Fara í efni

Spurt og svarað

Hvað eru menningarminjar?

Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, sögustaðir, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Minjastofnun fer með málefni menningarminja, en þó einungis takmarkað í tilfelli gripa (sem eru að mestu leyti á ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands), skjala og mynda (sem eru að mestu leyti á ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands og/eða Þjóðskjalasafns Íslands).

Hvað er friðlýsing?

Friðlýsing er mesta mögulega verndun menningarminja á Íslandi og er talað um að menningarminjar séu friðlýstar sem þjóðminjar. Friðlýsingu er þinglýst sem kvöð á fasteign og er það gert til að tryggja sem best varðveislu menningarminjanna. Ráðherra ákveður friðlýsingu eða afnám friðlýsingar að fenginni tillögu frá Minjastofnun Íslands. Upphaflega hugmyndin getur komið frá ráðherra, Minjastofnun Íslands, sveitarstjórnum, hópum fólks eða einstaklingum.

Hægt er að friðlýsa fornleifar, skip og báta, hús og mannvirki í heilu eða hluta, sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Friðlýsing getur náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar, húss eða mannvirkis. Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi sem og samstæður húsa. Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 m friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra.

Friðlýstum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Mjög strangar kröfur eru gerðar til allra breytinga og alls rasks í tengslum við friðlýstar menningarminjar og umhverfi þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði 100 m umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.

Hvað er aldursfriðun?

Allar menningarminjar 100 ára og eldri eru friðaðar samkvæmt aldursákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012. Að auki teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa og eru því friðuð sökum aldurs. Friðun felur í sér sjálfkrafa verndun fornminja (forngripa og fornleifa), húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þeirra. Friðuðum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Umhverfis aldursfriðaðar fornleifar er 15 m friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðaðar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.

Þarf að sækja um friðlýsingu?

Já, þótt húsið sé friðað skv. aldursákvæði þarf að óska eftir friðlýsingu. Hefst þá ferli sem lýkur með ákvörðun ráðherra. Einnig er hægt að óska eftir friðlýsingu á yngri húsum uppfylli þau skilyrði um menningarsögulegt eða listrænt gildi.

Hvað er skyndifriðun?

Skyndifriðun er verndaraðgerð sem skv. 20. gr. laga um menningarminjar (nr. 80/2012) er hægt að beita á menningarminjar sem ekki eru friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar vegna aldurs. Skyndifriðun er hægt að beita ef hætta er á að minjum sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra verði rýrt á einhvern hátt. Á meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu. Frá því að ákvörðun um skyndifriðun er tekin og hún tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum gildir hún í sex vikur. Á þeim tíma vinnur Minjastofnun Íslands að gerð tillögu um friðlýsingu menningarminjanna sem stofnunin leggur fyrir ráðherra sem í kjölfarið ákveðir hvort friðlýsa eigi viðkomandi menningarminjar.

Hvaða réttindi og skyldur hef ég ef ég á friðlýst hús eða jörð með friðlýstum fornleifum?

Friðlýst hús, mannvirki og fornleifar hafa stöðu þjóðarverðmæta og felast mikil tækifæri í að hafa slíka eign á sínum snærum. Þau eru verðmæt í fleiri en einum skilningi orðsins og er mikilvægt að hlúa vel að þeim. Virðing fyrir hinum friðlýstu menningarminjum, sögu þeirra og gildi er grunnkrafa til eigenda.

Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins en landeigendur skulu viðhalda og hlúa að umhverfi minjanna eins og sanngjarnt getur talist. Eigendur friðlýstra húsa og mannvirkja skulu viðhalda sinni eign á eigin kostnað en geta sótt um styrk til viðhaldsframkvæmda í húsafriðunarsjóð sem Minjastofnun Íslands veitir úr einu sinni á ári. Friðlýst hús njóta ákveðins forgangs við styrkúthlutanir. Sinni eigandi friðlýsts húss ekki viðhaldi þess getur Minjastofnun Íslands, að undanförnum viðvörunum, látið framkvæma nauðsynlegt viðhald og umbætur á kostnað eiganda. Heimilt er að lækka eða fella niður fasteignagjöld af friðlýstum fasteignum og landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar.

Friðlýstum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Mjög strangar kröfur eru gerðar til allra breytinga og alls rasks í tengslum við friðlýstar menningarminjar og umhverfi þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði 100 m umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.

Fornleifar

Hvað á ég að gera ef ég finn forngrip?

Forngripir eru allir manngerðir hlutir sem eru orðnir eldri en 100 ára. Finni maður forngrip á víðavangi ber manni skylda til að hafa samband við Minjastofnun Íslands. Helst á ekki að taka gripinn upp þar sem hann getur verið hluti af stærri fornleifafundi. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að gripurinn sé á sínum stað þegar fornleifafræðingar koma að því hægt er að fá mun meiri upplýsingar ef fornleifafræðingarnir sjá í hvaða samhengi gripurinn er í jörðinni. Ef gripurinn er í hættu, til dæmis vegna þess að hann liggur í fjöru eða það er hætta á að hann týnist aftur, má taka hann með sér en alltaf ætti að reyna að skrá nákvæmlega hvar hann fannst, t.d. með GPS staðsetningu og ljósmynd, góðri lýsingu eða með því að merkja staðinn á einhvern hátt. Forðist þó að stinga einhverju niður í jörðina þar sem gripurinn fannst því við það gætu mögulegar fornleifar undir sverði skemmst.

