Fara í efni

Jóladagatal 2022

24. desember - Minjavísir

Minjavisir

... vísar þér á minjar

Minjavísir er ný landfræðileg gagnaþekja í minjavefsjá Minjastofnunar Íslands. Þekjan byggir á örnefnagrunni Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar þar sem unnið hefur verið að skráningu örnefna í stafrænan gagnagrunn frá því um 1990. Í þessum grunni er að finna öll þau örnefni sem skráð hafa verið á Íslandi, hvort sem það eru örnefni af gömlum kortum, líkt og Atlas (Herforingjaráðskortin), eða örnefni skráð af staðkunnugum á útprentuð kort eða í gegnum veftól Landmælinga. Einnig er þar búið að hnitsetja þau örnefni sem mögulegt er að staðsetja og skráð eru í örnefnalýsingar jarða hjá Árnastofnun. Við gerð Minjavísis notuðu starfsmenn Minjastofnunar formúlu sem keyrð var á örnefnagögnin og leitaði að ákveðnum stikkorðum sem gætu gefið vísbendingu um minjastaði/fornleifar t.d. aftökustað, traðir, hlóða, búð, áletrun, skrímsl og dæld. Þegar niðurstöður lágu fyrir var farið kerfisbundið yfir allan listann sem innihélt tugþúsundir hugsanlegra minja-örnefna og gengið úr skugga um hvort raunverulegar vísbendingar um minjastaði eða fornleifar væri að ræða.

Stikkordin

Í Minjavísi eru nú 39.405 örnefni sem þykja vera vísbending um minjastað/fornleifar. Ætla má að eitthvað eigi eftir að bætast við því örnefnagrunnur Landmælinga Íslands er í stöðugri vinnslu og mun Minjavísir einnig fylgja þeim uppfærslum eftir.

Í örnefnagrunninum eru skráð nokkur örnefni sem tengjast jólunum og er þar t.a.m. ein varða sem ber nafnið Jólavarða . Er þetta nafn tilkomið vegna þess að varðan er sögð hlaðin um jól. Örnefnið telst því vera vísbending um minjastað og er þar með hluti af Minjavísi.

24des_1671802667246

Mikilvægasta tólið sem við höfum til að kortleggja þekktar minjar á landsvísu er fornleifaskráning. Fornleifaskráningarverkefnum fer sífellt fjölgandi en heildarskráningu landsins er langt frá því að vera lokið. Frá upphafi hefur fornleifaskráning verið þríþætt og byggir hún af eftirfarandi skrefum; heimildavinnu, skráningu á vettvangi og úrvinnslu og miðlun niðurstaðna. Frá 2015 hafa allar fornleifar verið skráðar samkvæmt stöðlum Minjastofnunar Íslands og skráningum er nú miðlað bæði á minjavefsjá og með birtingu skráningarskýrslna á vef stofnunarinnar. Minjavísir þekjan var hugsuð sem leið til að fá grófa yfirsýn yfir mögulega minjastaði í landinu sem hafa ekki verið skráðir með þessum hætti. Það ætti einnig að einfalda þá heimildavinnu sem þarf að sinna fyrir fornleifaskráningu og auðvelda fagaðilum að taka ákvarðanir um hvaða svæði þurfi að skoða sérstaklega á vettvangi. Þó ber að taka það fram að Minjavísir mun aldrei koma í stað vettvangsskráningar fornleifa.

Síðast en ekki síst er þetta tól fyrir alla þá er hafa gagn og gaman af örnefnum, og vilja grúska í gömlum gögnum og nýjum til þess að fræðast um minjar í landinu.

Minjastofnun Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla!

Smelltu hér til að skoða Minjavísir þekjuna í minjavefsjá

Lýsigögn Minjavísis

Hatidarkvedja-2022

23. desember - Búðakirkja

Budir-25-6-09-66

Elsta og fyrsta kirkja á Búðum á Snæfellsnesi var torfkirkja, smíðuð árið 1703, en var þó ekki vígð fyrr en 1712. Var ákveðið að reisa kirkju á Búðum þar sem kirkjan í Hraunhöfn var orðin léleg. Á hinni svokölluðu Hraunhafnartorfu og nágrenni bjuggu um 100 manns um árið 1700. Búðakirkja var alkirkja og graftarkirkja en erfitt var að koma þar fyrir kirkjugarði því lítill jarðvegur er á svæðinu, aðeins gróft hraunið. Þá var brugðið á það ráð að fylla stóra hraunkvos af skeljasandi. Sandinn þurfti að bera á bakinu neðan úr fjöru og skyldaði biskup alla þorpsbúa til að vinna verkið.

