Fara í efni
Til baka í lista

Stykkishólmskirkja, Stykkishólmur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1878

Byggingarár: 1878–1879.

Hönnuður: Helgi Helgason forsmiður í Reykjavík.[1] Yfirsmiður kirkjunnar, Jóhannes Jónsson í Reykjavík, og Sveinn Jónsson frá Djúpadal eru einnig taldir hafa mótað kirkjuna.[2]

Breytingar: Um 1900 var turni kirkjunnar breytt verulega. Hann var færður til upprunalegs horfs 1998.

Hönnuður: Jon Nordsteien arkitekt.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Stykkishólmskirkja er timburhús, 10,90 m að lengd og 7,70 m á breidd. Þakið er krossreist og lagt skífum. Upp af framstafni er ferstrendur turn með skífulögðu risþaki en undir honum er stallur. Hljómop með vængjahlerum og bogaglugga yfir er á framstafni turns. Kirkjan er klædd listaþili nema framstafn sem klæddur er láréttum plægðum borðum og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir krosspóstagluggar. Í þeim eru þriggja rúðu rammar neðan þverpósts og tveir rammar undir fjórðungsboga að ofan og laufskurður efst. Hringgluggi með krossrima er á framstafni uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Inn af dyrum er gangur og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Hár kórpallur er innst í kirkjunni, bogadreginn á framhlið og girtur handriði. Söngloft er yfir fremri hluta framkirkju og klæddur stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir láréttri borðaklæðningu uppi undir glugga en spjaldaþili þar fyrir ofan. Væn strikasylla er efst á veggjum og reitaskipt hvelfing stafna á milli.


[1]Áætlun Helga Helgasonar um kirkjubyggingu í Stykkishólmi. Ódagsett. ABS;Hjörleifur Stefánsson. Stykkishólmskirkja. Greinargerð 1994. Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 243. Reykjavík 1998.

[3]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Snæfellsnessprófastsdæmi AA/6. Stykkishólmur 1902; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Stykkishólmskirkja, handrit 2009; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Stykkishólmskirkja.