Fara í efni

Jóladagatal 2021

24. desember - Hóladómkirkja

24des

Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal er elsta kirkja landsins, reist á árunum 1757-1763, í biskupstíð Gísla Magnússonar (1755-1779). Á Hólum var biskupssetur í tæpar sjö aldir, 1106-1801, en á þeim tíma sem Gísli sat þar var fjárhagur stólsins frekar bágur. Því var ákveðið að hver kirkja í Danmörku og Noregi skyldi láta tvö mörk af hendi til að styðja við uppbyggingu á Hólum og smíði nýrrar dómkirkju.

Hólar í Hjaltadal eru ekki nefndir í Landnámu en talið er að menn hafi flutt þangað frá Hofi, sem er næsti bær í dalnum, á 11. öld. Um miðja þá öld bjó þar maður, Oxi Hjaltason, afkomandi Hjalta á Hofi, en hann lét byggja fyrstu kirkjuna á Hólum og þótti hún nokkuð vegleg. Síðan þá hafa verið byggðar sex kirkjur á staðnum og er því núverandi kirkja sú sjöunda í röðinni (en fimmta dómkirkjan).

Holadomkirkja-e

Hóladómkirkja er friðlýst en veggir hennar eru hlaðnir úr óhöggnu holtagrjóti innst en tilhöggnum rauðum íslenskum sandsteini yst. Sandsteinninn var sóttur úr fjallinu Hólabyrðu, sem gnæfir yfir Hólastað. Hönnuður kirkjunnar var danski húsameistarinn, Laurids de Thurah, en meðal verka hans eru Hróarskelduhöll og spíralturninn á Kirkju frelsarans (Vor Frelsers Kirke) á Amager í Kaupmannahöfn. Hóladómkirkja er barokkhús af einföldustu gerð, ekki háreist en formið er fagurt og stórt í sniðum að innanverðu. Það sem gerir kirkjuna ekki síður heillandi eru seinni tíma viðbætur t.a.m. var forkirkju bætt við að ósk heimamanna og klukkuturn byggður þó nokkru síðar, vígður árið 1950 og reistur til minningar um Jón Arason biskup á Hólum 1524-1550. Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði turninn en hann var fyrsti sjálfstætt starfandi arkitektinn á Íslandi og teiknaði m.a. elliheimilið Grund, Austurbæjarskóla og Þjóðminjasafn Íslands.

Holadomkirkja-c

Innanstokksmunir í kirkjunni eru mjög vandaðir og eru þeir flestir innfluttir en sumir framleiddir hérlendis. Milligerðin, sem er milli kórs og kirkju, ásamt kirkjubekkjum er endurgerð eftir innréttingu sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Á steinaltarinu í kór kirkjunnar stendur altaristaflan Hólabríkin. Hún kemur úr eldri kirkju á Hólum og er talið að Jón Arason hafi útvegað bríkina. Ekki er vitað hvar bríkin var framleidd en ýmis einkenni hennar benda til Þýskalands. Bríkarskápurinn er úr eik, 1,70 m á hæð og 3,40 m breiður þegar hann er opinn. Inni í bríkinni er fjöldi útskorinna líkneskja, myndverk, súlur og skrautverk, sem að meginstofni er útskorið jurtaskraut úr fugla-kirsuberjaviði (Prunus avium). Bakhlið miðbríkarinnar er ómáluð en málverk eru aftan á vængjunum. Stærri stytturnar í vængjunum eru af postulunum tólf, en minni stytturnar fjórar, efst á vængjunum, eru af dýrlingum. Í miðbríkinni eru til hliðanna fjórar helgar konur en í miðjunni er myndverk af krossfestingunni á Golgata. Viðurinn er allur lagður krít og ýmist málaður á ýmsa vegu eða lagður blaðmálmi; fyrst og fremst gulli en einnig silfri.

Holadomkirkja-i

Í kór beggja vegna Hólabríkurinnar eru tvær ljósaplötur úr messing frá 17. öld og munu þær vera gjöf frá Guðríði Þórðardóttur, ekkju Jóns biskups Vigfússonar. Á suðurvegg hangir róðukross með Jesú krossfestum í miðju og pari beggja vegna við hann. Er það minningarmark um Einar biskup Þorsteinsson og konu hans. Það er líklega frá fyrri hluta 17. aldar og smíðað erlendis, sennilega í Þýskalandi. Skírnarsárinn er höggvinn í einu lagi úr gráu klébergi, líklega innfluttu frá Noregi. Hann er gamall en nákvæmur aldur er óviss. Fóturinn undir honum er frá 1886. Meðal annarra gripa í kirkjunni eru tveir kertahjálmar frá 17. öld eða byrjun þeirrar 18. Hanga þeir í framkirkju og ljósahjálmur Jóns biskups Vigfússonar frá 1690 í kórnum.

Holadomkirkja-b

Kirkjan hefur að geyma fleiri áhugaverða og merka gripi en fræðast má nánar um Hóladómkirkju, innréttingar og muni í 6. bindi ritverksins Kirkjur Íslands frá 2005. Ljósmyndirnar sem hér birtast eru teknar af Guðmundi Ingólfssyni ljósmyndara/Ímynd og birtar með leyfi hans. Tónverkið í myndbandinu er flutt af Kór Akureyrarkirkju og heitir Aðfangadagskvöld jóla. Tónlistin er eftir Sigvalda Kaldalóns við texta Stefáns frá Hvítadal og í viðhafnarútgáfu Victors Urbancic. Organisti er Eyþór Ingi Jónsson og stjórnandi er Þorvaldur Örn Davíðsson. Verkið er birt með heimild kórsins. Kærar þakkir fyrir það og jólaóskir frá Minjastofnun Íslands.

23. desember - Skaftafell

23des

Náttúruöflin hafa lengi haft mikil áhrif á búskap á Íslandi. Ef til vill er eitt sýnilegasta dæmið um það að finna í Skaftafelli undir Vatnajökli.

Eldstöðin Grímsvötn er í Vatnajökli og hlaupin frá henni eru kennd við Skeiðará. Skeiðarárjökull er stærstur þeirra jökla sem ganga frá Vatnajökli. Að formi til er hann daljökull, hinn mesti í Evrópu. Undir jöklinum er stór og mikil á sem hefur upptök sín í Grímsvötnum. Milli Skeiðarárjökuls og sjávar breiðir úr sér víðfeðmasti jökulsandur Íslands. Flatarmál hans er um 1.000 ferkílómetrar. Skeiðarárhlaup hafa frá landnámi verið um 45 talsins, bæði stór og smá. Skeiðarárhlaupið 1996 var til dæmis mjög stórt, enda breyttist Skeiðará þá í næst stærsta fljót í heimi í tvo daga, það var einungis Amasonfljótið sem var stærra.

Afleiðingar Skeiðarárhlaupa á mannlíf í Skaftafelli hafa verið miklar í gegnum tíðina. Skaftafell er gömul bújörð og er meðal annars nefnd í Brennu-Njáls sögu. Ekki er vitað hvar bærinn stóð upphaflega en fram á 19. öld var bærinn neðst í Skaftafellsbrekkum. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson komu að Skaftafelli árið 1757 og sögðu umhverfi bæjarins „hið fegursta, alvaxið jurtum, birki, víði og reynivið“. Þeir greina frá því að ævaforn hús séu í Skaftafelli og Svínafelli og sagt sé að þau séu frá 11. öld. Þeir efast þó um það þótt húsin séu stærri en venja er til og viðir þeirra úr hinu gamla rauðgreni. Ætla þeir að bæir þessir hafi sennilega verið endurreistir oftar en einu sinni.

Um aldamótin 1800 var orðið ljóst að ekki væri lengur hægt að halda bænum á gamla bæjarstæðinu í byggð vegna ágangs Skeiðarár og var undirlendið undir brekkunum þá nánast alveg horfið undir sand. Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Guðný Þorsteinsdóttir, ekkja Bjarna Jónssonar, sem bjó í gamla Skaftafelli árin 1833-1849.

Svo vel vill til að varðveitt er ein úttekt jarðarhúsa bæjarins í gamla Skaftafelli, gerð eftir fráfall Bjarna Jónssonar, 20. maí, 1834. Þar eru talin upp eftirtalin hús:

1. Skálahús,

2. Búrhús,

3. Bæjardyrnar,

4. Eldhúsið,

5. Fjósið,

6. Heyhlaða,

7. Eitt hús í selinu

Skaftafell var lengi einbýli en árið 1832 byggði Jón, sonur Bjarna og Guðnýjar, sér bæ ofar í brekkunum þar sem heitir Sel og var líklega áður selstaða frá gamla bænum. Brynjólfur, mágur Jóns, virðist hafa byggt sér bæ í Gömlutúnum beint upp af gamla Skaftafell árið 1833, sá bær var síðan fluttur upp í Hæðir um 1864. Þegar Þorsteinn Bjarnason tók svo við Skaftafelli af móður sinni árið 1849/1850 flutti hann bæinn upp að Bölta.

Bolti

Bæjarstæði Bölta.

Gamli bærinn er nú nánast alveg horfinn undir sand eða blásinn burt og það eina sem sést er nyrsti hluti bæjarhólsins sem liggur í boga á um 16 m löngum kafla neðst í svokölluð Gömlutúnum. Hæstur er hóllinn um 3 m. Um 3-4 hólf voru greinileg í hólnum árið 2004, en þau voru ekki jafn greinileg við skráningu 10 árum seinna og gróður var þá orðinn verulegur á og við tóftina.

110-1018_IMG

Enn standa hús á þessum þremur stöðum í brekkunum í Skaftafelli; Bölta, Seli og Hæðum, þótt búskapur sé löngu aflagður. Núverandi hús í Seli voru byggð árið 1912 og friðlýst árið 1972. Þau eru nú í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands ásamt tveimur hlöðum byggðum um og fyrir miðja 19. öld. Byggð lagðist af í Seli árið 1946.

Þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli árið 1967 og þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008 rann Skaftajökulsþjóðgarður inn í hann.

Búsetulandslag Skaftafells er ungt en afar merkilegt fyrir þær sakir að þar má sjá greinileg áhrif náttúruaflanna á búsetu mannsins. Gömlu túnin eru nú að hverfa í sinu og kjarr og eftir örfáa áratugi verður þetta stórmerkilega sýnidæmi um samspil manns og náttúru horfið að mestu ef ekkert verður að gert.

110-1044_IMG

Texti er unninn upp úr fornleifaskráningu Fornleifaverndar ríkisins 2005, fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands ses. 2014, byggingarlýsingu Sels frá 2008, heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs og riti Þórðar Tómassonar Skaftafell. Þættir úr sögu ættarseturs og atvinnuhátta.

22. desember  - Illþurrka

22des

Skarð er í fjalllendinu utarlega á Skarðsströnd, á milli höfuðbýlisins Skarðs og Búðardals sem er fjær sjó. Eftir skarði þessu er leið á milli bæjanna. Leiðin liggur nokkuð hátt, yfir háls. Ef haldið er eftir götunni að austan, frá Búðardal, og gengið áleiðis að Skarði verður fyrir manni regluleg grjótdreif og varða í um 160 m hæð y/s. Grjótdreifin – eða hringurinn – er tæpir sjö metrar í þvermál og þótt grjótið liggi á yfirborðinu virðist það vera meira en aðeins eitt umfar. Varðan er ekki miðjusett á grjóthringnum heldur stendur vestan við miðju, er um 1,5 m í þvermál neðst og mjókkar lítillega upp. Hæðin er um 1,4 m en hrunið hefur úr henni til vesturs. Varðan er ekki vönduð smíð því krossbindingu er aðeins að finna neðst í henni, sem gæti bent til að kunnáttumaður hafi upphaflega hlaðið lága vörðu en ferðamenn svo bætt við hana með því að grípa upp litlar steinhellur úr hringnum og bæta í vörðuna með misjöfnum árangri. Varla er um leiðarvörðu að ræða því leiðin er að öðru leyti ekki vörðuð og væri varðan miðunarvarða hefði hún verið hlaðin upp í skarðinu þar sem hún bæri við himin frá hlíðinni Búðardalsmegin.