Við upphaf 19. aldar var kirkjan orðin illa farin og var hún afnumin með konungsbréfi árið 1816 vegna ástands hennar, hún var svo rifin í kjölfarið. Leyfi fékkst til að byggja aðra kirkju á Búðum árið 1847. Var það fyrir þrautseigju Steinunnar Sveinsdóttur, en hún hafði geymt gripi gömlu kirkjunnar. Sagan segir að eitt sinn hafi hún verið á gangi nálægt Búðaþorpinu á sólbjörtum sumardegi og lagt sig út af á grasbala einum. Dreymdi hana þá að maður kom til hennar og sagði henni að byggja kirkju á þessum stað. Reisti hún svo nýja timburkirkju á eigin kostnað en konungur gaf síðar 300 ríkisdali til kirkjunnar. Árið 1878 var kirkjan á Knerri í Breiðuvík lögð niður og sóknin þá lögð til Búða. Út frá rituðum heimildum að dæma virðast kirkjurnar á Búðum og í Hraunhöfn ekki hafa átt neinar jarðir. Þær voru ekki til annars ætlaðar en þjóna því litla þéttbýli sem myndaðist umhverfis Búðaósinn vegna fiskveiða og verslunar.

 

23des_1671723988079

Í visitasíum er greint frá misgóðu ástandi Búðakirkju og voru vandræði með leka og fúa um áratugabil. Einhverjar viðgerðir fóru fram á þessum tíma og árið 1880 voru gluggar lagfærðir, spónn lagður á kirkjuþakið, nýr turn með toppmynduðu þaki smíðaður og upp af honum stöng með vindhana úr látúni með mynd kirkjunnar og bókstöfunum A.C. 1880. Árið 1909 var timburkirkjan öll járnvarin. Á árunum 1984-1986 var hún endurgerð frá grunni í upphaflegri mynd, en uppdrætti að henni teiknaði Hörður Ágústsson listmálari. Hann kannaði innviði kirkjunnar og kom í ljós að undir seinni tíma klæðningum leyndust upprunaleg veggþil, gluggar, bekkir og ytra byrði sem gerði endurgerðina mögulega.

Búðakirkja er öll undir einu formi með turn á krossreistu þaki upp af vesturstafni. Hún er reist af bindingsverki, 9,23 m að lengd og 5,27 m að breidd og klædd slagþili og rennisúð. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli sem er yfirdreginn með múr. Hurðahringur úr rauðleitum kopar var í kirkjuhurðinni til ársins 1990 en brotnaði þá við átök. Eftir viðgerð á honum var hann ekki talinn þola átök á ný og því var nýr hringur steyptur nákvæmlega eftir þeim gamla og settur í hurðina en gamli hringurinn er nú á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 1992-14).

Budir-25-6-09-83

Hurðarhringurinn í Búðakirkju. Á framhlið er áletrunin: BENDT . LAURIDTSENS OG MARINAR JENS . DOTTUR FÖRÆR A° 1702. Á bakhlið: KIRKJAN ER ENDUR=REIST ÁR 1848 AN STYRKS ÞEIRRA ANDL=FEDRA. Bent Lauridtsen er ábúandi á Búðum árið 1703, 68 ára. Marín Jensdóttir kona hans er þá 61 árs og virðist Bent hafa verið síðari maður hennar.

Búðakirkjugarður er hlaðinn úr hraungrýti og stendur kirkjan nyrst í honum en stóð áður fyrr nokkru sunnar. Garðurinn sjálfur er sléttur en nokkur leiði eru upphlaðin eins og tíðkast í gömlum kirkjugörðum. Minnismerki í garðinum eru af ýmsum gerðum, og má þar helst nefna minnisvarða um Steinunni Sveinsdóttur er lét reisa Búðakirkju og eiginmann hennar, Guðmund Guðmundsson faktor. Þó virðast engin minnismerki vera eldri en frá 20. öld.