Hvað á að gera ef fornleifar finnast við framkvæmdir?

Ef fornleifarnar/forngripirnir finnast við framkvæmdir skal stöðva vinnu á svæðinu og hafa samband við Minjastofnun Íslands. Stofnunin sendir í kjölfarið starfsmann á staðinn sem metur eðli og umfang fundarins. Í kjölfarið tekur Minjastofnun ákvörðun um næstu skref.

Fæ ég borgað ef ég læt vita af forngripafundi?

Ef gripurinn er úr góðmálmi eða eðalsteinum, eins og til dæmis silfri, gulli eða demöntum, á Þjóðminjasafn Íslands að leggja mat á verðgildi gripsins. Ríkissjóður borgar síðan þeim sem fann gripinn helminginn af upphæðinni og þeim sem á jörðina sem gripurinn fannst á hinn helminginn.

Ekki er greitt fyrir aðra forngripi en þá sem eru úr eðalmálmum eða –steinum auk þess sem eingöngu er greitt fyrir gripi sem finnast á víðavangi. Hafi gripurinn komið upp við rannsókn eða gröft sem vísvitandi fer fram í leit að forngripum (og er þá ólöglegur þar sem leyfi þarf til rannsóknar vegna slíkrar leitar) er ekki greitt fyrir fund hans.

Þótt ekki sé greitt fyrir aðra gripi en þá sem eru úr eðalmálmum- eða steinum er samt nauðsynlegt að hafa samband við Minjastofnun Íslands finni maður forngrip á víðavangi því slíkur fundur getur mögulega vísað fornleifafræðingum á merkilegar fornleifar sem hugsanlega geta veitt nýja þekkingu.

Menningarverðmæti

Ég vil flytja menningarverðmæti til útlanda, hvað geri ég?

Um inn- og útflutning menningarverðmæta gilda lög um menningarminjar nr. 80/2012. Ekki má flytja úr landi innlendar eða erlendar menningarminjar án formlegs leyfis Minjastofnunar Íslands. Til slíkra menningarminja teljast m.a. forngripir (100 ára og eldri), málverk, teikningar, frumeintök af stungum, þrykki og höggmyndum, ljósmyndir og kvikmyndir sem eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, bækur prentaðar á Íslandi og íslensk handrit eldri en frá árinu 1800, aðrar bækur eldri en 100 ára, skjalasöfn og hlutar þeirra eldri en 50 ára, dýrafræðileg-, grasafræðileg, líffræðileg- og jarðfræðileg söfn og samgöngutæki eldri en 75 ára (tæmandi lista má finna í 45. gr. laganna).

Sótt er um leyfi til flutnings menningarminja úr landi með því að skila inn sérstöku eyðublaði sem finna má á heimasíðu Minjastofnunar Íslands. Mikilvægt er að sótt sé um ofangreint leyfi enda er listi yfir leyfisveitingar mikilvæg heimild um þær menningarminjar sem fluttar hafa verið úr landi og staðsetningu þeirra erlendis. Ekki síst er listinn mikilvægt gagn ef menningarminjar glatast eða er stolið erlendis.

Í flestum tilfellum er leyfi til útflutnings veitt án vandkvæða og er m.a. skylt að veita leyfi ef eigandinn er að flytja búferlum til annars lands eða ef viðkomandi munir komast í eigu einstaklings sem er búsettur erlendis með arfi eða vegna búskipta. Við flutning menningarminja úr landi skal sá sem flytja vill menningarverðmæti úr landi framvísa formlegu leyfisbréfi til tollyfirvalda sem staðfestir leyfi til flutningsins.

Minjastofnun Íslands er heimilt að koma í veg fyrir flutning menningarminja úr landi, án tillits til aldurs og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðarverðmæta.

Skip

Hverskonar verndun nær yfir skipsflök?

Flök skipa sem fórust fyrir 100 árum eða meira eru fornleifar og vernduð sem slíkar skv. 100 ára friðunarákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012. Skipsflök flokkast einnig í sumum tilfellum sem vot gröf hafi fólk farist með skipinu.

Hús og mannvirki

Hvenær er hús friðað/verndað?

Hús eru sjálfkrafa friðuð við 100 ára aldur. Að auki geta yngri hús verið friðlýst. Öll hús byggð 1925 eða fyrr og allar kirkjur byggðar 1940 eða fyrr eru að auki umsagnarskyldar þegar kemur að byggingaleyfisskyldum framkvæmdum, niðurrifi eða flutningi.

Þarf að sækja um friðun húss?

