Fara í efni
Til baka í lista

Staðarfellskirkja, Fellsströnd

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1891

Hönnuður: Guttormur Jónsson forsmiður.[1]

Breytingar: Í öndverðu var þak kirkju klætt járni en veggir listaþili og hún stóð á steinhlöðnum sökkli. Í gluggum voru átta rúður og yfir þeim laufsagaðar rósir en þrír minni gluggar voru á turnhliðum.[2] Árin 1962–1963 voru gerðar ýmsar breytingar á kirkjunni. Sökkull var styrktur með steinsteypu, kirkjan klædd bárujárni að utan en bjúgstallur og turnþak eirklædd og gluggarammar fjarlægðir. Veggir voru klæddir krossviði að innan, skot þiljuð af hvorum megin altaris og kirkjan skrautmáluð af Jóni og Grétu Björnsson.

Hönnuður: Embætti Húsameistara ríkisins.[3] 

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarfellskirkja er timburhús, 10,21 m að lengd og 6,34 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 2,01 m að lengd og 3,22 m á breidd. Þak kirkju er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með lauklaga þaki og bjúgstalli undir. Kirkjan er bárujárnsklædd en bjúgstallur og turnþak eirklædd og stendur kirkjan á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar, tveir minni á framstafni yfir forkirkju og einn á framhlið turns. Í þeim er krosspóstur og fjórar rúður. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp á söngloft og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af dyrum er gangur og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Fyrir kórgafli er hár kórpallur, sveigður á framhlið og girtur handriði með renndum pílárum. Hvorum megin altaris eru afþiljaðir klefar, geymsla að norðanverðu en skrúðhús að sunnanverðu. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og er frambrún þess bogadregin. Tvær turnstoðir eru á loftinu. Veggir eru klæddir plötum og efst á þeim er strikasylla. Reitaskipt hvelfing klædd sinkplötum er stafna á milli.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 122. Bréf 1892. Bréf prófasts til biskups. Reikningur yfir byggingarkostnað á Staðarfellskirkju sumarið 1891.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 122. Bréf 1892. Lýsing á Staðarfellskirkju og frumteikning Guttorms Jónssonar.

[3]ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994 AA/11. Staðarfell 1963; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Staðarfellskirkja, handrit 2009.