Fara í efni
Til baka í lista

Þingholtsstræti 1

Þingholtsstræti 1
Friðlýst hús

Byggingarár: 1892

Viðbygging reist árið 1907.

Byggingarefni

Steinhlaðið hús. Viðbygging frá 1907 úr timbri.

Friðun

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 31. desember 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær til ytra byrðis hússins og viðbyggingar sem reist var árið 1907.


Árið 1892 keypti Jón Þórðarson kaupmaður gamalt timburhús á lóð þessari. Hann lét rífa gamla húsið sama ár og byggði á lóðinni vandað hús úr steini. Fimm árum síðar stækkaði Jón húsið og hefur það þá fengið þá stærð sem það hefur í dag (fyrir utan gluggastofu Bankastrætismegin við húsið), tvílofta með brotnu þaki. Þá var sölubúð á jarðhæð hússins með hillum, skúffum og skápum auk tveggja ómálaðra geymsluherbergja. Á næstu hæð voru fjögur íbúðarherbergi og eldhús og á efsta lofti voru fimm herbergi. Kjallari var undir öllu húsinu, sem hólfaður var í tvennt. Árið 1907 byggði Jón tvílyft timburhús upp með Þingholtsstræti, sem er áfast steinhúsinu. Á neðri hæð voru þrjú íbúðarherbergi, eldhús, gangur og tveir fastir skápar.

Jón Þórðarson var mikill brauðryðjandi í verslunarrekstri á Íslandi. Í fyrstu höndlaði hann fyrst og fremst með matvörur, rak stórt sláturhús, reykhús og pylsugerð. Aðstandendur Jóns tóku við verslunarrekstrinum eftir hans dag og Verzlun Jóns Þórðarsonar var rekin í húsinu frá á 7. áratug síðustu aldar, en síðustu árin var aðallega verslað með búsáhöld og gjafavöru. Síðustu áratugina hefur veitingastaður verið rekinn í húsinu.

 

Heimildir:

Freyja Jónsdóttir (2002, 29. janúar). Þingholtsstræti 1. Morgunblaðið, bls. 34 C.

Gunnar Magnússon (1951). Reykvísk verzlunarfyrirtæki III. Verzlun Jóns Þórðarsonar. Frjáls verzlun, 13. árg., 7-8. tbl., bls. 96-97.

Minjasafn Reykjavíkur. Húsaskrá.


Sjá loftmynd