Illthurrka

Hér segir ein sagan að kona Geirmundar Heljarskinns landnámsmanns á Skarði (Geirmundarstöðum), Herdís eða Herríður Gautsdóttir, sé grafin. Frá vörðunni sér ekki heim að Skarði því landi hallar enn að Búðardal og Barmi. Gæti einhverjum þótt einkennilegt að velja slíkan legstað þar sem ekki sér á milli leiðis og heimalands Skarðs. Innan fornleifafræðinnar er til sú kenning að fólk hafi í heiðnum sið gjarnan verið jarðsett á landamerkjum og oft einmitt við leiðir. Mögulega hafa landamerki verið þarna á hálsinum milli Skarðs og Barms eða Búðardals í fyrndinni. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá Illþurrkudys hvar galdrakona eða völva á að liggja sem ekki vildi heyra í klukknahljómi frá Skarði né Búðardal, en leiti ber á milli dysjarinnar og Búðardal.

IMG_7160

Afstaða Illþurrku og leiðarinnar á milli bæjanna, horft í átt að Barmi og Búðardal.

Í tengslum við söguna af konu Geirmundar er sagt að svæðið þar sem grjóthringurinn og varðan eru kallist Illþurrka og telur Árni Björnsson að þar hafi verið mýri í fyrndinni og leiðir að því líkum að steinadreifin s´se til komin vegna samgöngubóta; reynt hafi verið að þurrka mýrina til að komast þurrum fótum yfir kelduna. Séra Friðrik Eggerz segir í sóknalýsingu sinni frá 1846 að talið sé að Herdís/Herríður hafi fólgið fé sitt í gili þar skammt frá, Illþurkugili eða Harisargili, og sjálf verið dysjuð þar sem varðan er nú. Í sýslu- og sóknalýsingu Kristjáns Magnúsens frá 1842 nefnir hann dys á hálsinum í skarðinu þar sem Illþurrka hafi forðum verið heygð á þessum sama stað. Þarna er komin fram hugmyndin um að Illþurrka sé nafn á konu sem hvorki sr. Friðrik né Árni taka upp.

IMG_1038-Magnus

Illþurrka og grjóthringurinn, horft til suðurs.

Bergsveinn Birgisson gerir Illþurrku að umfjöllunarefni í bók sinni Leitin að svarta víkingnum. Kvennamál Geirmundar eru nokkuð á huldu og málum blandið hvort hann hafi átt fleiri en eina konu og þá jafnvel samtímis. Í gegnum tíðina hafa heimamenn tengt meint leiði við konu Geirmundar heljarskinns. Spurningin sem Bergsveinn veltir upp er hverslags nafn Illþurrka sé og hvaðan sú kona er komin? Af bók Bergsveins má skilja að þjóðerni einnar konu Geirmundar – Illþurrku – sé mikilvægt púsl í kenningum hans um Bjarmalandsferðir föður Geirmundar og hans sjálfs og tengingu þeirra við fólkið þar. Bjarmaland var heiti á löndunum í kringum Hvítahaf. Ef rétt reynist að um legstað sé að ræða og að kona Geirmundar, Illþurrka, liggi í gröfinni gæti DNA/strontíum ísótópa-rannsókn á beinum/tönnum veitt upplýsingar um hvar í heiminum grafarbúinn var upprunninn.

Textinn er unninn upp úr Árbók Ferðafélags Íslands 2011, Sýslu- og sóknalýsingum – Dalasýsla 2003, Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1885, Leitin að svarta víkingnum 2016 (bls. 296-306) og Adolf Friðriksson í Hlutavelta tímans 2004.

21. desember - Nonnahús

21des

Nonnahús, við Aðalstræti 54A, er eitt elsta hús Akureyrar. Það var byggt árið 1849 og var friðlýst á seinni hluta 20. aldar. Jósef Grímsson gullsmiður byggði húsið og bjó í því til 1858. Þekktasti íbúi hússins var hins vegar Jón Sveinsson, betur þekktur sem Nonni. Hann var aðeins barn að aldri þegar hann flutti í húsið þann 7. júní 1865 ásamt foreldrum sínum og systkinum. Faðir hans lést þegar Nonni var aðeins 11 ára og stóð Sigríður móðir hans þá ein eftir með fimm börn. Tvö yngstu börnin voru tekin í fóstur, elsta dóttirin var send í vist til Kaupmannahafnar en bræðrunum Nonna og Manna bauðst að halda til Frakklands til náms við kaþólskan menntaskóla. Nonni varð síðar heimsfrægur barnabókahöfundur og í dag er æskuheimili hans þekkt undir nafninu Nonnahús.

Nonna var boðið á Alþingishátíðina 1930 og við það tækifæri var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar. Heimsótti hann þá bæinn sinn og gamla heimilið í fyrsta sinn síðan hann fór þaðan 1869. Húsið var þá nokkuð minna en hann minnti og ástand þess orðið hrörlegt. Fjölmargar fjölskyldur bjuggu í húsinu eftir að fjölskylda Nonna hvarf á braut og flutti síðasti ábúandinn þaðan 1944.

Nonnahús er einlyft timburhús með risþaki og mæniskvisti á framhlið. Viðbygging með skúrþaki er við bakhlið hússins en hún var byggð árið 1859. Húsið stendur á steinhlöðnum og steyptum sökklum og er kjallari undir eldhúsi. Skúrþakið er bárujárnsklætt en önnur þök lögð pappa og listum.

Nonni4

Um miðbik 20. aldar hafði viðhaldi Nonnahúss verið illa sinnt og var húsið því frekar illa farið. Árið 1952 gáfu eigendur hússins Zontaklúbbi Akureyrar húsið þannig að gera mætti þar safn, en meðlimir klúbbsins höfðu áður haft hugmyndir um að heiðra minningu Nonna á einhvern hátt. Konur í Zontaklúbbnum hófust strax handa og tókst þeim að opna safn í húsinu þann 16. nóvember 1957. Safnið hefur verið starfrækt allar götur síðan og ófáir gestir hafa lagt þangað leið sína. Zontakonur gáfu Akureyrarbæ húsið árið 2007 og er það í dag hluti af söfnum Minjasafnsins á Akureyri.

Upplýsingar frá Minjasafninu á Akureyri.

20. desember  - Laugarbrekkuþing

20des

Laugarbrekka er fornt bæjarstæði á sunnanverðu Snæfellsnesi, stutt vestan við þorpið Hellnar. Laugarbrekku er getið í Landnámu þegar Sigmundur, sonur Ketils þistils, settist þar að eftir að hafa numið land milli Hellishrauns og Beruvíkurhrauns. Sagnir segja að Sigmundur hafi verið heygður við bæinn og á þar að heita Sigmundarhaugur. Ekki hefur þó tekist að staðsetja hann nákvæmlega. Byggð á Laugarbrekku lagðist af árið 1887 en stuttu áður, árið 1881, hafði kirkjusetrið og kirkjan verið færð til Hellna. Enn má vel sjá rústir bæjar og kirkju á Laugarbrekku, ásamt að minnsta kosti einni þinghústóft. Á Laugarbrekku var lengi vel þingstaður undir nafninu Laugarbrekkuþing og á þinghald að hafa farið fram á Þinghamri svokölluðum sem er stuttu sunnan við bæjarstæðið.

Laugarbrekka

Nokkrar sögufrægar persónur, aðrar en Sigmundur landnámsmaður, eiga rætur sínar að rekja til Laugarbrekku. Þeirra þekktust er Guðríður Þorbjarnardóttir sem kemur mikið við sögu í Eiríks sögu rauða. Á hún meðal annars að hafa verið fyrsta hvíta konan til að eignast barn í Ameríku, nánar tiltekið á Vínlandi. Síðar á Guðríður að hafa lagt leið sína í pílagrímsferð til Rómarborgar fótgangandi þvert yfir Evrópu. Guðríður er því talin hafa verið ein víðförlasta kona heims á sínum tíma. Stendur nú minnisvarði um Guðríði skammt frá bæjarstæði Laugarbrekku. Á honum er stytta sem sýnir Guðríði standandi á skipi með son sinn á herðum sér.

Minnisvardi

Þótt Guðríður sé vel þekkt úr fornsögunum er hún þó eflaust ekki þekktasti Íslendingurinn sem hefur tengingu við Laugarbrekku, sér í lagi Laugarbrekkuþingstaðinn. Þann heiður á líklega Björn Pétursson, betur þekktur sem Axlar-Björn. Björn hefur lengi verið þekktur sem eini fjöldamorðingi Íslandssögunnar. Samkvæmt heimildum viðurkenndi Björn að hafa orðið níu manns að bana, en þjóðsögur segja að raunveruleg tala gæti hafa verið á bilinu 14 til 18 manns. Axlar-Björn var tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Til eru áreiðanlegar heimildir um að allavega fimm aðrir hafi einnig verið teknir þar af lífi, en þeir eru:

Gísli Tómasson - 1635

Ónafngreind kona - 1636

Sigríður Gunnarsdóttir - 1656

Ingimundur Illugason & Valgerður Jónsdóttir - 1659

Þó að brot Axlar-Bjarnar hafi verið hrottaleg má segja að aftaka hans hafi ekki síður verið hrottaleg. Í annálum má finna eftirfarandi lýsingu:

Þennan vetur urðu morðverk Björns í Öxl vestur uppvís. Axlar-Björn viðurkenndi að hafa myrt 9 menn, suma til fjár en einnig aðra fátæka sem voru í vegi hans. Þegar honum varð aflskortur veitti kona hans honum lið. Hún brá snæri um háls manna og rotaði þá með sleggju. Björn gróf hina dauðu í heygarði og fjósi. Fundust bein fleiri manna en Björn viðurkenndi að hafa drepið en hann kvaðst hafa fundið þá dauða og ekki nennt að fara með þá til kirkju. Björn var dæmdur og tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi. Var hann fyrst limmarinn með sleggjum og síðan afhöfðaður. Loks var hann sundur stykkjaður og festur á stengur. Kona Björns var ólétt og því ekki deydd. Yfirdómari var Jón Jónsson lögmaður.

Annálar I, bls. 180 (Skarðsannáll)

Meinta dys Axlar-Bjarnar má finna við Laugarbrekkuþing, stuttu austan við kirkjugarðinn. Dysina og ýmsar aðrar minjar á jörðinni, s.s. kirkjugarð, bæjarstæði og þingstað, friðlýsti Matthías Þórðarson þáverandi þjóðminjavörður árið 1928.

Meint-dys

Meint dys Axlar-Bjarnar.

Texti byggður á upplýsingum úr Landnámabók, Skarðsannál, Eiríks sögu rauða og heimasíðu rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dæmdu – dhd.hi.is.

19. desember - Skollahringur

19des

Yst í Hofsárdal í Vopnafirði er jörðin Hof, gamalt höfuðból sem getið er í Landnámu. Jörðin hefur skipað stóran sess í sögu Vopnafjarðar frá fyrstu tíð. Þaðan kemur ætt Hofverja, en þeir ásamt Krossvíkingum fóru með goðorð í Vopnafirði. Talið er að kirkja hafi verið reist á Hofi fljótlega eftir kristnitöku en kirkjan sem þar stendur í dag var reist árið 1901.

Með svo langa byggðasögu kemur það ekki á óvart að töluvert sé um menningarminjar á jörðinni. Þar má í dag greina ummerki um garða, tóftir af útihúsum, mögulegt hof og ýmislegt fleira sem eftir stendur sem vitnisburður um líf fyrrum ábúenda jarðarinnar. Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti árið 1930 fjóra minjastaði í landi Hofs. Þar má nefna hoftóft, ferhyrnda girðingu, fornlega girðingu og hringlaga tóft fyrir ofan bæinn sem gengur undir nafninu Skollahringur.

Skollahringur

Nafngift þessarar hringlaga tóftar hefur vakið athygli og margir velt fyrir sér hvert hlutverk hennar hefur verið fyrst hún fékk slíka nafngift. Orðið Skollahringur finnst ekki í orðabókum og ekki er vitað um annan stað á Íslandi sem ber þetta nafn. Tóft Skollahrings er staðsett skammt vestan við gamla bæinn á Hofi, en í túninu þar er lægð sem bæjarlækurinn rennur eftir og kallast Grófardalur. Skollahringur er grasi vaxinn en gróðurfar á veggjum sker sig úr umhverfinu. Suðvesturhluti tóftarinnar er þó nokkuð sokkinn en á suðurhlið hennar hefur verið inngangur. Sigurður Vigfússon segir í lýsingu sinni árið 1893: „Fyrir ofan bæinn, í framhaldi af geilinni sem áðr er nefnd, er kringlótt tóft allmikil, með veggjum miklum og vallgrónum. Stórar dyr eru á tóftinni, er snúa til suðrs; hún er um 9 faðma í þvermál. Ekki verðr séð til hvers þessi girðing hefir verið höfð. Enn tóftin er nú kölluð Skollahringr.“

Afstodumynd-ur-drona

Skollahringur er innan rauða hringsins.

