Fara í efni
Til baka í lista

Thorvaldsensstræti 2, Gamli Kvennaskólinn við Austurvöll

Thorvaldsensstræti 2
Friðlýst hús

Byggingarár: 1878

Hönnuður: Helgi Helgason trésmiður og tónskáld 

Byggingarefni: Timbur

Friðlýsing

Húsið var friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 19. maí 2011, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis framhússins við Thorvaldsensstræti sem byggt var árið 1878. 

Með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar ákvað forsætisráðherra að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa Nasa-salinn, sem er salur í bakálmu hússins og tekur friðlýsingin til innviða, rýmisskipunar og varðveittra hluta af upprunalegum innréttingum.

 

Í Húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur númer 125 segir um Thorvaldsensstræti 2: 

Á þessari lóð var fyrst reist hús árið 1835. Í því húsi stofnuðu hjónin Thora Grímsdóttir og Páll Melsted Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874. Þau létu rífa húsið árið 1878 og reistu núverandi hús á lóðinni með þarfir skólans í huga en húsið var jafnframt heimili þeirra hjóna. Framhlið hússins var skreytt með útskornum flatsúlum og yfir inngangi á suðurgafli og gluggum á framhlið voru bjórar en úrskornar vindskeiðar á kvistinum og göflum. Í æviminningum sínum segir Páll Melsted að viðirnir í húsinu hafi verið frá Halmstad í Svíþjóð en allt kalk tekið úr Esjunni. Árið 1880 var komið nýtt geymsluhús úr bindingi á lóðina og er það virt fram til ársins 1935. Þegar húsið var virt 1915 var í fyrsta sinn minnst á ris og að við vesturhlið hússins væri inngönguskúr. Þá var Hallgrímur Benediktsson kaupmaður orðinn eigandi hússins en hann bjó í því ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1928. Árið 1927 var kominn nýr inngönguskúr við suðurgafl hússins með veggsvölum. Húsinu var breytt í skrifstofur árið 1935. Þá var allt húsið járnvarið. Árið 1946 var húsinu breytt og það stækkað með viðbyggingu til vesturs. Húsið var þá allt múrhúðað að utan með skeljasandi. Þá þjónaði það hlutverki samkomu- og veitingahúss. Árið 1997 var hafist handa við endurgerð á húsinu og það fært til eldra horfs. Árið 2002 var húsinu enn á ný breytt í skemmtistað og í dag (2005) er skemmtistaðurinn Nasa rekinn í húsinu.

Salur Sjálfstæðishússins (Nasa-salurinn) í bakálmu Thorvaldsenstrætis 2 endurspeglar í gerð sinni, rýmisskipan, hlutföllum, skreyti og andrúmi tíðaranda 5. áratugarins þegar ensk-amerísk áhrif í tónlist, tísku og byggingarstíl voru áberandi. Á undanförnum mánuðum hafa fjölmargir vakið opinberlega máls á sögulegu og tilfinningalegu gildi salarins og þátt hans í menningar- og félagslífi Reykvíkinga um miðbik 20. aldar. Enginn samkomusalur með hliðstæðum einkennum hefur varðveist í jafn heillegri mynd í Reykjavík. Menningargildi salarins felst ennfremur í tengingu hans við íslenska tónlistarsögu en þar var vettvangur tónleikahalds um áratuga skeið. 



 

Heimild: 

Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2005). Húsakönnun. Aðalstræti – Vallarstræti – Thorvaldsensstræti – Kirkjustræti. Skýrsla nr. 125. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur.

 

Sjá loftmynd.