Fara í efni
Til baka í lista

Laufásvegur 5, Jónshús

Laufásvegur 5
Friðlýst hús

Byggingarár: 1880

Byggingarefni

Steinhlaðið hús

Friðun

Friðaður af mennta- og menningarmálaráðherra 31. desember 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis steinhlaðna framhússins sem byggt var árið 1880.


Hús þetta reisti Jón Árnason þjóðsagnasafnari á lóð úr landi Stöðlakots. Húsið er úr höggnu grágrýti sem sett er saman með kalki sem fannst í Esjunni hjá Mógilsá. Kalkið var unnið í brennsluofni sem reistur var við Kalkofnsveg, sem dregur nafn sitt af ofni þessum. Húsið hefur verið kallað Jónshús og á sú nafngift líklega rætur sínar að rekja til fyrsta eiganda þess.

Jón átti húsið ekki lengi, því árið 1888 var Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur orðinn eigandi hússins. Húsið var keypt fyrir heimanmund Þóru Pétursdóttur eiginkonu hans, sem var dóttir Péturs Péturssonar biskups, en þau höfðu gift sig árið áður. Jón Árnason var fósturfaðir Þorvaldar og hann flutti í kjallarann ásamt konu sinni þegar nýgiftu hjónin fluttu í húsið. Þau hófust handa við breytingar og endurbætur á húsinu, sem höfðu mikil óþægindi og sóðaskap í för með sér. Um tíma var engin leið inn í húsið nema í gegnum eldhúsið og þótti það sérstaklega bagalegt þegar erlenda gesti bar að garði. En þeim fannst umstangið þess virði og voru ánægð að loknum framkvæmdum. Álmtréð undir gafli hússins gróðursettu þau hjón um það leyti sem þau fluttu í húsið og er tréð því meðal elstu trjáa í Reykjavík. Þau settu einnig niður blóm og ræktuðu matjurtir og höfðu bæði kýr og hænsi og hvíldi búsreksturinn mest á Þóru því Þorvaldur var mikið fjarverandi á sumrin. Þegar þau hjón fluttu til Kaupmannahafnar eftir átta ára búsetu í húsinu tók Jón Þorklesson rektor það á leigu, en árið 1902 seldu þau húsið.

Á fyrsta áratug 20. aldar keypti Borgþór Jósefsson húsið. Hann var bæjargjaldkeri Reykjavíkur og fyrstu árin sem hann bjó í húsinu var skrifstofa hans í húsinu. Borgþór stækkaði húsið, byggði við það sólstofu og ræktaði garð. Kona hans var Stefanía Guðmundsdóttir, eins fremsta leikkona Íslendinga í þá daga og saman voru þau miklir frumkvöðlar á sviði leiklistar á Íslandi. Fjölskyldan bjó í húsinu um áratuga skeið. Um 1985 var húsinu skipt upp í fjórar íbúðir sem eru í eigu fjögurra aðila í dag.


Heimildir:

Gagnasafn Húsafriðunarnefndar (styrkumsóknir).

Minjasafn Reykjavíkur. Húsaskrá.

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Sigrún Pálsdóttir (2010). Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. Reykjavík: JPV útgáfa.


Sjá loftmynd