DJI_0190

Búðakirkja er með elstu timburkirkjum á Íslandi, byggð að stofni til á árunum 1847-1850 en endurbyggð 1984-1987. Höfundur gömlu kirkjunnar er óþekktur en nokkrar kirkjur voru byggðar í prófastsdæminu um miðja 19. öld og þrjár þeirra voru með turna. Þær voru Helgafellskirkja, Skarðskirkja og Bjarnarhafnarkirkja en sú síðasta er sú eina sem stendur enn. Forsmiður þeirra var Sigurður Sigurðsson (f. 1791) úr Grundarfirði en spurningunni um höfund/hönnuð að Búðakirkju verður þó sennilega seint svarað.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimild

Árni Björnsson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Þór Magnússon. 2010. „Búðakirkja“. Kirkjur Íslands. 15 bindi. Friðaðar kirkjur í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi I, bls. 51-83. Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Biskupsstofa, Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi. Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík.

22. desember - Búðarnes

Arni-Bodvarsson

Lituð ljósmynd, tekin um miðja 20. öldina. Ljósmyndari: Árni Böðvarsson. Mynd í einkaeigu.

Vestast í Stykkishólmsbæ er nes eitt sem áður var raun eyja, einungis landföst með rifi sem féll yfir á flæðinni. Seinna var fyllt upp í rifið og nærliggjandi fjöru og varð Búðarnes þannig landfast. Á Nesinu er að finna einu friðlýstu fornleifarnar í landi Stykkishólms: meintar búðarleifar tengdar verslunarstaðnum í Nesvogi. Minjarnar voru friðlýstar árið 1928 af Matthíasi Þórðarsyni. Byggði Matthías friðlýsinguna á lýsingu í grein eftir Þorleif Jóhannesson í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1925-26.

 

Í greininni fjallaði Þorleifur um stóra tóft í Búðarnesi, 16x5,7 m að stærð, með afar þykkjum veggjum og útbyggingu. Segist Þorleifur hafa grafið í tóftina og komið niður á harða gólfskán á u.þ.b. 40 cm dýpi. Hafi hann fundið þar m.a. leirkerjabrot og glerbrot. Dregur hann af rannsókninni þá ályktun að um verslunarbúð sé að ræða og friðlýsir Matthías tóftina á þeim grundvelli.

22des_1671702572450

Budarnes-fornleifateikning-GO-AOG

Teikning úr fornleifaskráningu frá 1985. Ágúst Ólafur Georgsson og Guðmundur Ólafsson.

Búðarnes er í landi Grunnasundsness. Örnefnið Búðarnes á bæði við nes við Nesvog, en einnig hjáleigu frá Grunnasundsnesi. Ekki eru til lýsingar á hjáleigunni og húsakosti hennar, en hún virðist fara í og úr ábúð í gegnum aldirnar og er t.a.m. í eyði við ritun Jarðabókarinnar við upphaf 18. aldar. Síðast er getið um ábúendur í Búðarnesi í manntalinu 1890. Hjáleigan hefur verið mjög landlítil og a.m.k. í lokin eingöngu þurrabúð. Sjáanlegar rústir á nesinu Búðarnesi í dag eru ekki margar, en gera má ráð fyrir að meiri minjar leynist undir sverði en þær sem sjást á yfirborði. Mikill, hlaðinn kartöflugarður setur mark sitt á svæðið en auk hans sjást greinilega stóra búðartóftin og minni rúst við Búðarnesvíkina, líklega naust. Kunnugir menn segja að kartöflugarðurinn afmarki nokkurn veginn gamla bæjarstæðið. Ræktaðar voru kartöflur í garðinum fram til 1960.

Horft-til-nordurs-naust-naest-a-myndinni-budartoft-fyrir-midju-og-kartoflugardur-efstur_1671703240652

Minjasvæðið í Búðarnesi; kartöflugarðurinn efstur, búðartóftin fyrir miðju og naust neðst á mynd. Horft til norðurs.

