Fara í efni

Aldursfriðað hús fæst gefins

Gamla íbúðarhúsið á Höfða í Skagafirði fæst gefins gegn því að vera gert upp á nýjum stað.

Húsið var byggt árið 1892 og er því aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Það þýðir að hvorki má rífa það né breyta á nokkurn hátt án samþykkis Minjastofnunar Íslands.

Núverandi eigendur sáu sér ekki fært að viðhalda húsinu og óskuðu eftir heimild til niðurrifs til Minjastofnunar. Samkomulag var gert um að auglýsa húsið gefins ef einhver vildi flytja það af staðnum og gera upp. Flytja þarf húsið af staðnum fyrir 1. júní 2021 og þurfa nýir eigendur að gera áætlun um uppbyggingu á nýjum stað.

Um er að ræða timburhús á tveimur hæðum, klætt með bárujárni og pappa. Efri hæð hússins er undir súð en grunnflötur hússins er 9x5,8 m að utanmáli og vegghæð frá sökkli að þakskeggi er um 2,8 m. Samkvæmt fasteignaskrá reiknast húsið 52,8m2. Húsið er í slæmu ástandi og þarfnast umfangsmikilla viðgerða og endurbóta. Það er þó engu að síður gerlegt og rétt að benda á að hægt er að sækja um styrki til slíks í Húsafriðunarsjóð. 

Húsið hefur ótvírætt varðveislugildi og er að segja má hluti af íslenskri kvikmyndasögu. Það er fyrirferðarmikið í kvikmynd Friðriks Þórs, Bíódögum, og kemur einnig fyrir í kvikmynd hans Börnum náttúrunnar sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna á sínum tíma.

Árið 2016 vann Hjörleifur Stefánsson arkitekt ítarlega úttekt á húsinu og teiknaði það upp. Þá skoðaði minjavörður Norðurlands vestra húsið vorið 2020 og skrifaði um það stutta greinargerð. Báðum greinargerðum fylgir mikið af ljósmyndum sem sýna vel ástand hússins. 

Áhugasömum er bent á að senda póst á postur@minjastofnun.is óski þeir eftir að fá greinargerðarnar sendar í tölvupósti.

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda tölvupóst á undirritaðann á netfangið gudmundur@minjastofnun.is


Hér má nálgast frekari upplýsingar á PDF formi .