Fara í efni
Til baka í lista

Smíðahús, Skipalóni, Eyjafirði

Friðlýst hús

Byggingarár: 1843

Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.[2]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1976.[3]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Smíðahúsið er einlyft timburhús með risþaki, 12,76 m að lengd og 6,63 m á breidd. Húsið er reist af bindingsverki og stendur á steinhlöðnum sökkli. Reykháfur er sunnarlega á mæni. Veggir eru klæddir slagþili og þak rennisúð. Á húsinu eru 11 gluggar með sex rúðum; sex á austurhlið, fimm á vesturhlið og tveir á suðurgafli. Tveir fjögurra rúðu gluggar eru á gaflhyrnu að sunnanverðu og einn smár efst. Vörudyr með vængjahurðum á okum eru á norðurgafli, yfir þeim er okahurð inn á risloft og tveir einnar rúðu gluggar ofar á gaflhyrnunni. Tvennar dyr eru á vesturhlið hússins, önnur nærri miðju hússins og fyrir henni okahurð. Á fjöl yfir henni er málað Th Dsen. Bigde Thettad Pakkhus Ár 1843. Fyrir hinum dyrunum er þverskipt okahurð.

Jarðhæð hússins er einn salur. Í suðurhluta þess eru tvö múruð eldstæði og reykháfur upp af hvoru þeirra og sameinast þeir í einn á rishæð. Veggir hússins eru óklæddir að innan og norðurhluti þess er opinn upp undir mæni. Þverbitar eru milli hliðarveggja og skammbitar ofarlega á milli sperra. Risherbergi er þiljað af í suðurenda hússins með þverþili norðan við skorsteina. Þverþilið er klætt lóðréttum borðum upp undir skammbita en láréttum ofan hans. Þak er klætt skarsúð. Húsið er ómálað að innan en að utan er það allt tjargað nema gluggar sem eru málaðir.



[1]Áletruð fjöl á Smíðahúsinu.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 168. Reykjavík 1998.

[3]Þór Magnússon. Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1984, 210-211. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1984. Reykjavík 1985.