Fara í efni
Til baka í lista

Ingólfsstræti 23

Ingólfsstræti 23
Friðlýst hús

Byggingarár: 1887

Viðbygging 1899 hlaðin úr steini við austurhlið og árið 1906 var byggt við norðurgaflinn.

Byggingarefni

Steinhlaðið

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 31. desember 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis hlaðna steinhússins og seinni tíma viðbygginga.

 

Á horni Ingólfsstrætis og Spítalastígs stóð áður torfbær sem nefndur var Norðurberg en árið 1887 fékk Runólfur Runólfsson bókbindari leyfi til að byggja á lóðinni hús úr höggnu grjóti. Húsið var brunavirt þegar það var fullgert sama ár. Þá voru tvö þiljuð og máluð herbergi á neðri hæðinni, tveir ofnar til upphitunar og í eldhúsi var eldavél. Uppi voru þrjú herbergi, þiðjuð og máluð, og þar voru tvær eldavélar. Framan af voru oft tveir eigendur að húsinu og þar voru jafnvel allt að tólf manns til heimilis.

Ágúst Sigurmundsson myndskeri ólst upp í húsinu frá sjö ára aldri (f. 1904) og bjó þar til dánardags 18. júní 1965. Hann var fjölhæfur listamaður. Lærði myndskurð hjá Stefáni Eiríkssyni og kynnti sér útskurð og annað handverk í Þýskalandi. Auk þess að kenna við Myndlista- og handíðaskólann skar hann út mikinn fjölda listaverka, allt frá gestabókum til skírnarfonta og predikuarstóla. Fyrsta verkstæði sitt hafði Ágúst í viðbyggingu norðan við húsið, sem byggð var árið 1906.

 

Heimildir:

Freyja Jónsdóttir (2001, 10. júlí). Ingólfsstræti 23 – Norðurberg. Fasteignablað Morgunblaðsins, bls. 40 C.

Minjasafn Reykjavíkur. Húsaskrá.

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

Sjá loftmynd