Fara í efni
Til baka í lista

Hvammskirkja, Dölum, Dalir

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1884

Byggingarár: 1883–1884.

Hönnuður: Guðmundur Jakobsson forsmiður.[1]

Breytingar: Veggir voru í upphafi klæddir listaþili en árið 1933 var turninn klæddur sléttu járni og veggir bárujárni ári síðar.[2] Turninn var klæddur að nýju með listaþili árið 2000 og færður til upprunalegs horfs.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hvammskirkja er timburhús, 10,26 m að lengd og 6,47 m á breidd, með forkirkju, 1,91 m að lengd og 1,99 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með lauklaga þaki og hlera á framhlið. Undir honum er bjúgstallur. Kirkjan er bárujárnsklædd en turn klæddur sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir sexrúðu gluggar og einn á framstafni yfir forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir, gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Lágur kórpallur er fyrir miðjum kórgafli en afþiljaðir klefar hvorum megin hans, geymsla að norðanverðu en skrúðhús að sunnanverðu. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi með framgafli norðan megin. Tvær turnstoðir eru á sönglofti og stoð á frambrún. Veggir eru klæddir láréttum borðum upp undir brjóstlista en spjaldaþili með strikuðum panelborðum milli glugga. Strikasylla og skrautbekkur eru efst á veggjum. Gaflar eru klæddir strikuðum panelborðum. Reitaskipt hvelfing er yfir meginhluta framkirkju og kórs og eru reitirnir klæddir sinkplötum. Í fremsta stafgólfi, inn að turnstoðum, er hvelfingin klædd strikuðum panelborðum.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V 121. Bréf 1888. Byggingarsamningur Hvammskirkju árið 1883; Biskupsskjalasafn C, V 121. Bréf 1888. Byggingarreikningur Hvammskirkju 1884, dagsettur 19. september 1888, ásamt fylgiskjölum..

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Dalaprófastsdæmi AA/9 og 10. Hvammur 1933, 1936 og 1945; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Hvammskirkja, handrit 2009.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hvammskirkja í Dölum, áætlun Jons Nordsteiens arkitekts.