Fara í efni

Hvannalindir

Hvannalindir – saga og náttúra

„Liggur við Kreppu lítil rúst“

Hvannalindir eru sérstæð vin í annars gróðursnauðri Krepputungunni þar sem lindavatn sprettur undan Lindahrauni. Þær liggja í skjóli Kreppuhryggjar í austri en Lindafjalla og Krepputunguhrauns í vestri. Hvannalindir voru lengi að mestu óáreittar af beit og ágangi manna þar sem Krepputungan liggur á milli beljandi jökulsáa, Jökulsár á Fjöllum og Kreppu, með Vatnajökul í suðri.

Hvannalindir fundust árið 1834 þegar Pétur Pétursson frá Hákonarstöðum á Jökuldal leitaði að góðri leið til að þvera landið. Pétur fann leið sem nefnist Vatnajökulsvegur og liggur um Hvannalindir. Rústir útilegumannakofa fundust í Hvannalindum árið 1880, fimmtíu árum eftir að Pétur fór þar fyrst um. Vinin virðist hafa verið griðland útilegumanna. Umferð um Hvannalindir jókst um miðja 20. öldina þegar Kreppa var brúuð. Hvannalindir voru friðlýstar árið 1973 og eru nú hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Í Hvannalindum, á bökkum Lindaár og Lindakvíslar, er vistkerfi sem er einstakt á Íslandi. Gróðurvinin er kjörsvæði ýmissa dýra og plantna. Hvannstóð þekja vatnsbakka og eru varpsvæði heiðagæsarinnar. Vegurinn um Hvannalindir er lokaður á varptíma.

Útilegumannarústirnar í Hvannalindum eru friðlýstar fornminjar og leiða menn getum að því að þar hafi búið útilegumennirnir Fjalla-Eyvindur og Halla í lok 18. aldar. Aldur rústanna hefur verið greindur með kolefnisaldursgreiningu og bendir hann til að svo geti verið. Einnig minna rústirnar á handbragð Fjalla-Eyvindar annars staðar á landinu.

Athugið að svæðið í kringum rústirnar er mjög viðkvæmt. Ef þið hafið áhuga á að skoða þær nánar hafið samband við landvörð í Lindaseli.

Fornleifar í Hvannalindum

Þótt menn hafi fundið Hvannalindir árið 1834 fundust meintar minjar útilegumanna á svæðinu ekki fyrr en um hálfri öld síðar. Sumarið 1880 var farinn könnunarleiðangur um svæðið til að leita óþekktra hagabletta. Voru þar á ferð Þingeyingar sem höfðu haft slæmar heimtur undanfarin ár og vildu vita hvað af fénu hefði orðið. Leiðangursmenn fundu í þessari ferð rústir kofa í Hvannalindum og töldu þær þá vera um 100 ára gamlar, eða frá seinni hluta 18. aldar. Voru þök húsanna víðast fallin en veggir stóðu enn vel. Fundu menn mikið af beinum inni í húsunum og utan þeirra auk þess sem tveir mosavaxnir sprekakestir stóðu utan við húsin.

Fornleifarannsókn var gerð á rústunum í Hvannalindum árið 1941. Stóð Kristján Eldjárn, síðar þjóðminjavörður og forseti Íslands, fyrir henni. Á svæðinu er að finna þrjú hús eða kofa og eina fjárrétt. Eru allar minjarnar á innan við 80 m löngu svæði í hraunjaðrinum. Mikið fannst af beinum í húsunum og utan þeirra. Mestmegnis voru þetta kinda- og hrossbein en einnig bein gæsa, rjúpna og álfta. Er af þessu ljóst að íbúar Hvannalinda hafa lagt sér til munns bæði húsdýr og villta fugla.

Minjastofnun Íslands lét gera aldursgreiningu á þremur beinum úr rústunum haustið 2015. Var niðurstaða greiningarinnar að beinin væru fá 17.-18. öld, líklegast frá seinni hluta 18. aldar. Aldursgreiningin styður því tilfinningu þeirra sem fundu rústirnar í lok 19. aldar - að rústirnar hafi þá verið um 100 ára gamlar.

