Fara í efni
Til baka í lista

Mýrargata 24, Garðhús

Lagargata 2
Friðlýst hús

Byggingarár: 1884

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 1. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.


Steinbær þessi nefnist Garðhús. Hann er nú skráður að Mýrargötu 24, en hefur bæði verið skráður að Lagargötu 2 og  Bakkastíg 9.

Steinbærinn Garðhús var byggður árið 1884 af Bjarna Oddssyni og var lóðin mæld út úr Ánanaustalandi. Hliðaveggir bæjarins eru hlaðnir úr höggnum grásteini, en stafnar eru úr bindingi sem í er hlaðið múrsteini. Litlar breytingar hafa verið gerðar á steinbænum, þó viðbyggingar hafi verið byggðar við hann, þeim breytt og teknar niður. Bjarni starfaði sem hafnsögumaður og stundaði því ekki búskap og var því tómthúsmaður. Eiginkona Bjarna var Þuríður Eyjólfsdóttir. Hún þótti hinn mesti skörungur, stórgáfuð og mikill persónuleiki. Hún  var vel að sér í íslenskum fræðum og kunni býsn af ljóðum. Hún safnaði ljóðabókum, sem hún batt inn í gott band. Undir hennar verndarvæng áttu skáld og menntamenn athvarf og því fór oft fram lífleg umræða í Garðhúsum þar sem bókleg mennt var í hávegum höfð og mikið lesið. Eftir að eiginmaður hennar lést flutti hún í viðbyggingu við Garðhús, einlyft timburhús. Það hús var rifið árið 1997.

 

Hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir keyptu Garðhús árið 1903. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm allt til áranna 1941-1942 þegar hún seldi Garðhúsaeignina.

 

Árið 1923 var búið að byggja inngönguskúr úr timbri við vesturhlið steinbæjarins. Árið 1942 var Garðhúsaeignin komin í eigu Hraðfrystistöðvarinnar hf. Það ár var byggt skrifstofu- og geymsluhús úr bindingi við vesturgafl steinbæjarins. Sú viðbygging var einnig rifin árið 1997. Nú eiga Faxaflóahafnir ehf. steinbæinn.

 

Bakkastígur var einnig nefndur Garðhúsastígur.

 

Heimildir:
Húsaskrá Minjasafns Reykjavíkur – Árbæjarsafns.

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Þorsteinn Jónsson (2011). Reykvíkingar 1. Reykjavík: Sögusteinn.


Sjá loftmynd.