Fara í efni

Friðlýsing Laugarnestanga

Fimmtudaginn 22. janúar var menningar- og búsetulandslag Laugarnestanga friðlýst við hátíðlega athöfn í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga. Fjölmennt var við athöfnina og voru erindi flutt af umhverfis-, orku – og loftslagsráðherra, borgarstjóra Reykjavíkur,forstöðumanni Minjastofnunar Íslands og fulltrúa Vina Laugarness.

Fyrstu fornleifarnar sem friðlýstar voru á Laugarnesi var gamli kirkjugarðurinn fast sunnan við bæjarhólinn sem friðlýstur var af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði árið 1930. Bæjarhóllinn sjálfur var friðlýstur af Þór Magnússyni þjóðminjaverði árið 1987.

Árið 2020 hóf Minjastofnun Íslands undirbúning að gerð tillögu til friðlýsingar menningar- og búsetulandslags Laugarnestanga í heild sinni og hefur sú tillaga nú verið staðfest af Jóhanni Páli Jóhannssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Er nú lokið áratugalöngu baráttumáli íbúa og velunnara Laugarness.

Friðlýsingin sameinar merkar minjar á Laugarnesi sem minjaheild, sem sýnir þróun svæðisins allt frá landnámi til dagsins í dag. Eldri friðlýsingar náðu aðeins til hluta þeirra fjölmörgu fornleifa sem eru á svæðinu.

Friðlýsingin nær til búsetu- og menningarlandslags, þ.e. ásýndar staðarins og búsetumynsturs, búsetuminja, bæjarhóls, kirkjugarðs, beðasléttna, vara, annarra fornleifa og herminja. Með friðlýsingunni eru stigin mikilvæg skref í átt að vernd menningarminja sem fyrir eru á svæðinu og þeirra sem seinna meir kunna að koma í ljós. Svæðið er einnig mikilvægt útivistarsvæði og þar er að finna einu óröskuðu fjöruna sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Í rökstuðningi fyrir friðlýsingunni kemur fram að á Laugarnestanga megi sjá áhrif mannsins á umhverfi sitt allt frá upphafi byggðar í Reykjavík fram á okkar daga. Menningarlandslag Laugarnestanga er mikilvægur hluti af sögu Reykjavíkur og eitt fárra svæða innan marka þéttbýlis Reykjavíkurborgar þar sem hægt er að upplifa svo heildstætt menningarlandslag. Á yfirborði eru sýnilegar minjar frá ólíkum tímabilum í sögu Íslands. 

Hér má sjá frétt um friðlýsinguna á vef Umhverfis-, orku, og loftslagsráðuneytis ⇒ Laugarnestangi friðlýstur sem menningarlandslag