Fara í efni

Umsóknir í fornminjasjóð

Umsóknir í fornminjasjóð eru metnar með tilliti til vísindalegs- og menningarsögulegs gildis og þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í minjavernd, ásamt gildi þeirra fyrir varðveislu þjóðararfleifðarinnar. Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr sjóðnum að fenginni umsögn fornminjanefndar. Styrkir úr sjóðnum eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur nr. 1245/2022 og mikilvægt að kynna sér reglurnar vel áður en sótt er um í sjóðinn. Umsóknir fara í gegnum Stafrænt Ísland á island.is og því þarf að notast við rafræn skilríki í umsóknarferlinu. Þau sem ekki hafa rafræn skilríki geta haft samband við Minjastofnun Íslands á netfangið fornminjasjodur@minjastofnun.is og fengið leiðbeiningar við gerð umsókna. Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með að styrkt verkefni séu unnin í samræmi við lög nr. 80/2012 og reglur stofnunarinnar og í samræmi við innsend gögn.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í fornminjasjóð. Umsóknarfrestur er til og með 16. janúar 2024. Mikilvægt er að fylla út sérsniðna kostnaðaráætlun (excel skjal) sem hægt er að hlaða niður hér á síðunni og senda inn sem viðhengi/fylgigagn með umsókn. Smellið á hnappana hér fyrir neðan til að sækja um og/eða sækja sniðmát fyrir kostnaðaráætlun.

Hlaða niður kostnaðaráætlun (excelskjal)

Sækja um í fornminjasjóð

Styrkgreiðslur og samningur

Minjastofnun Íslands gerir samning um greiðslu styrks úr fornminjasjóði þar sem kveðið er á um greiðslufyrirkomulag styrksins, sbr. 6. gr. úthlutunarreglna.

Styrkþegi ábyrgist að aflað hafi verið allra lögbundinna leyfa og samþykkta sem nauðsynleg eru vegna verkefnisins, hvort sem er frá stjórnvöldum eða einkaaðilum. Komi í ljós á framkvæmdatíma að skortir á nauðsynlegt leyfi og/eða samþykkt fyrir verki eða hluta þess, er á ábyrgð styrkþega að bæta úr því tafarlaust. Vakin er athygli á því að vilyrði fyrir styrk úr fornminjasjóði veitir ekki sjálfkrafa leyfi til fornleifarannsókna. Sækja þarf sérstaklega um slík leyfi hjá Minjastofnun Íslands.

Styrkurinn greiðist út í tvennu lagi með eftirfarandi hætti:

  1. Sjötíu prósent styrkfjárhæðar greiðast eftir að samningur hefur verið undirritaður.
  2. Þrjátíu prósent styrkfjárhæðar greiðast við lok verks, þegar fullnægjandi lokaskýrsla, að mati styrkveitanda, hefur borist.

Styrkþega ber að skila greinargerð um framvindu verksins að hausti í samræmi við ákvæði samnings um styrk. Einnig ber að skila lokaskýrslu um verkefnið, eða þann áfanga verkefnisins sem veittur var styrkur til, ásamt ljósmyndum af því sem framkvæmt hefur verið, í samræmi við ákvæði samnings eða eftir nánara samkomulagi við styrkveitanda.

Hafi framvindu- eða lokaskýrslur ekki borist styrkveitenda á umsömdum dagsetningum, án fullnægjandi skýringa að mati styrkveitanda, er honum heimilt að stöðva greiðslur til styrkþega. Jafnframt er styrkveitanda heimilt að krefjast fullrar endurgreiðslu á því sem þegar hefur verið greitt.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn. Nýti styrkþegi sér ekki styrk á sama ári og honum er úthlutað fellur styrkur niður. Styrkþegi getur sótt um lengra greiðslutímabil. Heimilt er, við sérstakar aðstæður, að veita frest til greiðslu styrks, hafi styrkveitanda borist um það formleg beiðni frá styrkþega. Beiðni þess efnis, með góðum rökstuðningi, skal berast styrkveitanda eigi síðar en 1. nóvember sama árs og styrki er úthlutað. Við slíkar beiðnir skal notast við netföngin: postur@minjastofnun.is og fornminjasjodur@minjastofnun.is