Hlutverk tóftarinnar hefur því verið óþekkt um aldamótin 1900 en flestum heimildum ber saman um að hún sé forn. Hvert hlutverk hennar hefur verið er enn tilgátum háð, og þær eru ófáar. Nafngift tóftarinnar kemur þar sterkt inn en flestar ályktanir um hlutverk hennar hafa verið dregnar út frá Skollahringsnafninu.

Orðið skolli getur þýtt kölski, djöfull eða refur. Með kristnitökunni breyttist merking orða eins og blót og ragn yfir í gerólíka og jafnvel neikvæða merkingu. Hafa menn velt vöngum yfir því hvort meiningin með að kalla tóftina Skollahring hafi verið að eigna hana kölska. Í ljósi þess hafa sumir einnig velt upp þeim möguleika að þarna hafi gamla hofið staðið.

Önnur tilgáta um hlutverk tóftarinnar byggð á nafninu tengist gömlum munnmælum þar sem sagt er að minjarnar séu leifar varnarvirkis frá fornöld. Á fyrsta áratug 20. aldar þegar verið var að leiða vatn inn að bæ sagði verktakinn að við skurðargerðina hefðu komið í ljós samanhrunin jarðgöng sem höfðu stefnu frá bænum og að rústinni. Lengi var hægt að sjá móta fyrir lægð í túninu þar sem göngin höfðu mögulega verið. Því var dregin sú ályktun að jarðgöngin hefðu verið leynigöng sem lágu frá bænum yfir í varnarvirkið. Nafngift tóftarinnar er þá nokkuð rökrétt því skolli gat einnig þýtt óvinur.

DSC05234

Skollahringur fyrir miðri mynd, horft til suðausturs.

Aðrar rannsóknir en fornleifaskráning hafa ekki verið gerðar á Skollahring, svo aldur tóftarinnar og gerð eru enn á huldu. Við fáum því áfram að velta vöngum yfir því hver tilgangur þessa mannvirkis kann að hafa verið. Hvað heldur þú?

Textinn er byggður á upplýsingum úr sunnudagsblaði Tímans frá 1970, heimildaskráningu fornleifa sem unnin var af Byggðasafni Skagfirðinga 2004, Sveitir og jarðir í Múlaþingi, heimildasíðu Vopnafjarðarhrepps og grein Sigurðar Vigfússonar um rannsókn í Austfirðingafjórðungi 1893.

18. desember - Hegningarhúsið

18des

"Í kaupstaðnum Reykjavík skal byggja hegningarhús, í því skulu útteknar vinnuhegningar þær, sem menn eru dæmdir í fyrir afbrot sem mál er höfðað út af á Íslandi"

segir í konunglegu tilskipuninni árið 1871, en þá hafði gamla fangelsið við Arnarhól (Stjórnarráðshúsið) ekki verið notað sem fangelsi frá því 1813. Hegningar- og fangelsismál á landinu höfðu því verið í ólestri í yfir 50 ár! Á þeim tíma voru afbrotamenn annað hvort hýddir, vistaðir til skamms tíma í svartholum eða sendir til Danmerkur til afplánunar. Mikil umbylting varð í fangelsismálum á 19. öldinni í hinum vestræna heimi þar sem mannúðarsjónarmið settu mark sitt á þá stefnumótun sem átti sér stað. Þau sjónarmið snérust að mestu leyti um greinarmuninn á hegningu og betrun. Eðli glæpa var að breytast þar sem morðum og líkamsmeiðingum hafði fækkað og brotum sem snéru að eignarrétti fjölgaði. Áherslur innan byggingarlistar breyttust einnig þar sem hugmyndir um að byggingarnar sjálfar, rými og umhverfi gætu mótað atferli fanganna á jákvæðan hátt og breytt þeim að vilja valdhafanna og til að verða betri menn. Í nágrannalöndunum var farið að byggja fangelsi sem búin voru mjög mikilli hreinlætis- og hitunartækni. Húsin voru oft uppbyggð sem hringlaga byggingar þar sem auðvelt var að hafa eftirlit með föngum við skylduvinnu innan veggja fangelsisins.

Joladagatal-2021

Árið 1866 var skipuð nefnd hér á landi til að koma fangelsismálunum í lag, en athyglisvert álit nefndarmanna var að ef íslenskir afbrotamenn tækju út hegningu sína hér á landi þá myndi það hræða aðra frá því að lenda á glapstigum. Fangelsisvist í Danmörku var jafnvel talin upphefð og eftirsóknarverð að þeirra áliti. Greinilegt var að ráðamenn litu til nágrannalandanna og þessara nýrra sjónarmiða í fangelsismálum, þegar kom að skilgreiningu á hlutverki hins nýja fangelsis. Gera átti greinarmun á betrun, hegningu og varðhaldi. Einnig átti að byggja yfir helstu valdastofnanir landsins og í húsinu voru því auk fangelsis önnur starfsemi um styttri eða lengri skeið, svo sem ráð- og dómhús Reykjavíkur, Landsréttur og Hæstiréttur. Einnig var í húsinu Bæjarþingssalur þar sem fram fóru kosningar, bæjarstjórnarfundir og jafnvel dansleikir. Húsið var samt lengst af nýtt sem fangelsi eða í 144 ár.

Hegningarhus_baejarthingsalur_21062016_GGG

Bæjarþingssalurinn

Eftir langan aðdraganda varð svo úr að húsið var byggt árið 1872 eftir teikningum Klents byggingarmeistara. Ekki tókst þó að fylgja eftir hugmyndum um að gera greinarmun á betrunar-, hegningar- eða varðhaldshúsakynnum. Embættismenn ríkisins töldu að erfitt yrði að koma upp heraga í fangelsinu eins og tíðkaðist í nágrannalöndunum þar sem Íslendingar hefðu enga reynslu af her og töldu þeir að heimilisagi mundi henta betur. Ekki var heldur gerður mikill greinarmunur á þeim hluta hússins sem innihélt valdastofnanir eða fangelsi. Húsið var heldur frumstætt og með frekar gamaldags ofnum án vatnsveitu og vatnssalerna. Það má því segja að langur vegur hafi verið frá þeim nýju fangelsisbyggingum sem risu erlendis og þessa nýja fangelsis á Skólavörðustíg. Engu að síður er Hegningarhúsið sögulegt tákn aukinnar mannúðar í refsingum hér á landi þar sem að aflagðar voru líkamlegar refsingar á sama tíma og húsið reis. Húsið er byggt í nýklassískum stíl og svipar mikið til húsa sem byggt voru í Kaupamannahöfn á sama tíma. Það sker sig frá flestum öðrum steinhlöðnum húsum á Íslandi þar sem notað var bæði grágrýti og hraungrýti við byggingu þess. Ætla má að ástæðan fyrir að hraungrýti hafi verið notað sé vegna þess að grágrýtið var bæði dýrt í vinnslu og seinlegt að vinna með það.

Hegningarhus_21062016_GGG_10

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur árið 1967 stóð til að rífa húsið en ekki varð af þeim áformum og húsið var friðað í B-flokki af menntamálaráðherra 18. ágúst 1978 samkvæmt þjóðminjalögum nr. 52/1969 og telst því nú friðlýst.

Ákveðið var að loka fangelsinu árið 2016 og finna því nýja notkun. Um þessar mundir standa yfir endurbætur á húsinu á vegum Minjaverndar. Spennandi verður að sjá hvaða hlutverk Hegningarhúsið fær í framtíðinni og hvernig það muni áfram setja svip sinn á miðbæ Reykjavíkur, nú vonandi meira opið almenningi þar sem hægt verður að upplifa sögu þess.

Hegningarhus_21062016_GGG_5

Texti unninn upp úr greinargerðinni Saga Hegningarhússins við Skólavörðustíg, sem tekin var saman af Hjörleifi Stefánssyni arkitekt vegna undirbúnings að viðgerðum Hegningarhússins. Minjastofnun veitti styrk úr Húsafriðunarsjóði til verksins sem kom út í ágúst 2017.

17. desember - Þingmannavegur

17des

Vaðlaheiði var löngum nokkur farartálmi milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Fjórar leiðir voru helst farnar yfir heiðina: Leiðin um Gönguskörð upp úr Garðsárdal yfir í Bleiksmýrardal, yfir Bíldsárskarð á milli Kaupangs í Eyjafirði og Grjótárgerðis í Fnjóskadal, Þingmannavegur frá Eyrarlandi (Vaðlaþingi) í Eyjafirði að Hróarsstöðum í Fnjóskadal og leiðin um Steinsskarð, en þar var lagður bílvegur árið 1930.

Fjölförnust þessara leiða fram eftir öldum var Þingmannavegurinn. Nafn þessarar leiðar gæti verið tilkomið vegna þess að þetta var leiðin á milli Vaðlaþings í Eyjafirði og Leiðarness, en þar voru héraðsþing til forna og er þar að finna tóftir sem taldar eru leifar þingbúða. Báðir þessir staðir voru friðlýstir af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði á árunum 1930 og 1931.

IMG_2282

Horft suður yfir Eyjafjörð af Þingmannavegi.

Þingmannaleiðar er getið í Ljósvetningasögu og er trúlega sama leið og síðar hefur verið nefnd Þingmannavegur. Leiðin er vel vörðuð og vegurinn hlaðinn í köntum í brekkunum beggja vegna heiðarinnar. Þá eru langir kaflar uppi á heiðinni, sem liggja um mýrar og leirbleytur, einnig upphlaðnir. Breidd vegarins þar sem hann er upphlaðinn er um þrír metrar, svo trúlega hafa menn ætlað að hafa hann kerrufæran.

IMG_2295

Upphlaðinn vegurinn á Vaðlaheiði.

Þingmannavegur hefur verið fjölfarinn. Til marks um það birtist eftirfarandi auglýsing í Norðanfara 20. febrúar 1872:

Heyrið góðir hálsar! Fyrir þá skuld að Þingmannavegur liggur allur í mínu landi að vestanverðu ofan Vaðlaheiði frá efstu brún hennar og ofan að Eyjafjarðará; hafa ferðamenn undanfarin ár áð í áðurnefndu landi beggja vegna vegar svo fleiri eða færri tugum hesta hefur skipt, nótt eptir nótt og viku eptir viku fyrirfarandi sumar og það fleiri af þeim án leyfis enn flestir án borgunar. Fyrir þennan heimildarlausa yfirgang er fullur þriðjungur af því litla landi sem jörðinni tilheyrir lagður í mér gagnlausa örtröð.
Fyrirbýð ég því að sleppa hér eptir að sleppa nokkru hrossi í mínu landi án leyfis og borgunar, borgunin er 2 sk. fyrir dægrið en 4 sk. fyrir sólarhringin og svo að tiltölu hvort hrossin eru lengur eða skemur.

Leifstöðum 15. febrúar 1872
Jón Rögnvaldsson.

Vel má vera að auglýsing Jóns tengist vegabótum á Þingmannaveginum sem unnar voru af Þingeyingum, vegurinn var þá lagfærður talsvert. Þessar vegabætur hafa væntanlega ekki dregið úr umferð ferðamanna í landi Leifstaða.

Í bréfasafni Jónatans Þorlákssonar hreppstjóra frá Þórðarstöðum í Hálsahreppi, er að finna bréf frá Lárusi Sveinbjörnssyni sýslumanni Þingeyjarsýslu frá 1870 og 1871 þar sem talað er um kostnað við brúarbyggingu á Vaðlaheiði. Upphaflega var ætlunin að byggja trébrú yfir Systralæk þar sem hann rennur eftir dálitlu gili uppi á heiðinni. Að betur athugðu máli þótti hentugra að byggja grjóthlaðna brú yfir gilið og mun hún hafa verið hlaðin sumarið 1871. Brúin er mikið mannvirki og fagmannlega hlaðin. Lengd að ofan er um 20 metrar og breidd rúmlega 3 metrar. Hæð hennar er 2,5 til 3 metrar. Ræsi voru á brúnni, en þau hafa fyllst, þannig að nú hefur myndast dálítið uppistöðulón sunnan við hana.

