Fara í efni

Minjaverndarviðurkenning og ársfundur

Ársfundur Minjastofnunar Íslands fór fram með óvenjulegum hætti að þessu sinni. Fundurinn var haldinn með stafrænum hætti á Zoom og gengu fundahöldin vel á þessum nýstárlega vettvangi. Um 50 manns mættu á fundinn og voru haldin fjögur mjög áhugaverð erindi. 

Sérstaklega ánægjulegt var að mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sá sér fært að mæta og ávarpa fundinn. Ráðherra veitti einnig árlega minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar Íslands og var það að þessu sinni Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt, sem hlaut viðurkenninguna. Þorsteinn er sannarlega vel að viðurkenningunni kominn og óskum við honum enn og aftur innilega til hamingju!

Þorsteini er veitt viðurkenningin fyrir brautryðjendastarf á sviði endurgervingar sögulegra bygginga og fyrir áratuga rannsóknir á íslenskri húsagerðarsögu. 

Þorsteinn Gunnarsson lauk námi í húsagerðarlist frá arkitektaskóla Konunglega danska Listaháskólans í Kaupmannahöfn árið 1966. Var hann fyrstur Íslendinga til þess að útskrifast úr þeirri deild skólans sem sérhæfir sig í endurgervingu gamalla húsa og könnun eldri byggðar. Þorsteinn hefur komið að miklum fjölda verkefna á sviði húsverndar, bæði í tengslum við endurgervingu húsa sem og húsakannanir og aðrar rannsóknir. Nánar má lesa um feril Þorsteins Gunnarssonar hér .

Öllum gestum og fyrirlesurum eru færðar kærar þakkir fyrir þátttökuna í ársfundinum. 

Dagskrá fundarins má finna hér.


Hér má finna upptöku af ársfundinum í heild sinni, ásamt upptöku af því þegar Kristín Huld Siguðardóttir, forstöðumarður Minjastofnunar, afhenti Þorsteini viðurkenningarskjal og blómvönd við heimili hans - með grímu eins og hefðbundið er á þessum tímum. 

Myndband um innri gerð Bessastaðakirkju, sem sýnt var á fundinum, má einnig sjá hér .