Fara í efni

Friðlýst hús og mannvirki

Friðlýst hús og mannvirki eru nú 557 að tölu, þarf af eru 342 friðlýst hús og mannvirki og 215 friðlýstar kirkjur. Það skal þó tekið fram að fjöldi íbúða / eignarhluta / húsnúmera er þó meiri, því í nokkrum tilvikum er um fjölbýlishús að ræða eða húsaraðir undir einu heiti. Á þetta til dæmis við um eftirtaldar byggingar í Reykjavík: Verbúðirnar við Grandagarð (39 húsnúmer), Hringbraut 35 til 49 (8 húsnúmer), Bankahúsin við Framnesveg (12 húsnúmer) og Verkamannabústaðina við Hringbraut (44 húsnúmer).

Við gildistöku laga um menningarminjar nr. 80/2012 1. janúar 2013 féllu lög um húsafriðun nr. 104/2001 úr gildi. Samkvæmt þeim lögum voru öll hús á Íslandi friðuð sem byggð eru fyrir 1850 og allar kirkjur sem byggðar eru fyrir 1918. Friðun samkvæmt eldri lögum samsvarar friðlýsingu í gildandi lögum. Þegar núgildandi lög tóku gildi voru 502 friðlýstar byggingar á landinu öllu. Af þeim eru 215 friðlýstar kirkjur. 262 byggingar voru friðaðar vegna aldurs skv. eldri lögum og 147 friðaðar með ákvörðun ráðherra eða sveitarstjórnar skv. eldri þjóðminjalögum, nr. 52/1969. Auk þess hafði ráðherra friðað yngri byggingar að tillögu húsafriðunarnefndar, sem talin voru hafa sérstakt hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.


Hótel Borg
Hótel Borg
Friðlýst hús
Byggingarár 1930
Eimskipafélagshúsið
Eimskipafélagshúsið
Friðlýst hús
Byggingarár 1919
Pósthússtræti 3
Gamli barnaskólinn
Friðlýst hús
Byggingarár 1882
Pósthússtræti 5
Pósthúsið
Friðlýst hús
Byggingarár 1914
Keldur - Keldnavegur 5
Friðlýst hús
Byggingarár 1963
Ægisgarður
Friðlýst mannvirki
Skildinganes 15
Skildinganes 15
Friðlýst hús
Byggingarár 1874
Saurbaer-03
Kjalarnes
Friðlýst kirkja
Byggingarár 1902
Sjomannaskoli
Háteigsvegur
Friðlýst hús
Byggingarár 1942
Skálholtsstígur 6
Skálholtsstígur 6
Friðlýst hús
Byggingarár 1909
Landshöfðingjahúsið - Næpan
Friðlýst hús
Byggingarár 1903
Skólastræti 5
Skólastræti 5
Friðlýst hús
Byggingarár 1856

Ferill friðlýsingar

Ráðherra ákveður friðlýsingu að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.

Minjastofnun getur borist ábending um að friðlýsa varðveisluvert hús eða mannvirki eftir ýmsum leiðum, frá eiganda hússins eða öðrum þeim sem telja að varðveita eigi húsið, eða Minjastofnun Íslands hefur frumkvæði að því að húsið skuli friðlýst. Stofnunin lætur þá fara fram mat á húsinu þar sem varðveislugildi þess er metið með hliðsjón af sögu þess, byggingarlist, umhverfisgildi, upprunaleika og tæknilegs ástands áður en ákvörðun er tekin um hvort leggja skuli til við ráðherra að húsið verði friðlýst. Húsafriðunarnefnd skal fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu húsa og mannvirkja. Einnig er leitað álits hús- og landeiganda, viðkomandi sveitarfélags og annarra sem hagsmuna eiga að gæta.

Friðlýsa má hús og mannvirki eða hluta þeirra og getur friðlýsing náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta húss eða mannvirkis. Einnig má friðlýsa samstæður húsa sem hafa sama gildi og að framan greinir og gilda þá reglur friðlýsingar um hvert einstakt þeirra.

Þegar hús eða mannvirki hefur verið friðlýst er friðlýsingunni þinglýst hjá viðkomandi sýslumanni og húseiganda, landeiganda og hlutaðeigandi lögreglustjóra og bæjar- og sveitastjórn tilkynnt um ákvörðunina.

Framkvæmdir við friðlýst hús og mannvirki

Óheimilt er að gera nokkrar breytingar á friðlýstu húsi eða mannvirki án vitundar Minjastofnunar Íslands. Húsafriðunarnefnd skal fjalla um breytingar á friðlýstum húsum og mannvirkjum. Við endurbætur og viðhald friðlýstra húsa og mannvirkja skal leita leyfis Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara.

Vilji eigandi friðlýstrar eignar ráðast í framkvæmd sem leyfi þarf til skal hann í umsókn sinni til Minjastofnunar Íslands lýsa fyrirhuguðum framkvæmdum og láta uppdrátt fylgja. Stofnunin skal svo fljótt sem við verður komið og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst gera eiganda grein fyrir afstöðu sinni. Setji stofnunin það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreindur er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því. Sæki eigandi um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna aukakostnaðar sem hlýst af tilmælum stofnunarinnar skal hann njóta forgangs eftir því sem skyldur sjóðsins og fjárreiður leyfa.

Leyfi stofnunarinnar þarf til að setja skilti eða aðrar áletranir á friðlýst hús eða mannvirki.

Brot á þessum ákvæðum sæta viðurlögum samkvæmt almennum hegningarlögum.

Ef breytingar hafa verið gerðar án leyfis Minjastofnunar Íslands getur stofnunin mælt svo fyrir að eigandi skuli færa það í fyrra horf innan hæfilegs frests.

Ef viðhald friðlýsts húss eða mannvirkis er vanrækt getur Minjastofnun Íslands lagt fyrir eiganda að gera umbætur innan hæfilegs frests. Líði sá frestur án þess að úr sé bætt getur stofnunin látið framkvæma nauðsynlegt viðhald og umbætur á kostnað eiganda eða lagt á dagsektir.

Spjöll á friðlýstu húsi eða mannvirki

Verði friðlýst hús eða mannvirki fyrir spjöllum af eldi eða öðrum ástæðum skal eigandi eða sá er afnot hefur af mannvirkinu gera Minjastofnun Íslands viðvart um það þegar í stað. Lætur stofnunin þá fara fram skoðunargerð og mat á spjöllum.

Niðurrif eða flutningur á friðlýstu húsi eða mannvirki

Vilji eigandi friðlýsts húss eða mannvirkis rífa það eða flytja skal hann sækja um niðurfellingu friðlýsingar til Minjastofnunar Íslands áður en sótt er um byggingarleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi. Stofnunin skal svo fljótt sem við verður komið og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst senda ráðherra umsóknina með tillögum sínum um hvort umsókninni skuli hafnað, hún samþykkt eða að öðrum kosti hvort skilgreina skuli að nýju til hvaða þátta friðlýsing nær.

Eftirlit

Ef byggingarfulltrúi sveitarfélags verður var við að friðað eða friðlýst hús eða mannvirki hafi orðið fyrir spjöllum eða að því sé ekki vel við haldið skal hann gera Minjastofnun Íslands viðvart án tafar.

Minjastofnun Íslands hefur rétt til að framkvæma eiganda að kostnaðarlausu hvers konar eftirlit með friðlýstu húsi og mannvirki og skoðanir sem gera þarf vegna ákvæða laga um menningarminjar.