IMG_2446

Steinbrúin yfir Systralæk á Vaðlaheiði. Horft til suðurs.

Vega- og brúargerðin á Þingmannavegi er dæmi um þann mikla framfarahug Íslendinga sem ríkti á þessum árum.

Á amtsráðsfundi norður- og austuramtsins 1880 var lagt til við landshöfðingjann að Þingmannavegur yrði skilgreindur sem fjallvegur. Fram kemur í fundargerðinni að sama tillaga hafði verið gerð á hverju ári frá árinu 1876 en án árangurs. Ef vegurinn hefði verið skilgreindur sem fjallvegur hefði kostnaður við gerð og viðhald hans komið frá landssjóði en ekki sýslusjóðum eins og önnur vegagerð á þessum árum. Líklega hefur einhver hreppapólitík verið í málinu því að í fundargerð amtsráðsfundar árið 1881 kemur fram að landsstjórnin hafi ákveðið að veita 2000 kr. í fjallveg yfir Vaðlaheiði, en jafnframt fallist á rök sýslumanns Eyfirðinga um að hentugra væri að vegur yrði lagður utar á heiðinni yfir Geldingsárskarð, sem er skammt sunnan við Steinaskarð en þar var gerður bílvegur 1930 og var það þjóðvegurinn þar til hann var færður yfir í Víkurskarð. Var hafist handa við vegagerð yfir Geldingsárskarð rúmum 10 árum eftir að brúin yfir Systralæk var gerð. Framkvæmdir Þingeyinga við vega- og brúargerð á heiðinni nýttist því ekki eins og hugur stóð til. Jón Rögnvaldsson á Leifstöðum hefur mátt vel við una þar sem varla hefur verið mikill ágangur ferðamanna í landi hans eftir að vegurinn yfir Geldingsárskarð var gerður.

IMG_2445

Steinbrúin. Horft til suðurs.

Í dag er Þingmannavegur vinsæl gönguleið. Lengd hans er um 11 km og er hækkunin um 600 metrar þegar gengið er austur yfir en töluvert lægri ef gengið er vestur yfir. Þetta er því þægileg dagleið og fjölmargir hlaupa- og útivistarhópar leggja leið sína um veginn í dag.

Thingmannavegur

Textinn er unninn upp úr eftirfarandi tímaritum: Stjórnartíðindi fyrir Íslands 1880, Fróði útg 2. febrúar 1881 og Norðanfari 20. febrúar 1872.

16. desember - Hraunsrétt

16des

Í lágum hraunkrika í Aðaldal í landi bæjarins Hrauns stendur hin forna Hraunsrétt. Talið er að réttin hafi verið reist á árabilinu 1830-1838. Réttin er hlaðin úr hraungrýti sem sennilega hefur verið tekið úr hrauninu umhverfis hana, þótt eitthvað af byggingarefninu hafi verið flutt lengra að. Lengi hefur verið réttað að Hrauni því í túnjaðrinum má sjá rústir enn eldri réttar. Við upphaf framkvæmda við réttina samdi sveitastjórn við Jóhann Ásgrímsson um að hlaða almenninginn. Í laun fékk hann eitt lamb frá hverjum ábúanda hreppsins. Bændur hlóðu sjálfi sína dilka.

IMG_0443

Réttin er mjög stór í grunninn en hefur verið minnkuð síðustu ár til að bregðast við fækkun sauðfjár á svæðinu. Árið 1977, þegar sauðfjárbændur voru fleiri en í dag, var almenningurinn 1.800 fermetrar og dilkarnir 34 að tölu og stærð þeirra samtals 5.432 fermetrar. Á þeim tíma voru veggir almenningsins og mestur hluti dilkanna tvíhlaðnir úr hraungrjóti. Norðan við réttina er hringlaga aðhald, að nokkru myndað frá náttúrunnar hendi, nefnt safnhringur. Árið 1913 var hlaðinn hraungarður um safnhringinn sem enn stendur og er nýttur til að hvíla féð nóttina fyrir réttardag.

Hraunsrett-med-almenningi

Deilur um Hraunsrétt hafa oft skotið upp kollinum og um tíma voru uppi háværar raddir innan sveitar um að hætta að nota réttina og byggja nýja úr nútímalegra byggingarefni á öðrum stað, en að lokum fékkst fjármagn til að gera réttina upp og er hún því enn nýtt sem skilarétt sveitarinnar. Henni hefur verið breytt gegnum árin og aðlöguð að kröfum hvers tíma. Hraunsrétt er mjög gott dæmi um friðaðar menningarminjar sem enn nýtast í sínu upprunalega hlutverki.

Upplýsingar fengnar úr BA ritgerð Sigurlaugar Dagsdóttur, Menningararfur í formi íslensks hraungrýtis. „Hraunsréttardeilan“ í Aðaldal frá 2012.

15. desember - Skagagarður

15des

Skagagarðinn má rekja um 1500 metra leið frá Útskálum og þvert yfir Garðskaga, þar sem hann hefur endað við túngarða hjá Kirkjubóli. Enn sést vel fyrir honum sunnan Skagabrautar en að norðanverðu, í átt að Útskálum, hefur hann verið sléttaður við túnrækt. Á loftmyndum má þó sjá móta óglöggt fyrir honum nokkurn spöl ofan við íbúðarhúsið. Hann er talinn hafa verið hlaðinn til varnar akurlöndum fyrir ágangi búfjár. Akrarnir hafa tekið yfir töluvert svæði nyrst og vestast á skaganum. Hluti þeirra, yst á skagatánni í kringum Garðskagavita, var friðlýstur árið 1930 eftir rannsóknir Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi árið 1902 (sjá teikningu hér fyrir neðan til hægri). Má enn greina ummerki akurreina í túnum austur af vitanum.

Col 1Kristján Eldjárn vakti athygli á þessum merka garði og fjallaði ítarlega um hann í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977. Síðan þá hafa farið fram nokkrar rannsóknir á aldri og gerð hans, fyrst af jarðfræðingunum Hauki Jóhannessyni og Guðrúnu Larsen árið 1988. Garðurinn var hlaðinn úr torfi en ofan á honum er grjóthleðsla. Telja þau að hann hafi náð meðalmanni í öxl þegar hann var í notkun. Var garðurinn hafður stöllóttur að innanverðu en slétthlaðinn að utan, en þannig mátti reka fé út fyrir garðinn án þess að það kæmist inn aftur. Af gjóskulögum að dæma hefur garðurinn verið hlaðinn á 10. – 11. öld, en Haukur bendir á að hið „svokallaða miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.” Þetta vekur spurningar um hvenær Skagagarðurinn lauk hlutverki sínu. Í fornu bréfi frá 1340 segir að Bjarni bóndi í Útskálum hafi gefið Skálholtsbiskupi fjórðung jarðarinnar ásamt akurlöndum í próventu með syni sínum. Brynjúlfur Jónsson telur að það muni vera þeir akrar sem hann sér móta fyrir nyrst á Skaganum.

 

Skagagardur-teikning-Brynjulfs

20200812_120609-copy

Um 450 metrum sunnan Skagabrautar eru rústir fornbýlisins Skálareykja og liggja túngarðar þess beggja vegna Skagagarðsins. Þegar Brynjúlfur var við rannsóknir sínar árið 1902 stóð fjárrétt á þessum stað, en sagnir herma að þar hafi fyrrum staðið bær og hafi sú skylda hvílt á ábúanda að verja akrana fyrir ágangi búfjár. Spyrja má hvort bær þessi hafi byggst eftir að Skagagarðurinn hafði þjónað hlutverki sínu og í stað þess að viðhalda þessu mikla mannvirki hafi einfaldlega verið settur maður á vakt við að halda fé í skefjum frá ökrunum. Í Skálareykjum er að finna töluverðar rústir, en frekari rannsóknir þarf til að skera úr um aldur þeirra.

Skagagardur

Minjarnar eru vitnisburður um forna búskaparhætti og er Skagagarðurinn einkennandi mannvirki í búsetulandslagi svæðisins, enda ber byggðin nafn eftir garðinum og kallast Garður. Suðurnesjabær hefur nú tekið frumkvæðið að því að gera þessum minjum til góða, bæta aðgengi að þeim og upplýsingagjöf og stuðla þannig að varðveislu þeirra til framtíðar.


Kanon_1639494695146

Efnið er sótt úr ýmsum heimildum, en ítarlegast er fjallað um Skagagarðinn í ofangreindu riti Kristjáns Eldjárns, í fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands ses. fyrir sveitarfélagið Garð (FS404-08011) og í umfjöllun Ómars Smára Ármannssonar á vefnum ferlir.is. Einnig var stuðst við frétt og viðtal við Hauk Jóhannesson í Morgunblaðinu frá 14. júní 1988 og umfjöllun Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringu- og Árnessýslu 1902 (Árb. forn. 1903).

14. desember - Kambstún

14des

Skammt vestan við bæinn Hestgerði í Suðursveit gengur klettahryggur að nafninu Hestgerðiskambur niður suðvesturhlið Hestgerðismúla. Vestan við hann er grasivaxinn hvammur og kallast svæðið Kambstún. Þar var verstöð vermanna hér á árum áður og enn í dag sjást þar rústir beggja vegna lækjarins. Sagt er að þær hafi verið fleiri fyrir fáeinum árum en lækurinn hafi borið möl yfir þær.

IMG_20190301_134737

Fiskimiðin úti fyrir Suðursveit þóttu gjöful auk þess sem stutt var að sækja þau. Aðstæður gátu þó verið erfiðar og fá afdrep fyrir úthafsbriminu. Í Hálsalóni, ekki langt frá Hestgerði, mynduðu tvö sker ásamt boðum og grynningum einhvers konar kví sem var opin mót norðaustri. Þar var því góð höfn frá náttúrunnar hendi, varin af náttúrulegum brimbrjótum. Fiskimiðin í Suðursveit voru ekki aðeins sótt af heimamönnum heldur einnig af Eyfirðingum, Þingeyingum og Fljótsdælingum. Þar á meðal voru vermenn sem komu frá Skriðuklaustri en jörðin Borgarhöfn tilheyrði Skriðuklaustursumboðinu fram til ársins 1743. Talið er að vertíðin hafi byrjað í febrúar og varað fram í maí. Fyrir vermenn frá Skriðuklaustri var talsverður vegur úr Fljótsdal, yfir Vatnajökul og niður í Suðursveit. Heimildir benda þó til þess að leiðir þarna á milli hafi verið mun greiðari á klausturtímanum en nú er og því ekki mikill farartálmi. Vegna veðurfarsbreytinga og framrásar jökla lokuðust leiðirnar smátt og smátt.

Ýmsar sögusagnir gengu um vermennina í Suðursveit. Daniel Bruun og Sigfús Sigfússon skráðu meðal annars nokkrar þeirra. Auk sagna um fyrirboða og reimleika er sagt er að vermennirnir hafi þótt frekar uppvöðulssamir þegar þeir voru í landlegu og þóttu leiknir og „djarftækir til kvenna“. Til er orðtækið „Komdu í Kambtún ef þér finnst langt“ en það gefur til kynna að það hafi oft verið glatt á hjalla í verbúðunum.

IMG_20190301_133439

Hálsahöfn er talin hafa lagst af á ofanverðri 16. öld í kjölfar mikils manntjóns á miðunum árið 1573. Líklega er það þó ekki eina ástæða þess að höfnin lagðist af. Skerin sem mynduðu kvína höfðu einnig lækkað með tímanum, hvort sem það var vegna landbrots eða landsigs, og þar með hafa gæði hafnarsvæðisins dvínað með tímanum. Í kjölfar manntjónsins á 16. öld hefur höfnin mögulega verið orðin það léleg að ekki hafi þótt ráðlegt að hefja sjósókn þar aftur. Í jarðabók um svæðið milli Lónsheiðar og Skeiðarársands sem tekin var saman eftir aldamótin 1700 segir að útræði sé á jörðinni við Hálsahöfn og að vermannaskálar hafi verið þar til forna. Það bendir til þess að enn hafi þá verið róið frá svæðinu. Á 18. öld er staðan hins vegar orðin sú að landbrot og sandburður höfðu endanlega eyðilagt hafnaraðstöðuna. Árið 1931 friðlýsti Matthías Þórðarson þjóðminjavörður verbúðaminjarnar í Kambstúni.