Nei hús eru sjálfkrafa friðuð við 100 ára aldur.

Er húsið mitt friðað/Hvað er húsið mitt gamalt?

Hús sem náð hafa 100 ára aldri eru friðuð. Til að átta sig á því hvort hús er friðað þarf því að vita aldur þess. Hægt er að fá upplýsingar um aldur húsa eftir ýmsum leiðum.

Í Fasteignaskrá er gefið upp byggingarár húsa. Hins vegar segir það ártal sem þar er gefið upp ekki alla söguna því mörg hús sem ekki eru í notkun eru ekki skráð og í mörgum tilvikum er árið sem byggt var við húsið eða því breytt á einhvern hátt skráð sem byggingarár. Auk þess er skráð byggingarár húsa sem hafa verið flutt um set oft á reiki. Þá liggja í mörgum tilvikum ekki fyrir upplýsingar um byggingarár húsa og því er skráð byggingarár ekki rétt. Því er nauðsynlegt að leita víðar að upplýsingum um byggingarár.

Þær húsakannanir sem gerðar hafa verið gefa oft mjög gagnlegar upplýsingar. Á vef Minjastofnunar er skrá yfir þær kannanir sem stofnuninni er kunnugt um að hafi verið gerðar og til eru hjá Minjastofnun.

Auk þess eiga héraðsskjalasöfn og byggðasöfn vítt og breitt um landið ýmsar upplýsingar, t.d. brunavirðingar og jafnvel gamlar ljósmyndir, sem oft koma sér vel til að finna upphaflega byggingarárið. Hjá byggingarfulltrúum sveitarfélaga má einnig oft nálgast frumteikningar af húsum og mörg sveitarfélög eru þegar komin með teikningar á vefsjár sínar.

Minjastofnun Íslands vinnur að skráningu friðaðra húsa. Þar eru fúslega veittar þær upplýsingar sem liggja fyrir hjá stofnuninni.

 

Tengdar síður fyrir hús í Reykjavík:

Á Borgarsögusafni er til Húsaskrá Reykjavíkur.

Á vef Borgarskjalasafns er leitarsíða fyrir brunavirðingar 1811-1953.

Í Borgarvefsjá er m.a. hægt að nálgast teikningar af húsum.

Eru styrkir úr húsafriðunarsjóð skattskyldir?

Styrkir til einstaklinga úr húsafriðunarsjóði mynda ekki stofn til tekjuskatts. Samkvæmt framtalsleiðbeiningum 2016 frá ríkisskattstjóra skulu einstaklingar færa styrki úr húsafriðunarsjóði í reit 73 á framtalseyðublaði, Aðrar skattfrjálsar greiðslur.

Hvaða hús eru umsagnarskyld?

Öll hús sem byggð eru 1925 eða fyrr eru umsagnarskyld. Það sama á við um kirkjur reistar 1940 eða fyrr. Umsagnarskylda þýðir að ekki má breyta húsunum, flytja þau eða rífa án umsagnar frá Minjastofnun Íslands. Miðað er við að breytingar séu byggingarleyfisskyldar til að umsagnar sé þörf en gott er að hafa í huga að hægt er að fá ráðgjöf varðandi minniháttar breytingar og lagfæringar hjá Minjastofnun Íslands.

Get ég sótt um styrk til viðgerða á húsinu mínu?

Húsafriðunarsjóður, sem Minjastofnun Íslands sér um, veitir styrki til styrki til viðgerða og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds annarra mannvirkja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.

Sækja skal um styrk á þar til gerðum eyðublöðum á tímabilinu 15. október til 1. desember ár hvert. Umsóknir eru metnar með tilliti til varðveislugildis, t.d. vegna byggingarlistar, menningarsögu, umhverfis, upprunaleika og tæknilegs ástands ásamt gildi hennar fyrir varðveislu byggingararfleifðarinnar.

Reikna má með að úthlutun liggi fyrir um miðjan mars.

Að jafnaði renna styrkir einungis til endurbóta og viðgerða sem dýrari eru en hefðbundið viðhald fasteignar þar sem notuð eru efni og aðferðir sem samrýmast varðveislugildi hússins. Hlutfall styrkupphæðar er (að öllu jöfnu) aldrei hærra en sem nemur 50% af verkkostnaði.

Nánari upplýsingar um húsafriðunarsjóð má finna hér.

 

Ýmis sveitarfélög veita einnig styrki til endurbóta á varðveisluverðum húsum.

Það á t.d. við um Reykjavík og Akureyri, en húseigendur eru hvattir til að kynna sér styrkmöguleika hjá sínu sveitarfélagi.

Get ég sótt um niðurfellingu fasteignagjalda?

Sveitarfélög hafa heimild til að lækka eða fella niður fasteignagjöld af friðlýstum fasteignum og landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar. Sótt er slíka ívilnun til sveitarfélaga en hjá Minjastofnun Íslands er unnt að fá gögn sem staðfesta friðlýsingu.

Ákvæði um þetta er að finna í 19. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

 

Senda inn fyrirspurn