Fara í efni
Til baka í lista

Laugavegur 20b

Laugavegur 20B
Friðlýst hús

Byggingarár: 1903

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 13. september 2011 með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001.  Friðunin nær til ytra byrðis hússins.

Byggingarefni

Timburhús. 

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, húsið að Laugavegi 20B í Reykjavík, 13. september 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þegar Húsafriðunarnefnd ákvað að leggja til við ráðherra að friða 11 hús við Laugaveg árið 2007 var einkum litið til þess að húsin hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, flest þeirra hafa einnig mikið listrænt gildi og mörg hver töluvert menningarsögulegt gildi. Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt.

Friðun Laugavegar 20B nær til ytra byrðis timburhússins við Laugaveg, sem byggt var árið 1903.

Húsið byggði Pétur G. Hjaltested af miklum stórhug. Þetta þriggja hæða hús var afar stórt miðað við önnur hús sem voru í byggingu á þessum tíma. Á fyrstu hæðinni hafði Pétur verslun sína, en í henni var tvísett búðarborð með glerkössum og skápar á veggjum með fimmtíu skúffum og glerhurðum. Pétur hafði mörg járn í eldinum, var gull- og úrsmiður, smíðaði söðla og hnakka og var um tíma með hljóðfæraverslun í húsinu. Efri hæðirnar leigði Pétur, m.a. bæjarsjóði Reykjavíkur fyrir barnmargar fjölskyldur og var því oft mannmargt í húsinu. Til dæmis voru þar skráðir tuttugu manns á átta heimilum árið 1906.

Árið 1915 keypti veitingakonan Kristín Dahlsted húsið. Þá var það í mikilli niðurníðslu og gerði hún umfangsmiklar breytingar á neðstu hæðinni og lét útbúa þar sal sem tók 220 manns í sæti.  Á Fjallkonunni var sjaldnast færra en 12 til 15 manna starfslið, sex í eldhúsi, fjórar stúlkur í sal og tveir þjónar og fiðluleikari spilaði fyrir gesti öll kvöld með hljómsveit. Auk þess hafði sjálfspilandi píanó mikið aðdráttarafl. Kristín og Axel eiginmaður hennar voru jafnan bæði í eldhúsinu og sáu um matreiðsluna. Í fyrstu gekk reksturinn vel, en eftir ýmis áföll, m.a. spænsku veikina, neyddist Kristín til að selja húseignina árið 1918.

Margvísleg starfsemi hefur farið fram í húsinu í tímans rás. Þar var m.a. klæðskeraverkstæði og verslunin Últíma, raftækjaverslun, prjónastofa, fornbókaverslun og antíkbúð. Náttúrulækningafélag Íslands hefur rekið matsölu í húsinu um árabil.

 

Heimildir:

Freyja Jónsdóttir (2004, 5. janúar). Laugavegur 20b. Morgunblaðið - Fasteignablað, bls. 10.

Hafliði Jónsson (1961). Kristín Dahlstedt veitingakona. Endurminningar. Reykjavík: Bókaútgáfan Muninn.

Nikulás Úlfar Másson(2000). Byggingasaga. Vestanvert Skólavörðuholt. Skýrsla Árbæjarsafns nr. 78. Reykjavík: Árbæjarsafn.