Minjarnar í Hvannalindum eru friðlýstar menningarminjar og njóta þannig mestu mögulegu verndar samkvæmt lögum. Minjarnar voru friðlýstar af Þór Magnússyni, þáverandi þjóðminjaverði, árið 1969.

Athugið að svæðið í kringum rústirnar er mjög viðkvæmt. Ef þið hafið áhuga á að skoða þær nánar hafið samband við landvörð í Lindaseli.

English Version

Hvannalindir – History and Nature

Hvannalindir is a unique oasis in the otherwise barren Krepputunga, where spring water flows from underneath the Lindahraun lava field. Hvannalindir is flanked by the Kreppuhryggur ridge to the east and the Lindafjöll mountains and Krepputunguhraun lava field to the west. Hvannalindir was, for a long time, left undisturbed by livestock and human activities, as Krepputunga lies between the rivers of Jökulsá á Fjöllum and Kreppa with Vatnajökull glacier to the south.

Hvannalindir was discovered in 1834 when Pétur Pétursson, from Hákonarstaðir in Jökuldalur, was looking for a route across Iceland. Pétur found the route known as the Vatnajökull Road, which crosses Hvannalindir. The remains of an outlaw dwelling were found at Hvannalindir in 1880, fifty years after Pétur first passed through the area. The oasis seems to have served as a sanctuary for outlaws. Traffic through Hvannalindir increased in the mid-20th century, when a bridge was built over Kreppa. Hvannalindir was made a nature reserve in 1973 and is now part of Vatnajökull National Park.

The ecosystem in Hvannalindir, on the banks of Lindaá and Lindakvísl, is unique in the whole of Iceland. The oasis is a natural habitat for various species of plants and animals. The banks are covered with fields of angelica, and are the nesting grounds of the pink-footed goose. The road through Hvannalindir is closed during the nesting season.

The ruins of the outlaw dwellings are listed archaeological remains. They are widely believed to have been the home of legendary 18th-century outlaws Eyvindur and Halla. Carbon dating of the ruins indicates that this could be the case, as does the handiwork that the ruins display, which is reminiscent of Eyvindur's work in other locations.

Please note that the area around the ruins is highly sensitive. Please contact the park ranger at Lindasel if you wish to inspect the site further.

Archaeological Remains in Hvannalindir

Although the Hvannalindir site was discovered in 1834, the remains of the alleged outlaw dwellings were not found until half a century later. In the summer of 1880, some men from the county of Þingeyjarsýsla explored the area in search of unknown pastures, as they had lost some sheep in the previous years and wanted to know what had become of them. They found the ruins of a cabin in Hvannalindir and estimated that it was approximately 100 years old, i.e. from the late 18th century. The roofs had collapsed, but the walls were still standing. Many bones were found inside the houses and outside and there were two moss-grown woodpiles outside of the houses.

An archaeological investigation was conducted in Hvannalindir in 1941 under the supervision of Kristján Eldjárn, Director of the National Museum of Iceland and later President of Iceland. There are three houses, or huts, in the area and one sheepfold. All of the remains are within an 80 metre area at the edge of the lava field. Many bones were found within the houses and outside them. Most were horse and sheep bones, but there were also bones of geese, ptarmigans and swans, so it is clear that the inhabitants of Hvannalindir ate both domestic animals and wild birds.

In autumn 2015, the Cultural Heritage Agency of Iceland had three bones from the ruins carbon-dated. The conclusion was that the bones were from the 17th or 18th century, probably from the latter half of the 18th century, supporting the original estimate by the discoverers of the ruins in the late 19th century, i.e. that they were then approximately 100 years old.

The archaeological remains in Hvannalindir were listed as important archaeological remains in 1969.

Please note that the area around the ruins is highly sensitive. Please contact the park ranger at Lindasel if you wish to inspect the site further.