Fara í efni

Skálholt

Skálholt byggði fyrst Teitur sonur Ketilbjarnar gamla og Helgu er námu land á Mosfelli. Gissur hvíti Teitsson bjó að Skálholti og er sagt að eftir kristnitökuna á Alþingi árið 1000 hafi hann reist fyrstu kirkjuna í Skálholti. Sonur Gissurar og Þórdísar Þóroddsdóttur, Ísleifur Gissurarson, var vígður fyrsti biskup Íslands árið 1056 og sat Skálholt. 

Biskupsstóll var í Skálholti í kaþólskum og lútherskum sið samfellt frá árinu 1056 til 1801 þegar biskupsstóll var formlega fluttur til Reykjavíkur í kjölfar mikilla náttúruhamfara í lok 18. aldar. Skálholt varð aftur biskupssetur með aðsetri vígslubiskups árið 1992 og er enn. Skálholtsskóli var rekinn á staðnum frá því á seinni hluta 11. aldar og fram til ársins 1785 með stuttum hléum. Í Skálholti er að finna fjölda menningarminja sem eru minnisvarði – frumheimildir – um sögu biskupsstólsins sem má með sanni segja að hafi verið höfuðstaður Íslands í um 700 ár. Skálholt er einn merkasti sögustaður Íslands og er afar mikilvægur í menningarsögulegu tilliti þegar horft er til kirkju- og landsstjórnar, menntunar, bókmenntasögu og trúariðkunar þjóðarinnar en einnig vegna mikilla tengsla Skálholts við Evrópu.

Friðlýstar menningarminjar í Skálholti

Í Skálholti eru tvær friðlýstar byggingar, Skálholtsdómkirkja og Skálholtsskóli þar sem núna er hótel og veitingastaður. Skálholtskirkja er teiknuð af Herði Bjarnasyni, húsameistara ríkisins, og var hún vígð árið 1963. Skálholtsskóla teiknuðu arkitektarnir Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson og var hann tekinn í notkun árið 1972. Báðar þessar byggingar tengjast endurreisn Skálholtsstaðar á 20. öld og hafa mikið gildi í byggingarlistasögu þjóðarinnar.

Í kirkjunni eru steindir gluggar eftir Gerði Helgadóttur myndhöggvara og yfir altarinu er áhrifamikil mósaíkmynd eftir Nínu Tryggvadóttur myndlistarmann.

 

 

Í Skálholti eru 10 friðlýstar fornleifar (R). Þar að auki eru vel yfir 100 aldursfriðaðar minjar skráðar á Skálholtsjörðinni.

Merktar fornleifar í Skálholti

 

1 – Bæjarhóll Skálholts

Á bæjarhólnum stóð, auk bæjarins, biskupsbústaður og skólahús. Mikill fjöldi bygginga var á bæjarhólnum og má sjá hluta þeirra á uppgraftarsvæðinu suðvestan við kirkjuna. Austan og norðan við kirkjuna er kirkjugarðurinn. Á uppgraftarsvæðinu er hvert rými merkt viðeigandi hlutverki.

2 – Staupasteinn (R)

Steinninn er um 1 x 1 m að stærð og nokkuð sokkinn. Hann er fleygmyndaður að neðan og er því ekki ólíkur staupi. Sagt er að oft hafi þar verið drukkin hestaskál áður en lagt var úr hlaði.

3 – Þorláksbúð (R)

Forn tóft norðaustanvert í kirkjugarðinum. Tóftin er kennd við Þorlák helga Þórhallsson biskup (1178-1193). Þorláksbúð mun hafa verið skemma eða stúka sem var notuð til embættisgjörða þegar þurfti, svo sem þegar dómkirkjan brann á dögum Ögmundar biskups Pálssonar. Tilgátuhús var reist yfir tóftina að undangenginni fornleifarannsókn árið 2011.

4 – Virkishóll

Fast austan við kirkjugarðinn eru taldar vera leifar virkisins sem Skáholtsmenn reistu árið 1548. Var virkið reist til að verjast aðför Jóns biskups Arasonar.

5 – Fornistöðull

Þar er sagt að Jón Arason biskup og menn hans hafi tjaldað árin 1548 þegar þeir gerðu aðför að Skálholti. Auk þess að vera notaður sem stöðull, þar sem kýr eða kvíaær voru mjólkaðar, hefur sennilega verið þar hestarétt.

6 – Biskupstraðir

Einnig kallaðar Norðurtraðir, ein heimreiðin til staðarins. Traðirnar lágu frá Fornastöðli og meðfram kirkjugarðinum að norðan. Þær sjást ekki lengur nema austan við Fornastöðul. Stefán Jónsson „grjótbiskup“ (1491-1518) lét hlaða veggina og helluleggja stígana á sinni tíð.

7 – Minnisvarði um Jón Arason Hólabiskup

Árið 1912 lét ensk kona, Disney Leith, reisa minnismerki um Jón Arason biskup í Skálholti á sinn kostnað. Minnismerkið er staðsett þar sem talinn er vera aftökustaður Jóns og sona hans, Ara og sr. Björns, en þeir voru hálshöggnir í Skálholti 7. nóvember 1550.

