Fara í efni
Til baka í lista

Kaldrananeskirkja, Kaldrananesi við Bjarnafjörð

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1851

Hönnuður: Jóhann Vilhelm Grundtvig forsmiður.

Saga

Kaldrananeskirkju er fyrst getið í kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá um 1200. Kirkjan var upphaflega og allt til ársins 1950 bændakirkja, en þá tók söfnuðurinn við henni. Í máldaga kirkjunnar frá um 1317 segir að kirkjan hafi verið helguð Maríu guðsmóður, Mikjál erkiengli og hinum helga Þorláki. Núverandi kirkja var reist á grunni eldri kirkju árið 1851.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Kaldrananeskirkja er timburhús, 10,36 m að lengd og 4,61 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Tígulgluggi á framhlið turns og lítið hljómop á hvorri turnhlið. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstgluggar með tveimur þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni. Kvistgluggi er í suðurþekju uppi yfir miðglugga. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og stórskorin brík yfir og flatsúlur hvorum megin dyra.

Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir með rimlum í baki hvorum megin hans en bekkir umhverfis í kór. Loft á bitum er yfir tveimur fremstu stafgólfum framkirkju og stigi við vesturgafl sunnan megin. Innst á loftinu er þil og á því op með ferstrendum rimlum fyrir. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Yfir innri hluta framkirkju er reitaskipt risloft en yfir kór reitskipt hvelfing prýdd stjörnum.

Heimild

Kirkjur Íslands, 7. bindi, bls. 45-67