En Búðarnes er, eins og áður sagði, ekki síður þekkt sem líkleg staðsetning verslunarstaðarins við Nesvog á öldum áður. Í Búðarnesi er aðdjúpt og sæmileg lending fyrir haffær skip. Á miðöldum voru í Helgafellssveit tvær kauphafnir: Nesvogur á Þórsnesi og Kumbaravogur við Bjarnarhöfn. Þar sem klaustur var á Helgafelli má gera ráð fyrir talsverðum umsvifum í þessum kauphöfnum. Ekki er vitað hvenær verslun við Nesvog hófst. Árið 1596 var stofnað til nýrrar verslunarhafnar í Stykkishólmi í kjölfar deilna verslunarvelda Aldinborgara og Brimara. Hafði skipherra Aldinborgara í Nesvogi 1593 látist og nýttu Brimarmenn þá tækifærið, sölsuðu undir sig Nesvog og brenndu allar búðir Aldinborgargreifans sem fyrir voru. Liðu svo tvö ár og reyndu Aldinborgarmenn að fá yfirráð yfir Nesvogi enn á ný. Lét þá konungur Aldinborgurum Nesvog aftur í té, enda buðu þeir hærri leigu fyrir höfnina. Tóku þá Brimarar til sinna ráða og fengu konung til að selja sér leyfi á höfn er nefndist Stykkishólmur – fékkst það og varð Stykkishólmur því verslunarhöfn með einskonar klækjabragði Brimara. Reyndist Stykkishólmur svo, er upp var staðið, betri verslunarhöfn en Nesvogur og færðist verslunin hratt og örugglega úr Nesvogi til Stykkishólms og virðist öll verslun vera hætt í Nesvogi árið 1600.

Horft-til-sudurs-yfir-Budarnes-kartoflugardur-til-vinstri-budartoft-fyrir-midju-og-naust-til-haegri.-Horft-yfir-ad-Hjallatanga

Horft til suðurs yfir Búðarnes, kartöflugarður til vinstri, búðartóft fyrir miðju og naust til hægri. Horft yfir að Hjallatanga.

Gömul saga, sem höfð er hér eftir Jóhanni Rafnssyni, segir að í Leyni, sem er vík rétt austan við Búðarnes og Skipavík, hafi verið verslunarstaður huldufólksins á svæðinu. Sagt er að karl einn í Hólminum hafi ætíð getað sagt fyrir um komu vorskipsins viku fyrir komudag. Þegar á hann var gengið sagðist hann fylgjast vel með athöfnum huldufólksins og að vorskip þeirra kæmi í Leyni viku fyrr en skip kaupmannsins. Hefur þeirri kenningu verið varpað fram að huldufólkssagan geymi minni um elstu staðsetningu kaupstaðarins og að hann hafi verið á svæðinu sem afmarkast af Leyni og Skipavík en síðan flust í Búðarnes þegar skipin stækkuðu.

Saga Búðarness og nærumhverfis þess er að sumu leyti óskrifað blað. Undirlendið á Búðarnesi er sáralítið og þótt gert sé ráð fyrir að eitthvað hafi brotnað af því, t.a.m. við Búðarnesvíkina, þá verður að segjast að erfitt er að ímynda sér búskap á staðnum – hvað þá umsvifamikla verslun. Gera verður ráð fyrir að mannvirki og umsvif verslunarstaðarins hafi dreifst úr Búðarnesinu og yfir á nærliggjandi svæði, t.a.m. þar sem nú stendur skipasmíðastöðin Skipavík, mögulega út að Leyni, út á það svæði sem síðar fór undir hjáleiguna Viðvík, og jafnvel yfir á Hjallatanga. Þótt svæðið sé nú að hluta til mikið raskað vegna seinni tíma framkvæmda má gera ráð fyrir að hægt væri að auka skilning á búsetu á svæðinu og verslun við Nesvog með fornleifarannsóknum.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Ágúst Ólafur Georgsson. 1987 (endurútg. 2005). Fornleifaskráning í Stykkishólmi. Rannsóknaskýrslur Fornleifadeildar 1985. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík.

Ágúst Ólafur Georgsson. 1990. Skrá um friðlýstar fornleifar. Fornleifanefnd: Reykjavík.

Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1982. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. 5. bindi: Hnappadals- og Snæfellssýsla. Hið íslenska fræðafjelag: Kaupmannahöfn.

Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Ásgeirsson. 1992. Saga Stykkishólms 1. bindi: Kauphöfn og verslunarstaður 1596-1845. Stykkishólmsbær: Stykkishólmur.

