Fara í efni
Til baka í lista

Miðbæjarskólinn, Fríkirkjuvegur 1

Midbaejarskolinn-17.09.2005.-GLH-007
Friðlýst hús

Byggingarár: 1898

Byggingarár: Mið- og norðurálma smíðaðar 1897-1898 og suðurálma 1907.

Hönnuður: Christian Brandstrup arkitekt.

Breytingar: Þaki á leikfimisal breytt og baðhúsi komið fyrir undir leikfimisal 1920-1922.

Hönnuður: Jón Þorláksson verkfræðingur.

Hæð smíðuð ofan á leikfimisal 1947.

Hönnuður: Einar Sveinsson arkitekt.

Friðun

Friðaður í B-flokki af borgarstjórn 25. apríl 1978 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.

Friðaður af menntamálaráðherra 22. apríl 1996 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til herbergjaskipunar í suður- og vesturálmu á báðum hæðum, nánar tiltekið til ganga, stiga og skólastofa. Auk þess leikfimisalar í norðurálmu, svo og bað- og búningsklefa í kjallara norðurálmu og smíðastofu í kjallara vesturálmu.


Miðbæjarskólinn er elsta barnaskólahús í Reykjavík í upprunalegri mynd og hýsti lengi Barnaskóla Reykjavíkur, sem var eini opinberi barnaskólinn í Reykjavík þar til Austurbæjarskólinn var tekinn í notkun um 1930.

Húsið er U-laga að grunnfleti, tvílyft timburhús á hlöðnum grunni, klætt bárujárni frá upphafi. Þak er með lágum valma einnig klætt bárujárni.

Húsið er byggt í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn var L-laga þ.e. norðurálma  og vesturálma meðfram Fríkirkjuvegi. Við austurenda norðurálmu var síðan leikfimisalur á jarðhæð.

Í þessum áfanga voru 12 kennslustofur á tveimur hæðum í vesturálmunni, en skrifstofa, íbúð skólastjóra og húsvarðarherbergi í norðurálmu. Í kjallara voru geymslur, eldhús kolageymsla, kynding og smíðaherbergi. Þessi áfangi var vígður 1898.

Húsið er allt klætt innan með strikuðum panil. Hann var liggjandi upp í 1.3 metra hæð,  þá kom brjóstlisti, en síðan standandi panill þar ofan. Loft voru einnig klædd strikuðum panil.

Gólf voru upphaflega ferniseruð fjalagólf en voru síðan klædd línoleumgólfdúk.

Fyrsti áfangi hússins var teiknaður af C. Brandstrup, arkitekt hjá Stadsarkitekten í Kaupmannahöfn. Yfirsmiður var Jón Sveinsson snikkari. Smíðin tók eitt sumar.

Næsta áfanga, suðurálmuna, byggði Pétur Ingimundarson byggingarmeistari árið 1908. Í þessum áfanga voru 10 kennslustofur á tveimur hæðum en í kjallara var gerð íbúð húsvarðar.

Árið 1923 var leikfimisalnum lyft, gerður kjallari þar undir og komið þar fyrir búnings- og sturtuklefa.

Árið 1947 var byggð porthæð ofan á leikfimisalinn eftir teikningum Einars Sveinssonar og komið þar fyrir lækningastofum.

Þá voru allir veggir og loft í kennslustofum klædd, ýmist með masonít eða krossviðarplötum. Yfir samskeyti eða til að búa til mynstur voru settir kúptir listar og allt síðan málað.