Kambstun

Minjastofnun Íslands tók þátt í samstarfsverkefni níu aðila og tíu aukaaðila frá Noregi, Íslandi, Írlandi og Skotlandi sem fjallaði um stafræna skráningu og miðlun menningararfs og gekk undir nafninu CINE á árunum 2017-2020. Gunnarsstofnun (Skriðuklaustur) leiddi þá vinnu hér á Íslandi og var einn þáttur í verkefninu miðlun leiðarinnar sem vinnumenn frá Skriðuklaustri fóru til verstöðvanna í Hálsahöfn fyrir 500 árum síðan. Hér fyrir neðan er hægt að skoða 360° mynd af Kambstúni.

https://www.youtube.com/watch?v=rG_uIsHDUd8

Textinn er unninn upp úr vefsíðu CINE verkefnisins, vefsíðunni Heimaslóð, vefsvæði Þórbergsseturs, Tímariti Máls og menningar 1964, Lesbók Morgunblaðsins 1946 og Sögu 2010.

13. desember - Krosslaug

13des

Krosslaug er heit náttúrulaug (42°C), staðsett á landamerkjum jarðanna Brennu og Reykja. Aldur laugarinnar er ekki þekktur en nafnið Krosslaug kemur fyrir í bréfum á 17. öld. Samkvæmt Kristni sögu, sem sennilega var samin á 13. öld, segir að í lauginni hafi Vestlendingar látið skírast til kristni er þeir komu af Alþingi árið 1000. Það sumar var allur þingheimur skírður er menn riðu heim. Ráða má af sömu heimild að þeir vildu frekar láta skíra sig í hlýju vatni Krosslaugar en köldu, venjulegu vatni. Talið var að laugin hefði þá verið vígð samkvæmt kirkjunnar lögum og reistur hjá henni kross, sem hún hafi síðan verið kennd við, en í Kristni sögu er laugin nefnd Reykjalaug. Var af þessum sökum einnig talið að laugin hefði yfirnáttúrlegan lækningarmátt. Laugin var friðlýst árið 1978 af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, og var ástæða friðlýsingarinnar sögnin um skírn Vestlendinganna.

DJI_0011-MAS

Laugin er hlaðin úr 3-4 lögum af stórum steinum. Hún er nær sporöskjulaga, um 1,2 m að breidd og um 2 m á lengd. Dýpt laugarinnar er um 0,8 m. Inntak laugarinnar er við norðausturhornið og gengur þar grjóthlaðinn stokkur upp af lauginni til austurs. Ólafur Þorsteinsson frá Kambhól sagði að efst í lauginni væri upphlaðið sæti sem nefnt var Biskupssæti. Ekki sést það nú. Mögulegt er að kofarúst sé á hólnum ofan við laugina og má sjá tilgátu að staðsetningu hennar á teikningunni hér til hægri.

Á fyrri hluta 20. aldar drukknaði ungur piltur í lauginni og var þá rofið stórt skarð í suðurhorn laugarinnar til að koma í veg fyrir frekari óhöpp. Árið 1979 var ástand laugarinnar orðið mjög bágborið og var laugin lagfærð árið eftir að frumkvæði Ingimundar Ásgeirssonar á Hæli í Flókadal, en undir eftirliti Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings á Þjóðminjasafni Íslands. Síðar létu Ásgeir Sigurðsson frá Reykjum og Jón Böðvarsson í Brennu girða svæði umhverfis laugina af og voru þar gróðursett tré. Í kringum árið 2000, í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi, stóðu Borgarfjarðarsveit og Borgarfjarðarprófastsdæmi fyrir frekari gróðursetningu og lagningu stígs að lauginni. Nokkru seinna var sett upp hlið við bílastæðið.

 

1980-Vidgerd-Krosslaug-Teikn-GO

1980-Vidgerd-Krosslaug-GO

Árið 2020 var umhverfi laugarinnar farið að láta verulega á sjá vegna ágangs ferðamanna. Minjastofnun Íslands ákvað því að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir á svæðinu með hellulögn framan við laugina og að henni frá göngustígnum. Einnig var sett upp nýtt skilti við bílastæði.

IMG_4686-MAS

Fyrir viðgerð.

IMG_0405-MAS

Eftir viðgerð.

Texti unninn upp úr rannsóknarskýrslum Guðmundar Ólafssonar (2011 og 2013), riti um friðlýstar fornleifar í Borgarfjarðarsýslu, vinnuskýrslu Þjóðminjasafns 1980 og Kristni sögu.

Eldri mynd og teikning birt með leyfi Guðmundar Ólafssonar.

12. desember - Hlíðarhús, Vesturgata

12des

Vesturgata er ein af elstu götum Reykjavíkur og á hún sér langa og fjölbreytta sögu sem meðal annars má lesa úr húsunum sem við hana standa. Eins og nafnið bendir til þá liggur Vesturgatan í vesturátt frá því sem kalla má „Hornstein Reykjavíkur“, gatnamót Aðalstrætis og Hafnarstrætis, elstu gatna bæjarins. Lagning Vesturgötu hófst 1840 og var hún upphaflega kölluð Læknisgata því hún náði upp að bústað landlæknis (þar sem Garðastræti er nú). Um 1860 var gatan framlengd til vesturs og sá hluti hennar nefndur Hlíðarhúsastígur, kenndur við hina svonefndu Hlíðarhúsabæi, en þeir voru þyrping torfbæja sem stóðu þar sem nú eru Vesturgata 24 og 26 og skáhallt niður að gatnamótum Ægisgötu og Nýlendugötu. Heimildir eru um byggð í Hlíðarhúsalandi frá því um 1500 en húsin eru nú að mestu horfin fyrir utan lítinn hluta af yngstu húsunum, „Hlíðarhús b“, við Nýlendugötu 9 sem glittir í á milli húsa austan megin Ægisgötu. Eins og önnur torfhús hafa Hlíðarhúsabæirnir þurft reglulegt viðhald og húsin hafa breyst í áranna rás, stækkað og minnkað eftir efnum og þörfum.

Nordurbaer-Hlidarhusa

Í Hlíðarhúsum, eins og víða við ströndina í landi Víkur og Sels, bjuggu aðallega tómthúsmenn eins og þeir kölluðust sem ekki höfðu skepnur og hefðbundinn búskap heldur stunduðu daglaunavinnu og róðra.

Hlíðarhúsabæirnir voru jafnan taldir til fyrirmyndar um alla gerð og umgengni. Árið 1703 bjuggu í Hlíðarhúsum 15 manns en 1762 voru íbúar orðnir 39. Þessa fjölgun má rekja til stofnunar Innréttinganna árið 1751. Þá fjölgaði tómthúsum á svæðinu og byggðin þéttist. Árið 1835 voru Hlíðarhús og Ánanaust lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Hægt er að rekja uppbyggingu Hlíðarhúsalands að mestu til ársins 1866, en þá tók bæjarstjórnin við jörðinni af ekkju ábúanda ásamt hjáleigunni Ánanaustum. Einnig ákvað bæjarstjórnin að leggja Hlíðarhúsastíg, byggja brunn og skipta Hlíðarhúsatúni upp til áframhaldandi leigu og uppbyggingar. Árið 1888 hlaut gatan svo lögfest nafnið Vesturgata eftir höfuðátt frá Aðalstræti.

ABS-10-431

Árið 1907, Hlíðarhús við Vesturgötu og Ægisgötu, síðar Nýlendugata 7. Til vinstri sést í turn húss á horni Norðurstígs og Tryggvagötu. © Ljósmyndasafn Reykjavíkur, ÁBS 10 431. Ljósmyndari óþekktur.

Undir lok 19. aldar var timburhúsum farið að fjölga í Reykjavík en einnig komu til skjalanna svokallaðir steinbæir, ný húsagerð sem talin er sérreykvísk. Uppruni hennar er rakinn til þess er Íslendingar fengu tækifæri til að taka þátt í byggingu Alþingishússins. Þannig lærðu Íslendingar þá iðn að höggva til grjót og byggja úr því hús auk þess sem verkfæri hinna dönsku handverksmanna voru boðin upp eftir að byggingu Alþingishússins lauk og Íslendingar fengu þá einnig aðgang að verkfærum til handverksins. Steinbæir tóku víða við af torfhúsum bæði austan og vestan við læk en með byggingu þeirra gátu menn bætt húsakynni sín með endingarbetri byggingartækni en hinum hlöðnu torf- og grjótveggjum sem sífellt þurfti að endurhlaða og það úr efni sem hægur vandi var að sækja í næsta nágrenni. Form steinbæjanna byggði þó að miklu leyti á gerð burstabæja. Langveggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti en gaflarnir voru úr timbri þar sem auðveldara var að koma fyrir gluggum. Húsið sem nú stendur eitt eftir af Hlíðarhúsum má kalla „hálfan steinbæ“ en það var byggt árið 1898 upp úr torfbæ sem þar stóð áður og tilheyrði Hlíðarhúsabænum. Sá bær var byggður árið 1883 og er norðurveggur hans enn sýnilegur í núverandi húsi. Hús þetta er mjög góður vitnisburður um þróun reykvískrar húsagerðar úr torfbæ í steinbæ. Þó að einungis annar hliðarveggja Hlíðarhúsa b sé hlaðinn, telst húsið til steinbæja. Aðrir steinbæir sem enn standa við Vesturgötu eru Götuhús við Vesturgötu 50, Félagshús við Vesturgötu 57 og Litla Sel og Jórunnarsel, sambyggð hús við Vesturgötu 61. Eftir að Hlíðarhúsabæirnir byrjuðu að týna tölunni risu þar fjölmörg timburhús og enn standa heillegar raðir timburhúsa báðum megin við hina merku Vesturgötu og í nágrenni hennar.

Texti unninn upp úr skýrslum Minjasafns Reykjavíkur nr. 76, 98 og 109.

11. desember - Betuhús í Æðey

11des

Í norðanverðu Ísafjarðardjúpi kúrir Æðey undir fjöllum Snæfjallastrandar, sem skýlir henni fyrir norðanáttinni. Þar má m.a. finna reisulegt íbúðarhús sem byggt var árið 1864 og annað enn eldra hús sem á sér athyglisverða sögu, svokallað Betuhús.

Betuhús 3

Sagan segir að hús þetta hafi verið hluti af byggingum sem reistar voru í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í tengslum við saltframleiðslu sem þar fór fram á árunum 1773-1793 samkvæmt fyrirmælum Danakonungs. Soðið var salt úr sjó við hverahita. Þarna voru reist tvö íbúðarhús, annað fyrir forstöðumann og hitt fyrir saltkarla, fimm eða sex suðuhús, tvö þurrkunarhús, stórt salthús og hús yfir sjógeymi, tvö dæluhús, vatnshjól og trérör. Saltsuðan var lögð niður því reksturinn bar sig ekki. Saltið tók í sig blýsambönd úr pönnunum sem notaðar voru og ekki hægt að nota það til að salta fisk því hann varð bláleitur. Reyndist því erfitt að selja saltið. Árið 1799 voru eignir saltverksins boðnar upp. Húsin keyptu kaupmennirnir Busch og Paus.

Betuhús 5Betuhús 1

Ekki er vitað hvenær eða hverjum Busch og Paus seldu húsið, sem nú er í Æðey og hefur væntanlega verið annað íbúðarhúsanna í Reykjanesi. Heimildum ber heldur ekki saman um flutnings­árið, né hver flutti það, en annað hvort var það Rósinkar Árnason eða faðir hans Árni Jónsson sem flutti húsið út í Æðey og gerði að íbúðarhúsi árið 1874 eða 1878 og hafði það þá staðið lengi autt í Reykjanesi. Hjónin Jónas Jónasson (1875-1939) og Elísabet Guðmundsdóttir (1880-1963) bjuggu í húsinu frá 1907 þar til þau fluttu til Reykjavíkur árið 1935. Líklega hefur húsið þá fengið nafn sitt og kallað Jónasarhús eða Betuhús, en síðara heitið virðist hafa náð yfirhöndinni. Byggt hefur verið við húsið sunnan­vert og skúr við vesturhlið. Eftir að hætt var að búa í húsinu árið 1935 var hreinsaður dúnn í húsinu og síðar var það geymsla. Húsið var komið í mikla niðurníslu í kringum 1980. Þá var húsið einangrað, settir í það nýir gluggar með plexigleri og skúrbygging stækkuð. Árið 2018 var síðan hafist handa við endurgerð hússins og það fært í það horf sem vænta má að húsið hafi verið í um 1910. Sú vinna stendur enn yfir en afar skemmtilegt hefur verið að fylgjast með hve mikil natni, kunnátta og virðing hefur verið lögð í það verk.

