Fara í efni
Til baka í lista

Rauðamelskirkja, Eyja- og Miklaholtshreppur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1886

Hönnuður: Ókunnur. 

Breytingar: Í öndverðu var þakið klætt spæni, veggir timburklæddir og í kirkjunni var bogadreginn kórpallur  og prédikunarstóll á frambrún hans.[2] Þak og turn voru klædd bárujárni 1905 og veggir um 1910.[3] Kórpallur var rifinn um 1938 og prédikunarstólinn fluttur að innsta glugga sunnan megin.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Rauðamelskirkja er timburhús, 5,73 m að lengd og 5,60 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og undir honum stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og rammar með alls sex rúðum. Uppi á framstafni yfir kirkjudyrum er hringluggi með krossrima. Á framstafni turns er hljómop með hlera og þverglugga með bogarimum og bjór yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi með bogarimum yfir en bjór efst.

Inn af kirkjudyrum er gangur og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Loft er yfir fremsta stafgólfi framkirkju og klæddur stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir láréttri borðaklæðningu upp undir glugga en reitaþiljum þar fyrir ofan. Dúkur hefur verið felldur inn í reitina utan yfir þiljurnar. Upp undir glugga er lárétt borðaklæðning. Væn strikasylla er efst á veggjum uppi undir reitaskiptri hvelfingu yfir innri hluta framkirkju og kór.


[1]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/4. Rauðimelur 1886.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994 AA/1. Rauðimelur 1891; Biskupsskjalasafn 1994 AA/2. Rauðimelur 1911.

[3]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/6. Rauðimelur: 1905 og 1906; Biskupsskjalasafn 1994 AA/2.  Rauðimelur 1911.

[4]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/8. Rauðimelur 1939; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Rauðamelskirkja, handrit 2009.