Fara í efni
Til baka í lista

Suðurgata 26a, Skólabær

Suðurgata 26
Friðlýst hús

Byggingarár: 1889

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 18. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis hússins.

Byggingarefni

Steinhlaðið hús.


Upphaf þessa húss má rekja til þess að árið 1889 lengdi Jón Valdason torfbæ sem faðir hans, Valdi Valdason, hafði byggt rétt fyrir miðja 19. öld í landi Hólakots. Jón hlóð veggina að nokkru leyti upp úr tilhöggnu grjóti. Húsið stendur ennþá að mestu óbreytt frá þessum tíma, nema hvað inngönguskúrinn var stækkaður árið 1929 eftir teikningum Einars Erlendssonar húsameistara. Húsið stóð nærri þeim stað sem Hólavallaskóli hafði staðið og var því nefnt Skólabær.

Árið 1972 eignaðist Háskóli Íslands gamla steinbæinn ásamt vönduðu steinsteyptu íbúðarhúsi á sömu lóð. Húseignirnar voru gjöf frá hjónunum Jóni E. Ólafssyni hæstaréttarlögmaður (f. 1893, d. 1982) og Margréti Jónsdóttur f. 1890, d. 1965). Jón Ólafsson var kunnur borgari í Reykjavík á sinni tíð, austfirskur að uppruna. Hann lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1923, síðastur íslenskra lagamanna, starfaði við lögfræðistörf í Kaupmannahöfn um hríð, en í Reykjavík frá 1926. Hann var lengi forstjóri líftryggingafélagsins Andvöku og forstjóri Samvinnutrygginga 1954-1958. Margrét kona hans var dóttir síðustu ábúenda í Skólabæ í Reykjavík, hjónanna Jóns Valdasonar og Sigríðar Jónsdóttur.


Heimildir:

Gagnasafn Húsadeildar Minjasafns Reykjavíkur - Árbæjarsafns.

Páll Sigurðsson. 1991. Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands, II. bindi. Reykjavík: Háskóli Íslands