Betuhús 4

Eins og nafn Æðeyjar ber með sér er þar mikið æðarvarp og dúnninn talinn til mikilla hlunninda. Æðardúnssængur hafa um aldir verið álitnar svo mikil eign að þær gengu í erfðir, gefnar ungbörnum, í fermingar- og brúðargjafir, þjóðhöfðingjum og öðrum fyrirmennum. Enginn yrði vonsvikinn ef hann fengi æðardúnskodda í jólagjöf, svo ekki sé nú minnst á sæng!

Betuhús var friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, sem kveður á um að öll hús sem reist voru fyrir 1850 skulu vera friðuð. Í dag er húsið því friðlýst.

Texti unninn upp úr greinum Lýðs B. Björnssonar um saltvinnslu á Vestfjörðum, spjalli Finnboga Hermannssonar við Guðrúnu Lárusdóttur sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1981, upplýsingum á heimasíðu Snjáfjallaseturs, bók Engilberts S. Ingvarssonar Undir Snjáfjöllum og greinargerð landeigenda um ástandsmat og uppmælingar og upplýsingum frá núverandi eiganda hússins, Jónasi Jónassyni.

Húseigandi hefur veitt Minjastofnun heimild til að nota ljósmyndir í hans eigu.

10. desember - Baðstofuhellir í Reynishverfi

10des

Baðstofuhellir, einnig þekktur sem Bæjarhellir, er staðsettur fast við eyðibýlið Hellur í Reynishverfi í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu, sunnan í Hellnaskaga. Hellirinn er manngerður, höggvinn í sandsteinsberg og vísar vestur til sjávar, að Dyrhólaósi og Dyrhólaey en í austri eru Reynisfjall og Reynisfjara. Talið er að bærinn Hellur hafi byggst upp úr kirkjujörðinni Reyni og samkvæmt heimildum var þar tvíbýlt árið 1703. Var þá búið þar með 25 nautgripi, 33 kindur og 11 hross. Líkt og nafn hellisins bendir til hefur verið innangengt úr honum inn í sjálfan bæinn en út við dyr hans má enn sjá útskot og göng upp í rústir bæjarins. Býlið fór að lokum í eyði árið 1909.

IMG_5115

Sr. Jón Steingrímsson bjó í hellinum ásamt Þorsteini bróður sínum fyrsta vetur þeirra bræðra á Suðurlandi, veturinn 1755 – 1756 þegar Kötlugos geysaði. Hellirinn er merkilegur í sjálfu sér sem manngerður hellir en einnig er hann hluti af lífi og starfi sr. Jóns Steingrímssonar sem gegndi lykilhlutverki sáluhjálpara í móðuharðindunum á Íslandi. Veturinn sem Jón dvaldi í hellinum fékk hann mikinn áhuga á eldgosum og lagði drög að rannsókn á Kötlugosinu og skrifaði um það skýrslu. Samtímalýsing hans um eldsumbrotin í Lakagígum 1783-1785 (Skaftáreldar) og áhrif þeirra í nærliggjandi sveitum var svo gefin út í Eldriti hans árið 1788. Jón hlaut nafnbótina „Eldklerkur“ í kjölfar „eldmessu“ sinnar 20. júlí 1783 sem talin var hafa valdið því að hraunstraumur stöðvaðist og draga tók úr gosvirkni í Lakagígum. Í hellinum lærði hann einnig þýsku og lagði margt til samfélagsins í Reynishverfi, svo sem þekkingu á bátasmíði og hleðslu varnargarða. Jón varð síðar bóndi á Hellum 1756-1761 þangað til hann var vígður til prests og fluttist þá að Felli í Mýrdal. Í lok 19. aldar voru hreppaskilaþing Hvammshrepps haldin í Baðstofuhelli en síðar var hann notaður sem skjól fyrir sauðfé.

Baðstofuhellir er u.þ.b. 6 m langur, tæplega 3 m breiður og 2 m á hæð. Hleðsla er fyrir munna hellisins og var þar einnig viðarþil með dyrum og gluggum. Bogadregna skotið innst í honum er líklega verk Jóns en í ævisögu sinni segir hann sjálfur frá því þegar hann hjó út fyrir skotinu:

„Þá eg nú eptir veturnætur 1755 settist að á Hellum, fékk Einar mér íveru skemmustofu vestan bæjardyrnar. Hún var höggvin inn í bergið, en eg hjó hana svo stóra inn lengra í bergið, að eg kom þar fyrir rúmi mínu, borðkorni og bekk og öllu því, er þar meðferðis hafði, og vorum við þar bræður báðir um veturinn, og áttum þar það bezta og rólegasta líf.“

Badstofuhellir

IMG_5101

Baðstofuhellir ásamt rústum bæjarins voru friðlýst árið 1983 af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni.

Manngerðir hellar við bæi eru vel þekktir á Suðurlandi og telja hátt annað hundrað, allt frá Ölfusi og austur í Mýrdal. Í mörgum þeirra eru gamlar veggjaristur, fangamörk, ártöl, krossmörk og rúnir en erfitt getur þo verið að aldursgreina hella út frá slíkum ristum einum saman. Hellarnir hafa gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina og m.a. verið nýttir sem fjárhús, hlöður og geymslur. Manngerðir hellar eru forn húsakostur og þannig hluti af byggingararfi þjóðarinnar sem mikilvægt er að varðveita og rannsaka.

Hellur

Umfjöllunin er unnin upp úr friðlýsingarskrá, bókinni Manngerðir hellar eftir Árna Hjartarson, Guðmund J. Guðmundsson og minningum Eyjólfs Guðmundssonar Minningar úr Mýrdal.

9. desember - Hafnarbúðir á Skaga

9des

Jörðin Hafnir er norðvestast á skaganum sem skilur að Húnaflóa og Skagafjörð, um 32 km norðan Skagastrandar. Hafnir eru gamalt höfuðból og ein mesta hlunnindajörð Húnavatnssýslu. Mikið útræði var frá fornu fari frá Hafnabúðum og sóttu menn þangað til sjóróðra víðs vegar að framan úr innsveitum héraðsins. Allmargar varpeyjar eru einnig úti fyrir jörðinni, mikill reki og seltekja góð.

DJI_0809
Horft til suðvesturs yfir Hafnabúðir. Stekkjarnes lengst til vinstri, þá Hjallanes og því næst Kólkunes.

Jarðarinnar er fyrst getið í reka- og landamerkjaskrá Þingeyrarklausturs frá því um 1285 ásamt býlinu Rifi í Hafnarlandi. Umfangsmiklar mannvistarleifar eru víða út við ströndina sem vitna um mikil umsvif á staðnum í aldir. Þéttustu minjasvæðin eru á Stekkjarnesi, Hjallanesi, Kólkunesi, Innri-Þrándarvík, en gert var út frá öllum þessum stöðum og einu nafni talað um Hafnabúðir. Auk tímabundinnar búsetu í tengslum við sjóróðra var einnig föst búseta í Hafnabúðum með hléum fram undir miðja 19. öld í það minnsta. Einnig var búið á Rifi og gert út frá Rifsbúðum sem eru á svonefndu Rifsnesi nokkru vestar í landi Hafna.

Teikningar-BSK

Örnefnið Kólkunes hefur orðið uppspretta þjóðsagna og er ýmist sagt kennt við tröllkonu með því nafni sem á að hafa búið og gert út frá nesinu eða þá landnámsmanninn Þorbjörn kólku. Um Þorbjörn er næsta lítið vitað en í Landnámabók segir aðeins að hann hafa numið Kólkumýrar og búið þar meðan hann lifði. Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er hann hins vegar tengdur við örnefnin Kólkunes og Kólkusker á Höfnum og sagður hafa verið þar í veri haust og vor og haft búð sína á Kólkunesi. En þegar hann gerðist gamall og ófær til sjóróðra á hann að hafa hvolft skipi sínu sem var steinnökkvi úti fyrir nesinu en vaðið sjálfur til lands og heitir það síðan Kólkusker.

Mynd-3

Horft til norðvesturs yfir Hjallanes, Kólkunes í baksýn og Kólkusker til hægri við nesið.

Þótt lítið sé að byggja á þjóðsögunni um Þorbjörn kólku og jarðarinnar sé ekki getið í rituðum heimildum eldri en frá 13. öld er víst að þar hefur búseta og útræði hafist miklu fyrr. Í rofabökkum út við ströndina eru greinileg mannvistarlög undir gjóskulagi úr Heklu frá 1104 og því ljóst að þar hafa verið einhver umsvif a.m.k. svo snemma sem á 11. öld og mögulega allt frá landnámi.

Það er mikið landbrot á svæðinu og því miður er stór hluti þessara minja í verulegri hættu af þeim sökum. Á vordögum 2021 barst Minjastofnun ábending um að gripir væru að koma í ljós þar í rofabakka og var í framhaldinu gerður út leiðangur til að rannsaka þær minjar sem þar voru að koma í ljós.

Mynd-4

Hægt er að horfa á viðtal við minjavörð Norðurlands vestra með því að smella hér.

Textinn er unninn upp úr Sturlubók Landnámu, Íslenzku fornbréfasafni, Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og Föðurtún eftir Pál Kolka.

8. desember - Kirkjugarðurinn á Bæ í Trékyllisvík

8des

Í Árneshreppi á Ströndum, nyrsta hreppi Strandasýslu, er að finna mikilfenglegt landslag. Lítið er um undirlendi en hrikaleg fjöll þeim mun meira áberandi. Í Trékyllisvík er að finna nánast eina undirlendið í Árneshreppi og þar hefur landbúnaður verið í öndvegi. Sagan segir að hingað hafi Finnbogi rammi, söguhetja Finnboga sögu ramma, flutt og reist sér bæ fríðan sem talinn er vera bærinn Bær. Í túninu fram af bæjarhólnum á Bæ er kirkjugarður afmarkaður af ferhyrndu garðlagi úr torfi. Sagnir herma að um sé að ræða kirkjugarð Finnboga ramma og telja margir sig jafnvel vita hvar hann hvíli í garðinum. Talið er að kirkja hafi verið á Bæ í Trékyllisvík áður en Árneskirkja var byggð einhvern tímann á 13. öld. Talið er að kirkjan hafi síðan verið flutt að Árnesi og sett niður þar sem fólk hafi séð ljós loga á kvöldin. Var þar talinn heilagur staður.

BaerTrekyllisvik

Garðurinn er um 20 x 22 m að stærð og mynda veggir hans því sem næst beina línu en eru bogmyndaðir í hornunum. Útveggir garðsins eru töluvert hærri en þúfurnar innan veggja og ná allt að 0,7m hæð. Hlið er á garðlaginu í suðvestri í átt að bæjarhólnum. Stórþýft er í garðinum og því erfitt að greina leiði á yfirborði en fyrir miðju hans er að finna ógreinilega tóft. Ekkert grjót er að sjá í tóftinni, sem snýr í norðaustur-suðvestur og er um 8 m á lengd og 7 m á breidd. Hér er talin vera tóft kirkjunnar á Bæ.

Kirkjugarðurinn á Bæ er talinn vera mjög forn og hefur notkun á honum að öllum líkindum lagst af þegar kirkjan var flutt að Árnesi á 13. öld. Hér er því að finna heillegar minjar kirkjugarðs frá mjög afmörkuðu tímabili, eða frá um 1000-1300. Góða varðveislu garðsins í dag má rekja til framsýni Elíasar Guðmundssonar, bónda á Bæ frá 1918-1942, sem leyfði minjunum að standa óhreyfðum þegar hann sléttaði túnin í kringum garðinn. Kirkjugarðurinn var friðlýstur af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði árið 1930.

Kirkjugardur_1638976689945

Texti unninn upp úr Kirkjum Íslands og fornleifaskráningu í Árneshreppi sem unnin var af Fornleifastofnun Íslands ses.

