Fara í efni
Til baka í lista

Þingholtsstræti 9 - Árbæjarsafn

Þingholtsstræti 9
Friðlýst hús

Byggingarár: 1846

Friðun

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Byggingarefni

Stokkbyggt timburhús. Flutt í Árbæjarsafn 1969.


Húsið sem stóð við Þingholtsstræti  9 í Reykjavík var reist af Helga Jónssyni (1809-1879) snikkara árið 1846. Sagt er að hann hafi reist húsið úr timbri sem gekk af þegar Latínuskólinn (Menntaskólinn í Reykjavík) var byggður á árunum 1843 til 1846. Þorsteinn Gunnarsson segir að húsið hafi verið sniðið af smekkvísi og kunnáttu og sjá megi að Helgi hafi verið útsjónarsamur og gert sér mat úr smáu við smíði hússins . Þorsteinn segir einnig:  Innandyra hefur hann [Helgi Jónsson] komið öllu haganlega fyrir, þó að segja megi að húsið standi honum víða á beini. Hann hefur ekki verið upptendraður af óhófi fremur en þeir sem settur bæjarbraginn í höfuðstaðnum á öndverðri 19. öld, og húsið er prýðilegt dæmi um íbúðarhús handverksmanna frá þeirri tíð þegar nægjusemin taldist enn til dyggða. (Söguspegill, bls. 156).

Helgi bjó í húsinu með fjölskyldu sinni, m.a. sonunum Jónasi og Helga sem voru áberandi í tónlistarlífi bæjarins og stofnuðu Söngfélagið Hörpuna og Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur. Helgi nam trésmíði hjá föður sínum og með verkum sínum setti hann sterkan svip á íslenska húsagerð á síðustu áratugum 19. aldar. Líklega að tilstuðlan bræðranna voru haldin böll í húsinu, dansað í Suðurstofunni og kaffi drukkið í Norðurstofunni.

Daníel Símonarson söðlasmiður eignaðist húsið árið 1881 og seldi þar framleiðslu sína. Guðrún dóttir hans veitti stúlkum tilsögn í dönsku og gítarspili, en hún bjó í húsinu til ársins 1945 þegar hún lést og fór þá fram húskveðja á heimili hennar. Eftir hennar dag hóf Friðjón Sigurðsson rekstur skóvinnustofu í húsinu.

Árið 1908 var Bakarasveinafélag Íslands stofnað í húsinu, en þá bjó þar Guðmundur Guðmundsson bakarasveinn.

Árið 1969 var Þingholtsstræti 9 flutt í Árbæjarsafn, en þá hafði húsið staðið autt um tíma. Umsjón með því verki hafði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.


Heimildir

Á fimtíu ára afmæli sínu var Reykjavík torfbæaborg (1949, 6. nóvember). Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl., XXIV. árg.

Hannesarholt (ódags.). Þingholtsstræti 9 – (nú á Árbæjarsafni). Sótt  18. otkóber 2012 af http://www.hannesarholt.is/fro%C3%B0leikur/%C3%BEingholtin/husin-vi%C3%B0-%C3%BEingholtsstr%C3%A6ti/%C3%BEingholtsstr%C3%A6ti-9/.

Hörður Ágústsson (2000). Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.

Söguspegill. Afmælisrit Árbæjarsafns(1992). Ritstjóri: Helgi M. Sigurðsson. Reykjavík: Árbæjarsafn og Hið íslenzka bókmenntafélag.