Fara í efni
Til baka í lista

Kálfatjarnarkirkja, Kálfatjörn

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1892

Byggingarár: 1892-1893.[1]

Hönnuður: Guðmundur Jakobsson forsmiður.

Athugasemd: Nicolaj Sofus Bertelsen málaði kirkjuna innan.

Breytingar: Í öndverðu voru suðurhliðar turns og kirkju klædd bárujárni sem og kirkjuþök, norðurhliðar turns og kirkju voru klæddar láréttri plægðri borðaklæðningu en austurstafn og kór klædd þakhellum. Efri hluti turns var áttstrendur og á honum spíruþak.

Turnþaki var breytt 1935.

Hönnuður: Embætti Húsameistara ríkisins.

Árið 1968 voru smíðaðir nýir breyttir bekkir í kirkjuna.

Hönnuður: Ragnar Emilsson húsateiknari hjá embætti Húsameistara ríkisins.

Á árunum 1975-1993 var unnið að viðhaldi kirkjunnar í nokkrum áföngum og hún var þá m.a. öll klædd utan með bárujárni.

Hönnuðir: Hörður Ágústsson listmálari og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kálfatjarnarkirkja er timburhús, 10,24 m að lengd og 7,15 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,27 m að lengd og 3,94 m á breidd, og turn við vesturstafn, 3,21 m að lengd og 3,35 m á breidd. Þök kirkjuskips og kórs eru krossreist en á turni er píramítaþak sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Hornborð eru á kór, kirkju og turni og á honum eru þrjú hæðarskilsbönd. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir en einn gluggi á hvorri hlið kórs. Niðri eru þrír sexrúðu gluggar með tvíbogadregnum földum yfir; boga að neðan en oddboga að ofan. Yfir hverjum þeirra eru tveir minni samlægir gluggar bogadregnir að ofan. Falskir gluggar eru á turni; tveir samlægir á hverri hlið með hringglugga ofanvert og yfir þeim þrír samlægir gluggar með tveimur hringgluggum yfir. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogagluggi. 

Í forkirkju eru tveir stigar, hvor sínum megin, upp á söngloft yfir fremsta hluta framkirkju og setsvalir inn með hliðum. Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Veggir forkirkju eru klæddir panelborðum en framkirkja og kór klædd málningarpappa máluðum í hleðslulíki marmara. Undir og ofan á sönglofti og setsvölum eru marmaramálaðar súlur og ennfremur í kórdyrum og á kórgafli hvorum megin altaris. Súlurnar deila kirkjurýminu í þrennt; miðskip og tvö hliðarskip. Yfir miðskipi og kór eru reitaskiptar hvelfingar en flöt loft yfir setsvölum í hliðarskipum.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 83. Bréf 1894. Byggingarreikningur Kálfatjarnarkirkju árin 1892 og 1893.

[2]Þorsteinn Gunnarsson. Kirkjur Íslands 11. Kálfatjarnarkirkja, 56-84. Reykjavík 2008.