Fara í efni
Til baka í lista

Víðidalstungukirkja, Húnaþing vestra

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1889

Hönnuður: Halldór Bjarnason bóndi og kirkjusmiður frá Litlugröf í Borgarhreppi.

Saga

Víðidalstungukirkju er fyrst getið í Auðunarmáldaga frá 1318 og var þá helguð Jóni babtista (Jóhannesi skírara). Núverandi kirkja er reist á grunni torfkirkju frá 1805.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Víðidalstungukirkja er timburhús, 9,28 m að lengd og 7,38 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,70 m að lengd og 3,83 m á breidd, og forkirkju við vesturstafn, 2,70 m að lengd og 3,85 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með krossreist þak. Hann stendur á bjúgstalli. Undir þakskeggi turns eru skornir sperruendar og randskornar vindskeiðar undir þakbrúnum. Kirkjan er klædd bárujárni, turn sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum, einn heldur minni á hvorri hlið kórs og tveir ofarlega á framstafni. Í gluggum er miðpóstur og þverrimar. Póstgluggi með tveimur þriggja rúðu römmum er á framhlið turns og bjór yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi og bjór.

Í forkirkju sunnan megin er stigi upp á söngloft yfir fremsta hluta framkirkju og spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um tvö þrep. Hvorum megin gangs eru aftursættir bekkir en veggbekkir hvorum megin í kór og á sönglofti. Veggir forkirkju, framkirkju og kórs eru plötuklæddir. Efst á veggjum í innri hluta framkirkju og kór er strikasylla en flatsúlur í kórdyrum og strikaður bogi yfir. Undir sönglofti eru fjórar stoðir og á loftinu portveggir. Yfir því er plötuklædd súð en flatt loft yfir miðhluta. Yfir innri hluta framkirkju og kór eru plötuklæddar hvelfingar.

Heimild

Kirkjur Íslands, 7. bindi, bls. 289 - 318