8 – Þorlákssæti (R)

„Sætið“ er kennt við Þorlák helga og mun hafa verið í klettabelti nokkuð norðaustur af bæjarstæðinu hvar sér vítt yfir engjalönd til austurs og suðurs. Ekki er vitað með vissu nákvæmlega hvar biskup á að hafa setið í klettunum en staðurinn er um aldir griðarstaður til íhugunar og bæna.

9 – Skólavarða (R)

Aldur vörðunnar er ekki þekktur en tilvist hennar er tengd skólapiltum í Skálholti, enda var hún þeirra samkomustaður og hlaðin af þeim að sagt er. Eftir að skólahald lagðist niður í Skálholti árið 1785 var henni lítið viðhaldið en árið 1998 var hún endurhlaðin að miklu leyti af Guðjóni Kristinssyni hleðslumeistara. Kom þá í ljós um tveggja tonna steinn innan í vörðunni og einnig gömul stétt umhverfis hana. Varðan hefur því breyst í aldanna rás.

10 – Íragerði (R)

Sagt er að sveinar Jóns Gerrekssonar biskups, sem taldir voru írskir, hafi árið 1433 verið teknir af lífi og dysjaðir þar sem nú heitir Íragerði eftir að Jóni biskupi hafði verið drekkt í Brúará í aðför Teits ríka Gunnlaugssonar í Bjarnanesi. Íragerði er norðnorðvestur af bæjarstæðinu og sést móta fyrir því sem óræktarbletti í sléttuðu túni austan núverandi heimreiðar.

11 – Kyndluhóll (R)

Stór og áberandi hóll vestur og niður af bæjarstæðinu. Hóllinn er að mestu samsettur úr mannvistarlögum en þrátt fyrir að hann hafi verið rannsakaður í tvígang er hlutverk hans ekki fullkomlega þekkt. Mögulega er um einhvers konar járnvinnslustað að ræða en smiðja stóð sunnan við hólinn, nær Kvernalæk (myllulæk).

12 – Þorláksbrunnur (R)

Nákvæm staðsetning brunnsins, sem kenndur er við Þorlák helga, er ekki vel þekkt. Brunnurinn varð fyrir miklum skemmdum þegar unnið var að lagningu vegar á svæðinu árið 1902. Samkvæmt vitneskju bestu manna hefur brunnurinn nú verið staðsettur en hleðslur eru ekki sjáanlegar.

13 – Vestari traðir (R)

Ein heimreiðin til staðarins. Traðirnar liggja frá bæjarhólnum til vesturs, um 90 m leið. Vegghleðsla á norðurhlið traðanna er vel greinileg en sú syðri mun ógreinilegri. Sunnan við efsta hluta traðanna stóð prenthúsið. Á þessum stað er unnið að fornleifauppgreftri fyrir nemendur í fornleifafræði á vegum Háskóla Íslands og búið er að grafa upp hluta traðanna sem voru grjóthlaðnar.

14 – Jólavallagarður (R)

Garðlag syðst í túni neðan við kirkju er talið vera Jólavallagarður. Örnefnið kemur fyrir í ævisögu Brynjólfs Sveinssonar biskups í tengslum við viðarflutninga heim í Skálholt árið 1646.

15 – Eystri traðir (R)

Ein heimreiðin til staðarins frá Iðu. Traðirnar liggja frá bæjarhólnum að austan og eru sjáanlegar í túni sunnan kirkjunnar. Víða eru þær enn greinilegar og sjást á um 75 m löngum kafla. Á tímum Stefáns „grjótbiskups“ Jónssonar voru traðirnar steinlagðar og finnast enn hellur á leiðinni þaðan yfir mýrarnar í átt að ferjustaðnum á Iðu.

Fornleifarannsóknir í Skálholti

Talsverðar fornleifarannsóknir hafa farið fram í Skálholti en þær helstu voru framkvæmdar í tengslum við kirkjubygginguna á árunum 1954 – 58 og stjórnað af Kristjáni Eldjárn en þá fannst m.a. steinkista ásamt líkamsleifum Páls Jónssonar biskups (1195-1211). Kistan er nú til sýnis á safninu í kjallaranum í Skálholtskirkju. Árin 1983-88 fór fram rannsókn á bæjarhólnum sem Guðmundur Ólafsson stýrði og loks 2002-2007 sem Gavin Lucas og Mjöll Snæsdóttir stjórnuðu þar sem rannsökuð voru fjölmörg hús frá 1650 - 1790 sem tengdust biskupssetrinu og skólahaldinu á staðnum ásamt yngri húsum sem voru á svæðinu til 1950.

Nemendauppgröftur á vegum Háskóla Íslands hefur farið fram á hverju ári í Skálholti síðan 2005 og árið 2015 var opnað uppgraftarsvæði við fánastöngina þar sem talið er að prenthúsið frá 17. öld sé staðsett. Þar læra 1 árs nemendur í fornleifafræði aðferðir við uppgröft.

 

Ítarefni

Smellið á hlekkina hér fyrir neðan til að opna:

Skálholt í Minjavefsjá Minjastofnunar Íslands

Fornleifaskráning í Skálholti 2020

Vefsíða um fornleifarannsóknina 2002-2007