Fara í efni
Til baka í lista

Kirkjuvogskirkja, Hafnir

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1860

Byggingarár: 1860-1861.

Hönnuður: Sigurður Ólafsson forsmiður.

Breytingar: Í upphafi var kirkjan klædd listaþili og listasúð.

Forkirkja og kór reist 1866.

Hönnuðir: Sigurður Ólafsson forsmiður.

Kórveggir hækkaðir 1885 og 1894 voru kirkjuþak og hluti veggja klædd bárujárni og lokið við að klæða veggi um 1917 nema norðurhliðina sem áfram var klædd listaþili.

Árið 1942 voru veggir múrhúðaðir að utan.

Á árunum 1970-1972 var múrhúðun brotin af og veggir klæddir listaþili eins og í öndverðu, steyptur sökkull undir kirkjuna og hún klædd innan spjaldaþili úr sléttum plötum og smíðaðir í hana nýir bekkir en eldri innréttingar höfðu áður eyðilagst að mestu.

Hönnuðir: Hörður Ágústsson listmálari og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kirkjuvogskirkja er timburhús, 8,96 m að lengd og 5,71 m á breidd, með forkirkju við vesturstafn, 2,0 m að lengd og 3,71 m á breidd og kór við austurstafn, 2,91 m að lengd og 4,18 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni en bogadregið þak forkirkju er klætt sléttu járni. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og þriggja rúðu römmum, einn á hvorri hlið kórs og einn heldur minni hvorum megin á forkirkju og annar uppi á framstafni kirkjunnar. Lítill gluggi er á framstafni turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir en bogadregin brík yfir.

Milli forkirkju og framkirkju eru bogadregnar dyr án hurðar og gangur inn af og bekkir hvorum megin hans. Lágt kórþil er við innstu bekki. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep og í kórdyrum stafir með boga yfir. Afþiljað loft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju og stigi til loftsins í forkirkju. Veggir eru klæddir spjaldaþili úr sléttum plötum upp undir glugga en rásuðum plötum að ofan. Undir gluggahliðum eru skoraðar flatsúlur. Yfir innri hluta framkirkju og kórs er reitaskipt stjörnusett hvelfing og önnur minni í kórútbyggingu.



[1]Þorsteinn Gunnarsson. Kirkjur Íslands 11. Kirkjuvogskirkja, 155-178. Reykjavík 2008.