Fara í efni
Til baka í lista

Kollafjarðarneskirkja, Kollafjörður

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1909

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.

Saga

Kollafjarðarneskirkja reis árið 1909 en þar hafði ekki verið kirkjustaður áður. Hún leysti af hólmi kirkjur í Tröllatungu í Tungusveit og á Felli í Kollafirði sem báðar voru lagðar niður.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Kollafjarðarneskirkja er steinsteypuhús, 10,45 m að lengd og 7,59 m á breidd, með turn við framstafn, 2,58 m að lengd og 2,90 m á breidd. Á turni er há og mjó ferstrend spíra sem gengur út undan sér að neðan og er klædd sléttu járni. Þak kirkju er krossreist og klætt bárustáli. Veggir eru múrhúðaðir og raðbogar eru efst undir þakskeggi og þakbrúnum kirkju og turns. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir bogadregnir gluggar úr steypujárni. Minni gluggi er á framstafni kirkju hvorum megin turns, tveir á turnhliðum og þrír á framhlið turns. Fyrir dyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og innfelldur bogi yfir þeim.

Í forkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en langbekkir í kór. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og undir því fjórar stoðir en stigi í suðvesturhorni. Af sönglofti er opið inn í turn. Veggir eru múrhúðaðir og efst á þeim er strikasylla uppi undir múrhvelfingu stafna á milli.

Heimild

Kirkjur Íslands 7. bindi, bls 71 - 96