kirkjubekkir. Kórgólf er hafið upp yfir kirkjugólf um tvö þrep. Söngloft er yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju. Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en veggir framkirkju og kórs eru klæddir reitaþiljum neðanvert en plötuklæddir að ofan. Milliþilið er hins vegar klætt málningarpappír að neðan. Í kirkjunni eru súlur skreyttar með útskornu korintísku súluhöfði. Yfir öllu kirkjuskipinu stafna á milli er reitaskipt hvelfing og önnur minni yfir kór og undir þeim strikasyllur.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 74 B. Bréf 1910. Byggingarreikningur Hrepphólakirkju 1909.

[2]Jón Sigurðsson bóndi í Hrepphólum. Fróðleikur varðandi kirkjur í Hrepphólum og starf safnaðarins. Í vörslu sóknarnefndar; Jón Sigurðsson/Kristinn Kristmundsson. Hrepphólakirkja frá 1903 og kirkjuveðrið mikla í desember 1908. Árnesingur III. Selfossi 1994; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 1. Hrepphólakirkja, 15-39. Reykjavík 2001.