Fara í efni

Vigdísarvellir

Á Vigdísarvöllum
Á Vigdísarvöllum

Þar sem nú hefur verið opnað fyrir umferð um Vigdísarvallaveg vill Minjastofnun Íslands vekja athygli á nauðsyn þess að sýna aðgát við viðkvæmar fornleifar á Vigdísarvöllum. Stofnunin vill biðja fólk um að varast að leggja bílum á graslendinu við Vigdísarvelli þar sem finna má mjög fallegt og heillegt minjasvæði kotbýla frá 19. öld. Starfsmaður Minjastofnunar fór í eftirlitsferð á svæðið vegna opnunarinnar til að skoða aðstæður og munum við fylgjumst áfram með og gera þær ráðstafanir sem þarf til verndar minjunum ef á þarf að halda.

Um Vigdísarvelli

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.

Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.

Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.

Bærinn Vigdísarvellir eru í norðvesturhorni vallanna sem þeir heita eftir. Utan um túnið er mikill túngarður afar greinilegur og heill að mestu, alls rúmlega 1 km. að lengd. Bali er í austurhluta túnsins á Vigdísarvöllum. Tóftin er mjög greinileg með tveimur samföstum kálgörðum.

Minjarnar eru vel varðveittar og menningarlandslagið í heild mjög skýrt. Þó svo minjarnar séu flestar ungar eða frá seinni hluta 19. aldar eru þær afar áhugaverðar sérstaklega sem minnisvarði um kotbýli frá þessum tíma sem annars staðar eru flest horfin vegna seinni tíma byggðar.

Heimild: Agnes Stefánsdóttir. Krýsuvík – Trölladyngja. Fornleifaskráning. Fornleifavernd ríkisins 2008. https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_2571.pdf