Fara í efni
Til baka í lista

Lindargata 7, Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar

Jan.-2010_1651240066899
Friðlýst hús

Byggingarár: 1934

Hönnuðir: Einar Sveinsson arkitekt og Sigmundur Halldórsson húsameistari

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 28. mars 2011 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun. Friðunin nær til ytra byrðis hússins.

 

Húsið er eitt af frumverkum funksjónalismans hér á landi, einföld og stílhrein bygging sem jafnframt er óvenjuleg gerðrar, byggð sem íþróttahús sem lagað er að hornlóð í þéttri byggð. Það hefur haldið ytra útliti án verulegra breytinga og er jafnframt eitt af elstu verkum höfunda sinna. Húsið hefur því mikla sérstöðu í sögu byggingarlistar á Íslandi.

Þegar Jón Þorsteinsson (1898-1985) kom til landsins árið 1924 sem menntaður íþróttakennari stofnaði hann íþróttaskóla, sem hann nefndi Müllersskóla, vegna þeirra æfinga sem hann lagði áherslu á að kenna. Í upphafi var skólinn til húsa í Austurstræti 16 og síðar í Austurstræti 14. Árið 1935 lét Jón reisa íþróttahús við Lindargötu, sem þótti mikið stórvirki og afar glæsilegt. Þar voru tveir fimleikasalir, áhaldageymslur, fullkomin búningsherbergi, sturtuklefi og meira að segja gufubaðstofa. Í húsinu var miðstöð og sérstakt lofthitunartæki fyrir báða salina. Þegar húsið var vígt í nóvember 1935 var hrifning manna mikil og var húsinu lýst þannig:

Í þessu fagra húsi, sem er fegurst allra íþróttahúsa á Norðurlöndum, á að þjálfa fegurstu mennina og fegurstu konurnar til þess að verða hraustustu og duglegustu borgararnir.

Jón Þorsteinsson bjó í húsinu ásamt Eyrúnu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni. Þar rak hann íþróttaskóla til ársins 1976. Nær öll starfsemi íþróttafélagsins Ármanns fór fram í húsinu og þar var fyrsta baðstofan til almenningsnota í Reykjavík. Á sumrin lánaði Jón vini sínum Jóhannesi Kjarval stóra leikfimisalinn til að mála og þar hélt hann myndlistarsýningar. Þjóðleikhúsið hóf leiksýningar í húsinu árið 1987, fyrst í kjallara og síðar í leikfimisal, en áður hafði það flutt þangað skrifstofur og æfingaaðstöðu.

 

Heimildir:

Guðjón Friðriksson (1994). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940. Síðari hluti. Reykjavík: Iðunn.

Leikminjasafn Íslands (ódags.). Íslensk leikhús. Þjóðleikhúsið (Hverfisgata 19). http://www.leikminjasafn.is/leiksaga/lhthjodl.html.