Fara í efni
Til baka í lista

Kópavogsbærinn

Kópavogsbærinn
Friðlýst hús

Byggingarár: 1902

Elsta húsið var byggt á árunum 1902 til 1904.

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 12. október 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis húsasamstæðunnar.

Byggingarefni

Elsta hús Kópavogsbæjarins er steinhlaðið.


Jörðin Kópavogur á sér langa og merka sögu meðal annars vegna þess að þar var þingstaður til ársins 1751. Elsta húsið sem nú stendur á jörðinni reisti Erlendur Zakaríasson á árunum 1902 til 1904, en þá voru gömlu bæjarhúsin, sem stóðu sunnar á jörðinni, orðin afar hrörleg. Erlendur var steinsmiður og hlóð hann bæ sinn úr tilhöggnu grjóti ognotaði steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann við byggingu Alþingishússins á árunum 1880 til 1881. Húsið er elsta húsið í Kópavogi og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa utan Reykjavíkur. Því hefur það ásamt síðari tíma viðbyggingum mikið varðveislugildi sem  eini uppistandandi vitnisburðurinn um elstu byggð Kópavogs og þann búskap sem stundaður var frá fornu fari á því svæði sem nú markar þéttbýli Kópavogs.

 

Árið 1925 fékk Kvenfélagið Hringurinn landspildu úr jörðinni og reisti þar Hressingarhæli fyrir berklasjúklinga sem tekið var í notkun árið eftir og árið 1931 fékk félagið bújörðina Kópavog til ábúðar. Þegar Hringskonur tóku við búinu var þar útihúsalaust en þær byggðu við gamla bæjarhúsið til austurs, fjós, hlöðu, hænsahús og geymslu, en þar var salerni komið fyrir. Hringskonur ráku búið til ársins 1948 með aðstoð bústjóra sem bjuggu í bænum með fjölskyldum sínum.  Á búinu var framleidd mjólk, egg, kálfakjöt og grænmeti en heilnæmt fæði þótti mikilvægur þáttur í meðferð berklasjúklinga.

 

Heimild:

Garðar H. Guðjónsson, Kristinn Dagur Gissurarson og Margrét Björnsdóttir (2012, 20. júní). Hvað skal gera? – Hvert skal stefna? Greinargerð starfshóps um Kópavogsbæinn – Kópavogshælið – Kópavogstún.