Manntal 1890. Manntalsvefurinn: Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands

Sigurður Ágústsson. 1962. „Upphaf verzlunar í Stykkishólmi“. Breiðfirðingur 20.-21. ár. 1961-1962, bls. 32-45.

Þorleifur Jóhannesson. 1926. „Um nokkur eyðibýli og sögustaði í Helgafellssveit“. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1925-26, bls. 43-48. Hið íslenzka fornleifafélag: Reykjavík.

Ægir Breiðfjörð Jóhannsson. 2021. „Huldufólkskaupstaðurinn í Stykkishólmi“. Pistill á Facebook-síðunni Hitt og þetta úr Hólminum.

21. desember - Skálar og Camp Greely

Horft-nidur-ad-hafnarsvaedinu-a-Skalum-thegar-keyrt-er-ad

Á Langanesi er að finna minjar útgerðarþorps sem blómstraði þar á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. Þorpið heitir Skálar og bjuggu þar um 120 manns þegar mest var árið 1920, en þorpið var löggilt sem verslunarstaður árið 1912. Jarðarinnar Skála er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá um 1270. Á Skálum var svo reist annað frystihús landsins árið 1923 og má þar enn finna ummerki þess, meðal annars spor eftir sporvagn sem var notaður til þess að færa fisk frá bryggju upp að frystihúsi. Lítið var um innviði á Skálum aðra en fiskvinnslu og var þar hvorki læknir né prestur. Þorpið fór svo í eyði um miðja 20. öld.

Íslendingar voru hins vegar ekki þeir einu sem höfðu viðveru á þessum stað. Rétt norðanaustan við gamla þorpið er að finna braggahverfi frá seinni heimsstyrjöldinni. Bandarískt herlið settist að umhverfis ratsjárstöð sem reist var á Langanesi árið 1942. Hverfið fékk heitið Camp Greely og var staðsetning þess engin tilviljun, en frá Langanesi var einstaklega gott að fylgjast með hreyfingum óvina út af Norðausturlandi. Uppbyggingu á Camp Greely fylgdu töluverðar breytingar fyrir heimamenn á svæðinu, herliðið bætti samgöngu innviði og byggði m.a. bíó sem íbúar fengu einnig afnot af. Samskipti milli herliðsins og heimamanna voru almennt talin góð.

21des_1671621952261

Árið 2018 hlaut Fornleifastofnun Íslands ses. styrk úr fornminjasjóði til að vinna að verkefninu Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar og var Camp Greely skráð sem hluti af því verkefni sama ár. Þar voru skráðar í heildina 67 minjar af ýmsu tagi, t.d. grunnar íbúðarbragga, brennsluofn, skotgrafir, byssuhreiður og vegir svo eitthvað sé nefnt. Ástand minjanna í Camp Greely var almennt talið frekar gott, þótt eitthvað sé um uppblástur á svæðinu. Þó svo að Camp Greely hafi verið rannsóknarefnið í þessu verkefni hefur jörðin Skálar ekki verið skráð með nútíma tækni en starfsmenn Minjastofnunar Íslands heimsóttu Skála ásamt fulltrúa landeigenda árið 2018 m.a. til að skoða umfang minja á svæðinu.

NTh128_113_FSI

Braggagrunnur með járntanki sem var notaður fyrir vatn. Hér var líklega samkomustaður hermanna í Camp Greely. Ljósmynd: Fornleifastofnun Íslands ses.
„Braggaþyrpingin (NÞ-128:113) virðist hafa samanstaðið af þremur bröggum fremur en fjórum. Heillegastur var langur (um 26 m) braggagrunnur allra austast sem er með umfangsmiklum steyptum stólpum eftir báðum veggjum og hefur þar án efa verið timburgólf. Austan hans var svo steypt gólfplata og á henni stór járntankur sem notaður var fyrir vatn að sögn Guðbjargar Guðmundsdóttur heimildamanns.“[1]

