Fara í efni
Til baka í lista

Staðarhraunskirkja, Hítardalur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1888

Byggingarár: 1888–1889.

Hönnuður: Þorsteinn S. Hjálmarsson forsmiður.[1]

Breytingar: Í öndverðu var þak spónlagt en veggir klæddir láréttri plægðri borðaklæðningu og á kirkjunni voru ferstrendir fjögurra rúðu gluggar. Hvelfing var yfir kór en súðarloft yfir framkirkju.[2]

Árið 1895 var smíðað loft í fremsta stafgólf framkirkju en hvelfing yfir innri hluta framkirkju inn að kórhvelfingu. Um 1900 voru suðurhlið og kórbak klædd bárujárni og þakið um 1910.[3] Árið 1954 voru steyptir veggir utan um kirkjuna, bogadregnir gluggar settir í hana, forkirkja úr steinsteypu byggð og kirkjan klædd innan með masónítplötum.[4] Um 1990 var kirkjan klædd innan með strikuðum panelborðum.[5] Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarhraunskirkja er timburhús, hjúpað steinsteypu, 8,10 m að lengd og 5,31 m á breidd, með steinsteypta forkirkju undir minna formi, 2,23 m að lengd og 2,38 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er lágur ferstrendur turn og á honum píramítaþak. Kirkjan er múrhúðuð, þök og turn klædd bárujárni en turnþak sléttu járni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með sjö rúðum, einn á framstafni kirkju og lítill gluggi sömu gerðar hvorum megin á forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju eru dyr með spjaldsettum vængjahurðum, gangur inn af þeim og sveigðir bekkir hvorum megin hans en bekkir með veggjum í kór. Afþiljað loft er yfir fremsta stafgólfi framkirkju og stigi að norðanverðu við framgafl. Veggir forkirkju eru múrhúðaðir en í framkirkju og kór eru veggir klæddir spjaldaþili úr misbreiðum strikuðum panelborðum. Undir miðsyllu á stöfnum eru listar yfir samskeytum borða. Strikasylla er efst á veggjum uppi undir borðaklæddri hvelfingu yfir innri hluta framkirkju og kór.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 101. Bréf úr Mýraprófastsdæmi 1889. Kostnaður við byggingu Staðarhraunskirkju; Biskupsskjalasafn C. V, 101. Bréf úr Mýraprófastsdæmi 1890. Úttekt á Staðarhrauni 25. júlí 1890.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 101. Bréf úr Mýraprófastsdæmi 1889. Lýsing á Staðarhraunskirkju; Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/10. Staðarhraun 1911.

[3]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 101. Bréf 1897. Reikningur yfir viðgerðarkostnað Staðarhraunskirkju árið 1895; Bréf 1903. Afhending Staðarhraunskirkju 22. ágúst 1901; Skjalasafn prófasta. Mýraprófastsdæmi AA/10. Staðarhraun 1911. 

[4]ÞÍ.Biskupsskjalasafn 1994 AA/7 og 12. Staðarhraun 1958 og 1969. 

[5]Guðbrandur Guðbrandsson. Viðtal 1998;Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Staðarhraunskirkja, handrit 2009.