Fara í efni
Til baka í lista

Hvalsneskirkja, Hvalsnes

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1887

Byggingarár: 1886-1887.

Hönnuður: Magnús Magnússon steinsmiður.

Athugasemd: Tréverk vann Magnús Ólafsson snikkari í Reykjavík.[1]

Breytingar: Árið 1945 voru veggir einangraðir að innan með vikurplötum og múrhúðaðir og gluggum breytt.

Hönnuður: Embætti Húsameistara ríkisins.

Steinsteyptur kyndiklefi, að mestu neðanjarðar, byggður við kórbak 1955. Bjúgstallur og turnþak klætt eir 1958 og kirkjuþak 2002.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hvalsneskirkja er steinhlaðið hús, 12,60 m að lengd og 8,02 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgt þak. Hann stendur á bjúgstalli. Þök og bjúgstallur eru klædd eir. Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnu steinlímdu grjóti með grófri áferð en tvær neðstu steinaraðir eru slétthöggnar. Sökkulbrún er neðarlega á vegg, steinbrúnir undir þakbrún og þakskeggi og raðsteinsbogar yfir gluggum og kirkjudyrum og yfir þeim steinn með ártalinu 1887. Turninn er smíðaður úr timbri og klæddur láréttri timburklæðningu. Á turnhliðum eru innfelldir bogafletir með bogadregnum hljómopum og hringglugga yfir en flatsúlur á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar með átta rúðum og tveir minni með sex rúðum á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Kórdyrabogi er á mörkum framkirkju og kórs uppi undir hvelfingu og undir honum tvær súlur og flatsúlur við veggi. Á kórgafli hvorum megin altaris eru tvær flatsúlur og bogi yfir. Söngloft er með vesturgafli yfir fremsta hluta framkirkju og stigi upp á það að ganga norðan megin. Undir frambrún þess eru tvær stoðir og flatsúlur við veggi. Tvær turnstoðir með boga á milli eru á sönglofti. Jónísk súluhöfuð prýða allar súlurnar. Veggir eru sléttaðir og efst á þeim er stallasylla. Yfir framkirkju og kór er stjörnusett reituð hvelfing og reitaloft undir sönglofti.

 



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 83. Bréf 1894. Yfirlýsing Magnúsar Ólafssonar og Jóns Þórarinssonar dagsett 24. júlí 1893 um byggingarkostnað Hvalsneskirkju; Yfirlýsing Ketils Ketilssonar kirkjubónda í Kotvogi dagsett 25. júlí 1894 um byggingarkostnað Hvalsneskirkju; Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I, 307.

[2]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 11. Hvalsneskirkja, 14-30. Reykjavík 2008.