Staðarkirkja, Steingrímsfirði

Byggingarár: 1855
Hönnuður: Einar Einarsson smiður.
Saga
Staðarkirkja er fyrst nefnd í kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbirkups frá um 1200 en jörðin er þar nefnd Breiðabólstaður og í elsta varðveitta máldaga kirkjunnar kemur fram að hún var Maríukirkja og allra heilagra. Núverandi kirkja var reist í stað torfkirkju sem var í slæmu ástandi samkvæmt vísitasíu frá árinu 1852.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Staðarkirkja við Steingrímsfjörð er timburhús, 11,46 m að lengd og 4,83 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Tígulgluggi er á framhlið turns og hljómop á hvorri hlið. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli og er klædd slagþili en þök bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni er á framstafni uppi yfir dyrum. Kvistur með fjögurra rúðu glugga er á suðurþekju yfir prédikunarstóli. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.
Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Hurð er fyrir innsta bekk norðan megin og bak hans klætt niður í gólf. Kórþil klætt spjaldaþili er í háu baki kórbekkja og kórdyrabogi, randskorinn á neðri brún, er uppi undir hvelfingu. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili og tvær skástoðir styðja við veggi. Yfir fremri hluta framkirkju er afþiljað loft á bitum og stigi við framgafl sunnan megin. Yfir innri hluta framkirkju er borðaklætt listað súðarloft en borðaklædd listuð hvelfing sett stjörnum yfir kórnum.