7. desember - Ásvallagata 67

7des

Árið 1932 voru samþykkt á Alþingi lög um byggingarsamvinnufélög. Tilgangur laganna var að auðvelda efnaminna fólki aðgang að lánsfé til húsbygginga án beins ríkisstyrks. Fyrsta félagið sem stofnað var á grundvelli hinna nýju laga var Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur og var það stofnað árið 1932. Sama ár hóf félagið undirbúning að byggingu 33 húsa á reit í vesturbæ Reykjavíkur. Húsin sem þar risu voru annars vegar tvíbýlishús og hins vegar einbýlishús í tveimur stærðum. Tvíbýlishúsin og stærri einbýlishúsin voru byggð eftir teikningu Axels Sveinssonar verkfræðings en minni einbýlishúsin voru hönnuð af Þóri Baldvinssyni arkitekt. „Þórishúsin“ sem svo voru kölluð voru í teningsstíl í anda Bauhaus-skólans, tvílyft með horngluggum, inndregnum svölum og lágreistu skáþaki, alls tuttugu að tölu. Tíu Þórishúsanna voru steinsteypt en hin voru timburhús, ýmist klædd bárujárni eða forsköluð. Þórir nam arkitektúr í San Francisco og kynntist þar forskölun, aðferð til að verja útveggi timburhúsa með múrhúð. Utan á borðaklædda timburgrind er lagður bikpappi og sinkhúðað net. Á netið var kastað venjulegri múrhúð svo fullbúið bar húsið öll útlitseinkenni steinhúss. Forskölun var fyrst notuð hér á landi árið 1934 í verslunarhúsi sem Þórir teiknaði fyrir KRON í Bankastræti 2.

Asvallagata-67

Samvinnuhúsin í Vesturbænum vöktu athygli bæjarbúa á árum heimskreppunnar enda fólst í þeim fyrirheit um hagkvæmt og fallegt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Múrhúðuðu timburhúsin voru kölluð Eysteinshús með vísan í nafn Eysteins Jónssonar ráðherra sem bjó í hverfinu. Bygging fyrstu samvinnuhúsanna tók aðeins átta mánuði sem þótti tíðindum sæta. Vonir stóðu til að múrhúðin á timburhúsunum yrði í senn fegurri og endingarbetri en bárujárn. Frágangur stoðnets og lista undir múrhúðinni reyndist þó misvandaður og með tímanum mynduðust sprungur í múr margra húsa. Flestum Þórishúsum sem í upphafi voru með forskölun hefur síðar verið breytt með misjöfnum árangri. Einungis eitt hús af þeirri gerð hefur varðveist með upphaflegri múráferð, heimili Eysteins Jónssonar ráðherra við Ásvallagötu 67 sem byggt var árið 1934. Ytra borð þess var friðað af mennta- og menningarmálaráðherra árið 2011.

PastedGraphic-1

Texti byggður á upplýsingum úr nýútgefinni bók um Þóri Baldvinsson arkitekt.

6. desember - Forn-Lá

6des_1638872363314

Dr. Kristján Eldjárn er afmælisbarn dagsins en hann fæddist á þessum degi árið 1916. Af því tilefni er í umslagi dagsins kotið Forna-Lá í Eyrarsveit (Grundarfjarðarbæ) á Snæfellsnesi. Forna-Lá er gangabær frá síðmiðöldum, enn örfárra slíkra sem rannsakaður hefur verið í heild sinni. Kristján gróf í bæinn sumarið 1942 og taldi sig í fyrstu vera að rannsaka hoftóft, en annað kom í ljós.

Forna-Lá stendur á tungu, sem virðist gamalt tún, austan við bæinn á Neðri-Lá undir fjallinu Stöð. Neðan við Lárbæina er Lárvaðall, sem gengur inn úr sjávarlóninu Lárósi. Neðri-Lá fór í eyði fyrir 1940 og voru þá þekktar allmiklar rústir austan bæjarins, nefndar Forna-Lá. Sagt er að landnámskonan Sleif hafi numið land í Lá og haft bæ sinn í Fornu-Lá. Sá bær sem Kristján gróf upp er ekki meintur landnámsbær Sleifar, en hann taldi ljóst að eldri minjar væru undir bænum, þótt hann treysti sér ekki til að grafa þær upp á þeirri stundu.

Bæjarhúsin að Fornu-Lá samanstanda af fjórum húsum tengdum með göngum. Þegar komið er inn úr bæjardyrunum er fjós til vinstri og skáli til hægri, sé gengið inn eftir bæjargöngunum er eldhús til vinstri, innan við fjósið, og baðstofa til hægri, innan við skálann. Helsta byggingarefni hússins er grjót og var það bæði að finna í miklu magni í veggjum en einnig voru gólfin hellulögð að hluta. Sérkennilegast þótti Kristjáni við bæinn hið mikla ræsakerfi sem finna mátti í gólfum hans. Ræsi liggur úr öllum húsum bæjarins nema baðstofunni. Ræsin sameinast í aðalræsi sem liggur fram bæjargöngin og út. Göngin halla fram og hafa því haft sæmilegan vatnshalla. Ræsin eru öll lögð steinum og hellur yfir. Hafa þau verið ætluð til að taka við leka og „ræsta“ húsið.

Forna-la-teikning

Bæjarrústirnar voru aldursgreindar bæði út frá formgerð hússins, rituðum heimildum og þeim gripum sem þar fundust. Uppgröfturinn fór fram fyrir tíma kolefnisaldursgreininga og því voru þetta þær bestu aðferðir sem til voru til aldursgreiningar á þessum tíma. Þess ber að geta að á Snæfellsnesinu finnast sjaldnast nothæf, söguleg gjóskulög sem sagt geta til um aldur minja. Þeir gripir sem fundust og var skilað til Þjóðminjasafns Íslands eru: þrjú brot af litlum, steyptum eirpotti, met úr blýi, snældusnúður, sleggjuhaus, þrjú brýni, tvö ókennileg járnstykki. Af þessum gripum var eirpotturinn sá eini sem hægt var að tímasetja, en hann er frá 15.-17. öld. Þar sem bæjarins er ekki getið í Jarðabók Árna og Páls frá upphafi 18. aldar má gera ráð fyrir að hann hafi verið kominn í eyði löngu fyrir þann tíma og út frá þessum upplýsingum tímasetur Kristján þetta yngsta búsetuskeið í Fornu-Lá til 1450-1550.

Adrir-gripir

Fornleifauppgröfturinn á Fornu-Lá er einn af fáum sem fram hafa farið í Eyrarsveit. Að lokinni rannsókn fyllti Kristján upp í bæjarrústina og er hún því ógreinileg á yfirborði. Minjarnar voru skráðar árið 2004 við aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu, hafði þá trjáplöntum verið plantað ofan í minjarnar sem því miður gerist alltof oft hér á landi.

Pottur

Textinn er unninn upp úr grein Kristjáns í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1949-50: Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.

5. desember - Helgustaðanáma

5des

Í landi Helgustaða við Reyðarfjörð, í brattri hlíð um 100 m ofan við veginn út fyrrum Helgustaðahrepp, er gömul silfurbergsnáma sem gengur undir nafninu Helgustaðanáma. Náman er sérstök að því leyti að í henni hafa fundist stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum. Silfurberg eru tærir kristallar af steindartegundinni kalsít. Bergið hafði veigamikið hlutverk í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss og leiddu margar þeirra til uppgötvana á sviði eðlis-, efna- og jarðfræði á 19. og 20. öld. Silfurbergið hafði meðal annars áhrif á verk söguþekktra vísindamanna, t.d. Isaac Newton, Jean-Baptise Biot og Albert Einstein.

20210831_104558

Upphaf silfubergstöku í námunni má rekja aftur til 17. aldar þegar Friðrik þriðji danakonungur sendi danskan steinhöggvara til að starfa við silfurbergstöku og afla annarra fágætra steintegunda á svæðinu árið 1668. Frá þeim tíma var þessi fágæta steintegund sótt í námuna allt fram á miðja 20. öld. Fyrst var öllum heimilt að sækja sér berg á svæðið en um miðja 19. öld var náman sett á leigu og var stórtækasti námurekstur hennar á tímabilinu 1855-1872. Námurekstri var hætt á Helgustöðum árið 1924. Það voru þó ekki endalok iðnaðar á svæðinu en á fimmta áratug 20. aldar var þar settur upp búnaður til að mala afgangssilfurbergsmola.

Náman samanstendur í raun af tveimur námum, þeirri efri og eldri annars vegar og þeirri neðri og yngri hins vegar. Efri og eldri náman er sporöskjulaga geil í fjallshlíðinni og liggur inngangur hennar í gegnum klettavegg. Ummerki um námurekstur eru sjáanlegar á milli námunnar og svokallaðs Silfurlækjar. Þar er grjót- og torfhlaðin kofatóft sem talin er tilheyra eldra skeiði námurekstursins. Framan og austan við efri námumunnann eru minjar frá 1947-1948 þegar sett var upp aðstaða og búnaður til að mala afgangsmola silfurbergsins, þ.e. steinsteyptir húsgrunnar og hluti af mótor sem knúði myllu sem muldi silfurbergsmolana.

IMG_0532

Neðri náman var grafin út á árunum 1921-1925 og var um leið tengd efri og eldri námunni með göngum. Gangamunni yngri námunnar er um 60 m neðan við þá eldri og er sú náma öðruvísi en sú eldri að því leyti að göng hafa verið gerð inn í hlíðina, á meðan eldri náman er geil í fjallshlíðinni. Inn í göngunum er hlaðinn og steyptur veggur en sams konar veggur er hlaðinn út frá austurhlið ganganna í gangaopinu. Göngin á milli námanna tveggja hafa fyllst af grjóti vegna hruns og vatnsframburðar í gegnum tíðina. Í dag eru aðeins um 10 m af göngunum aðgengilegir. Gólfbotn ganganna hefur verið hreinsaður að nokkru leyti. Sagt er að þar undir leynist járnteinar frá vinnslutíma námunnar.

Helgustaðanáma er ekki aðeins mikilvægt náttúruvætti heldur er hún einnig mikilvægur minjastaður. Staðurinn telst til blandaðra minja, þ.e. menningarminja sem einnig teljast til náttúruminja. Helgustaðanáma er eitt fárra dæma um námugröft og nýtingu jarðefna á Íslandi og er gildi námunnar ótvírætt fyrir atvinnusögu landsins sem og alþjóðlega vísindasögu.

20210831_105743

Texti byggður á upplýsingum úr fornleifaskráningarskýrslu Byggðasafns Skagafjarðar og af heimasíðum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Umhverfisstofnunar.

4. desember - Bláskeggsárbrú

4des

Bláskeggsárbrú í Hvalfirði var upphaflega byggð árið 1907 og þótti þá brautryðjendaverk. Hún var fyrsta steinsteypta brúin sem byggð var á Íslandi, utan Reykjavíkur. Í tilefni af 100 ára afmæli brúarinnar árið 2007 var ákveðið að lagfæra hana og sumardaginn fyrsta árið 2010 var brúin tekin í notkun á ný eftir að hafa verið færð í upprunalegt horf.

Notkun steinsteypu við byggingu Bláskeggsárbrúar var frumraun í efnisvali. Á þeim tíma timburbrýr, sem margar höfðu verið byggðar seinustu 20-30 árin áður. Á þeim var brúarhafið yfirleitt ekki langt en þegar brýrnar voru farnar að nálgast um og yfir 20 m var erfitt að koma nægilega traustum timburbrúm við. Þá var ekki síður vandamál að þær þurftu mikið viðhald. Byrjað var að brúa stærstu ár landsins með stálbrúm og þá einna helst hengibrúm, en þær voru dýr mannvirki á þeim tíma. Það var svo að frumkvæði Jóns Þorlákssonar, þáverandi landsverkfræðings, að ákveðið var að nota steinsteypu við brúarsmíðina. Jóni hugnuðust ekki timburbrýrnar og var hann jafnframt áhugamaður og frumkvöðull við notkun steinsteypu til bygginga. Hins vegar hafði Jón fengið litla menntun í hönnun og notkun steinsteypu í burðarvirkjum, því þessi fræði voru ný á námstíma hans í Kaupmannahöfn um aldamótin 1900. Í Reykjavík höfðu þó skömmu fyrr verið steyptir bogar yfir Lækinn, sem kunna að hafa verið fyrirmynd að brúnni að einhverju leyti. Notkun steinsteypu í vitum og húsum var þá einnig hafin hérlendis.

