Árlegt mót forstöðumanna minjastofnana í Evrópu í Valletta á Möltu

Árlegt mót forstöðumanna evrópskra minjastofnana (European Heritage Heads Forum) fer fram um þessar mundir í Valletta, höfuðborg Möltu. Um mikilvægan vettvang er að ræða fyrir þau sem leiða minjavernd í Evrópu til að hittast, skiptast er á skoðunum og ræða áskoranir líðandi stundar sem oftar en ekki ganga þvert á landamæri.
Helsta umræðuefni fundarins þetta árið er Valletta-samningurinn um vernd fornleifaarfs Evrópu (Convention for the Protection of the Archaeological Heritage of Europe (Valletta, 1992), sem tók gildi 25. maí 1995. Samningurinn miðar m.a. að styrkari stjórnsýslu menningarminja, að vernd fornleifa sé samþætt í skipulagsáætlanir, að fornleifauppgröftur fari fram með vísindalegum aðferðum og að niðurstöður rannsókna séu gerðar aðgengilegar almenningi. Samningurinn stuðlar einnig að alþjóðlegri samvinnu og fræðslu um mikilvægi fornleifaarfsins.
Ísland er eitt örfárra landa Evrópu sem ekki hafa undirritað Valletta-samninginn, en andi hans umlykur þó íslenska löggjöf um menningarminjar og hefur hann haft mikil áhrif þróun málaflokksins hér á landi sem annarsstaðar í Evrópu.
Samningurinn er skoðaður nú 30 árum frá gildistöku og rætt um hvort þörf sé á uppfærslu hans í ljósi áskorana samtímans, s.s. vegna aukins þrýstings á menningarminjar vegna framkvæmda, sívaxandi gagnasafna sem til verða vegna mótvægisaðgerða, sem og ógna sem stafa af náttúruvá og átökum.
Fulltrúi Íslands nú sem undanfarin tvö ár er Rúnar Leifsson forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.