Fara í efni
Til baka í lista

Snóksdalskirkja, Miðdalahreppi, Dalabyggð

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1875

Byggingarár: 1875–1876.[1]

Hönnuðir: Taldir vera Einar Sigurðsson frá Kaðalstöðum og Halldór Bjarnason kirkjusmiður.[2]

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan timburklædd að utan og bikuð og stóð á steinhlöðnum sökkli. Í gluggum var miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar.[3] Þak var klætt bárujárni 1888 og veggir um 1897–1905.[4] Árið 1976 var steyptur sökkull undir kirkjuna, hún klædd álplötum og gluggum breytt.[5]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Snóksdalskirkja er timburhús, 9,93 m að lengd og 6,31 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með hljómopi á framstafni og risþaki. Þak er bárujárnsklætt en veggir klæddir álplötum með paneláferð og kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn minni ofarlega á hvorum stafni. Í gluggum er miðpóstur og þverrimar um sex rúður. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Yfir framkirkju er setuloft á bitum inn að kórþili og stigi við framgafl sunnan megin. Kórþil er í baki innstu bekkja og er klætt spjaldaþili. Kórstafir eru í kórdyrum og bogi yfir og einn bogi hvorum megin yfir kórþili og undir þeim hálfstoðir við veggi. Bekkir eru með veggjum í kór. Prédikunarstóll er við kórgafl uppi yfir og innan altaris. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Málaður skrautbekkur er efst á veggjum, fléttumunstur í framkirkju en Alexandersbekkur í kór. Yfir kór er reitaskipt hvelfing en yfir setulofti skarsúð á sperrum og loft á skammbitum.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 121. Bréf 1876. Byggingarreikningur Snóksdalskirkju árið 1875–1876.

[2]Jón Samsonarson. Í Snóksdal, 46-47. Breiðfirðingur 1991.

[3]ÞÍ.BiskupsskjalasafnC. V, 121. Bréf 1876. Lýsing Snóksdalskirkju 1876.

[4]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Dalaprófastsdæmi AA/9.Snóksdalur 1888, 1898 og 1905.

[5]ÞÍ.Skjalasafn prófasta.Snæfellsnessprófastsdæmi.Snóksdalur 1983;Guðmundur L. Hafsteinsson, Kirkjur Íslands, Snóksdalskirkja, handrit 2009.