Ákvað Jón að byggja steypta bogabrú yfir Bláskeggsá en sleppti að hafa í henni járnalögn. Útsjónarsemi hefur þurft hjá vinnuhópnum til þess að komast fram úr verkinu með þeim fábrotnu verkfærum sem þá var að hafa. Ekki eru tiltækar frásagnir af brúarsmíðinni, en hún virðist hafa gengið vel því brúin reyndist mun ódýrari en gert var ráð fyrir. Brúarsmíðin virðist því hafa heppnast vel og hinn hái aldur hennar, full hundrað ár, með bogann heilan og óraskaðan, staðfestir það.

DSCN1363

Ákveðið var að endurgera hina 100 ára gömlu brú eins og hún var upphaflega byggð. Verkið var unnið sumrin 2008 og 2009 og sá Vegagerðin um verklegar framkvæmdir. Byrjað var á því að fjarlægja seinni tíma viðbætur og styrkingar. Afgangurinn af timburpalli og járnbitum sem settir höfðu verið á brúna var tekinn ofan af brúnni og jarðefnum mokað ofan af henni og frá endunum. Þá voru byggðir verkpallar undir bogann til þess að tryggja að hann brotnaði ekki. Bogabreikkun var söguð frá og fjarlægð, ásamt steyptu vængjunum. Komu þá gömlu grjóthleðslurnar í ljós inni í fyllingunni á bak við steyptu vængina. Hressa þurfti upp á hleðslurnar, lagfæra steypta bogann lítillega og steypa nýjan vegg að ofanverðu við bogann, en sá að neðan var inni í fyllingunni en reyndist of lélegur, svo einnig þurfti að steypa hann á ný. Smíðað var handrið að fyrirmynd þess gamla eins og það leit út á mynd sem tekin var í kringum 1920. Að lokum var aðkomuvegurinn lagaður lítillega.

Brúin er eina brúin á Íslandi sem hefur verið friðlýst sem fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti brúna árið 1978.

030

 

PB200016-Copy

 

Textinn er unninn upp úr grein eftir Jakob Hálfdanarson sem birt var í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.

3. desember - Krókur á Garðaholti

3des

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Krókur stendur í næsta nágrenni samkomuhússins á Garðaholti. Sjálft húsið byggðist upp í áföngum. Árið 1923 var aðeins baðstofa og eldhús í einni burst auk lítils skúrs við útidyrnar en síðar bættust við burstir við báða enda. Um vorið 1934 fékk Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir ábúð á Króki, en maður hennar var Vilmundur Gíslason. Þau hjónin áttu fjögur börn og Guðrún Sveinsdóttir móðir Vilmundar bjó einnig hjá þeim. Í Króki var búið allt til ársins 1985 þegar Þorbjörg lést.

Krokur-PHA

Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar í Króki gáfu Garðabæ bæjarhúsin í Króki ásamt útihúsum og innbúi árið 1998 með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður. Jón Nordsteien arkitekt stjórnaði endurgerð bæjarins og Einar Hjartarson húsasmíðameistari var fenginn til að vinna verkið. Systurnar Elín og Vilborg Vilmundardætur höfðu umsjón með uppröðun húsmuna. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar. Bærinn er opinn almenningi til sýnis á sunnudögum á sumrin og oft einnig á aðventunni. Í einni burst Króks er vinnuaðstaða fyrir fræðimenn eða rithöfunda sem Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar hefur umsjón með. Krókur stendur innan marka verndarsvæðis í byggð í Garðahverfi á Álftanesi sem nýtur sérstakrar verndar í samræmi við lög nr. 87/2015. Skjal til staðfestingar á ákvörðun bæjarstjórnar í Garðabæ um að gera Garðahverfi að verndarsvæði í byggð var staðfest af Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra þann 24. október 2017. Krókur er enn sem komið er eina húsið innan marka verndarsvæðisins sem hefur verið endurgert í upprunalegri mynd.

Garaholt-20101002-055_rni-G_Alta_okt2010

Ljósmynd: Alta. Tekin í tengslum við vinnslu verndarsvæðis í byggð.

(Texti byggður á upplýsingum á heimasíðum Garðabæjar, Stjórnarráðs Íslands og Minjastofnunar Íslands.)

2. desember - Drumbabót

2desember

Drumbabót er um 100 hektara landsvæði við eyrar Þverár í Fljótshlíð. Á síðustu öld hafa miklir trjábolir komið þar upp úr sandinum sem bera þess vitni að á svæðinu hafi áður vaxið gróskumikill skógur. Árhringjarannsóknir sýna að skógurinn hefur fallið í einum atburði og hefur hann því að öllum líkindum fallið í miklu jökulhlaupi sem komið hefur úr Mýrdalsjökli og orsakaðist af Kötlugosi. Um mikið hamfarahlaup hefur verið að ræða þar sem Drumbabót er í um 45 km fjarlægð frá jaðri Mýrdalsjökuls. Mikið hefur því þurft að ganga á til að eyða þeim mikla skógi sem þarna stóð.

Drumbabot-Uggi

Drumbarnir standa flestir um 40 cm upp úr jarðveginum og hafa allir lurkarnir svipaða hallastefnu, eða til suðvesturs. Gjóskublandað sandlag sem þeir standa í er um 50 cm þykkt frá rótum trjánna. Má því ætla að gjóskulagið sem féll í tengslum við hamfarirnar hafi verið um 90 cm þykkt eða jafnvel þykkara. Hefur gjóskulagið varðveitt drumbana og forðað þeim frá rotnun í um 1200 ár, en sá hluti bola og greina birkitrjánna sem stóð ofan gjóskunnar hefur eðli málsins samkvæmt, grotnað í tímanna rás.

Drumbabot

Drumbabót. Mynd fengin af vef Sunnlenska fréttablaðsins.

Tekist hefur að aldursgreina hamfarirnar sem orsökuðu eyðingu skógarins nákvæmlega með notkun C-14 geislakolsmælinga og talningu árhringja og sýna þær niðurstöður að eyðing skógarins hafi átt sér stað árið 822-823. Nákvæmari tímasetning hefur enn fremur fengist með rannsóknum á ysta árhring trjánna en þær sýna að ysti árhringurinn var fullskapaður en sá næsti ekki byrjaður að myndast sem þýðir að eldgosið átti sér ekki stað á vaxtartíma trésins, heldur einhvern tíma frá hausti 822 og fram á vor 823. Enn fremur bendir fjöldi árhringja til þess að trén hafi flest öll verið um 70-100 ára gömul þegar jökulhlaupið átti sér stað.

Drumbabot-sel

Árið 2015 fór fram fornleifarannsókn í Drumbabót á vegum Fornleifastofnunar Íslands ses. Þar voru rannsakaðar seljaminjar sem voru mjög illa farnar vegna vind- og vatnsrofs auk þess sem þær þóttu vera í hættu vegna aukins fjölda ferðamanna sem leið sína leggur um svæðið. Á einum stað í Drumbabót eru tveir hólar og í þeim stærri hefur fundist fjöldi forngripa sem vindrof hefur afhjúpað á síðustu áratugum. Í rannsókninni voru grafnir sex könnunarskurðir í hólana tvo og snið þeirra rannsökuð. Niðurstöður bentu til að þarna hafi verið sel þar sem merki um árstíðarbundna búsetu fundust, en sand og áfok var að finna í torfveggjum, yfir gólfum og á milli öskulaga. Minjarnar eru taldar vera frá 16. til 17. öld þar sem þær eru rétt fyrir ofan gjóskulag úr Heklu frá árinu 1510. Það er því ljóst að u.þ.b. 700 árum eftir hamfarirnar miklu var svæðið nýtt til seljabúskapar og væri áhugavert að vita hvaða kenningar fólkið sem þar dvaldi hafði um drumbana í sandinum og tilurð þeirra.

Upplýsingar fengnar úr ritum og vefsíðum hjá Morgunblaðinu, Fornleifastofnun Íslands ses. og Náttúrufræðingnum.

1. desember - Hólavallagarður

1desember-cropped

Hólavallagarður, gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu í Reykjavík, er einn af merkustu kirkjugörðum landsins. Í honum er fjöldi friðaðra minningarmarka yfir fólkinu sem þar hvílir.

Hólavallagarður var vígður þann 23. nóvember 1838. Fram að þeim tíma voru Reykvíkingar fyrst og fremst grafnir í „kirkjugarðinum forna“ við Aðalstræti, eða Víkurgarði eins og hann er nefndur. Sá garður var orðinn útgrafinn þegar í upphafi 19. aldar. Þá komu víðast hvar upp í honum heilar líkkistur og beinahrúgur þegar nýjar grafir voru teknar og þurfti að hylja leifarnar áður en syrgjendur komu og jarðsettu sitt fólk. Garðurinn var stækkaður eitthvað en hann dugði engan veginn sem framtíðar kirkjugarður Reykvíkinga.

IMG_6179

Við upphaf 19. aldar var farið að huga að nýjum kirkjugarði. Öflugasti baráttumaðurinn fyrir slíkri framkvæmd var Lorentz von Krieger stiftsamtmaður sem hóf vinnuna við að fá nýjan kirkjugarð um 1830. Svæðið sem hann taldi æskilegast var suðausturhluti vesturtúna bæjarins. Svæðið sem nefnt var Hólavellir. Lorentz gekk ekki vel að koma málinu hratt áfram, eins og hann hafði óskað sér, og var m.a. óeining um kostnaðinn sem hlytist af trégrindverki utan um garðinn. Viður var mjög dýr á þessum tíma og tregt um fjármagn. Niðurstaðan var að hlaða vegg úr torfi og grjóti eftir suður-, norður- og vesturhlið garðsins en setja trégirðingu að austan, Suðurgötumegin, þar sem sáluhliðið var. Síðar var einnig reist líkhús með klukknaturni. Garðurinn var að lokum tilbúinn síðsumars 1838.

Það var trú manna að sá sem væri fyrstur grafinn í nýjum kirkjugarði yrði ,,vökumaður“ hans. Átti vökumaðurinn ekki að rotna, en taka á móti öllum er síðar væru þar grafnir og vaka stöðugt yfir garðinum. Voru sagnir um að vökumenn væru sýnilegir í garðinum rauðklæddir eða í grænum kjól. Vegna þessarar hjátrúar var fólk óviljugt að að láta grafa ættingja sína fyrsta í garðinn. Af þessum sökum og einnig vegna þess að yfirvöldum þótti skipta máli hver yrði fyrstur jarðsettur í garðinum var hann ekki vígður og tekinn í notkun fyrr en í nóvember. Frá síðsumri og fram að þeim tíma voru það fyrst og fremst fátæklingar sem létust í Reykjavík og þóttu ekki æskilegir vökumenn.

Þann 23. nóvember 1838 var Guðrún Oddsdóttir jarðsett í garðinum og varð við það vökumaður hans. Guðrún var af góðum ættum, dóttir Odds Þorvarðarsonar prests á Reynivöllum í Kjós. Hún giftist fyrst Stefáni Stephensen amtmanni á Hvítárvöllum, en að honum látnum giftist hún Þórði Sveinbjörnssyni. Hann varð yfirdómari í Landsréttinum 1834, síðar háyfirdómi og gegndi fjölda annarra virðingarembætta. Þau bjuggu á Nesi á Seltjörn. Guðrún eignaðist fimm börn með Þórði sem öll létust. Hún varð upp úr því sjúklingur og lést í Nesi, 11. nóvember 1838, þá 59 ára gömul.

IMG_6193

Þórður blés á ofangreinda hjátrú og var því ekki smeykur við það að kona sín yrði vökumaður Hólavallagarðs. Garðurinn var vígður þegar hún var jarðsungin og var haldin mikil athöfn í garðinum. Guðrúnu var valið grafarstæði þar sem hæst bar í kirkjugarðinum, lengst norður frá líkhúsinu og rétt við torfvegginn sem skildi á milli garðsins og Melshúsbæjanna. Á gröfinni er minnisvarði úr steyptu járni í nýgotneskum stíl.

Í dag er ekki algengt að grafið sé fyrir kistum í garðinum en heimilt er að grafa duftker í gömlu grafarstæðin, mest átta ker í hvert leiði. Talið er að um 14.000 einstaklingar hvíli í Hólavallagarði.