Seinni heimsstyrjöldinni fylgdi ekki aðeins uppbygging á Skálum heldur hafði hún einnig áhrif á endalok byggðarinnar. Varnir bandamanna við árásum frá sjó gerðu það að verkum að svæðið kringum Skálar varð enn hættulegra en áður, en lending hafði þar lengi verið talin erfið. Herliðið yfirgaf Camp Greely undir lok stríðs. Nokkru áður, sumarið 1942, höfðu fjórar fjölskyldur flust burt eftir að tvö tundurdufl sprungu í fjörunni fyrir neðan byggðina og löskuðu þar bæði hús og önnur mannvirki. Sumarið 1946 hélt svo restin af fólkinu á brott, alls um 25 manns. Þá stóðu aðeins eftir þau Lúðvík og Jóhanna Hansen sem voru síðustu ábúendur á Skálum. Þau héldu út búskap þar til vorsins 1955. Eftir að Hansen hjónin sögðu skilið við Skála lagðist byggðin endanlega í eyði og hefur ekki verið búseta þar síðan.

Tekid-ofan-af-baejarhol-Gomlu-Skala

Horft af bæjarhól gömlu Skála.

Herminjar teljast ekki til fornleifa samkvæmt skilgreiningu laganna og hafa því gjarnan orðið útundan þegar kemur að skráningu og rannsóknum á minjastöðum. Herminjar eru þó mjög mikilvægur minjaflokkur því þær eru vitnisburður um afdrifaríkt tímabil í sögu Íslands og heimsins alls. Því ákvað Minjastofnun Íslands að styrkja sérstaklega skráningu herminja, árið 2018, með úthlutun úr fornminjasjóði. Sama ár var einnig úthlutað úr Húsafriðunarsjóði fyrir verkefninu: Könnun og skráning herminja í nágrenni Keflavíkurflugvallar.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Skálar, Langanesbyggð (https://www.langanesbyggd.is/upplysingar/skalar-1)

Skálar á Langanesi, upplýsingabæklingur. Merkar minjar horfinna tíma / Curious remains of times past. Langanesbyggð

Elín Ósk Hreiðarsdóttir (Ritstj.) 2019. Fornleifaskráning í Camp Greely, Skálum á Langanesi. FS729-18071. Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands ses.


[1] Elín Ósk Hreiðarsdóttir (Ritstj.). 2019, bls. 144.

20. desember - Heydalir

Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja' hann ei sem bæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri

Á sléttu suður undir Felli standa Heydalir, jörð sem talin er vera landnámsjörð og er í dag kirkjustaður og prestssetur Breiðdælinga. Heydalir eru líkast upprunalegt nafn staðarins en nafnmyndin Eydalir kemur einnig fram í frumbréfum á síðari hluta 16. aldar og verður síðan algengara. Í Landnámu og Njálu er nafn staðarins hins vegar Heydalir og í Landnámu segir: „Herjólfr, bróðir Brynjólfs, nam Heydalalönd fyrir neðan Tinnudalsá ok Ormsár.“ Í Njálu segir að Hallbjörn sterki hafi búið í Heydölum þegar fjallað var um för Flosa um Austfirði. Í dag er opinbert nafn staðarins Heydalir.

Af heimildum að dæma hefur byggð risið snemma í Heydölum og er fyrsta prests staðarins, sr. Ásgríms Sigurðssonar, getið í heimildum frá 14. öld. Prestssetrið var lengi talið með betri brauðum á Íslandi og þar hafa setið margir vel metnir prestar. Einn þeirra var sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626) sem þekktur er fyrir jólasálminn „Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði“. Flest þekkjum við í dag sálminn sem „Nóttin var sú ágæt ein“ og laglínu Sigvalda Kaldalóns við kvæðið frá 1941.

20des_1671541721087

 

Talið er að kirkja hafi staðið í Heydölum frá fyrstu tíð kristni í landinu. Elsti varðveitti máldagi kirkjunnar er frá 1367 og í honum segir að Heydalakirkja eigi, auk heimalands, „… milli Tinnu og Ormsár (nú Ormsstaðaá) Breiðdalseyjarnar út frá Ósi og Streitislandi, selför í Norðurárdal, skóg hjá Skriðuvatni í Skriðdal og víðar, Brekku (nú Brekkuborg) hálfa, Streiti, Vafrastaði, drjúgan skerf reka fyrir Breiðdalslöndum og auk þess tíundir, lýsitolla og bónhúsfé (bænhúsfé)“.

Heydalakirkja-Rudinger

Heydalakirkja. Ljósmynd: Rüdiger Þór Seidenfaden, 2012.

Kirkjan sem nú stendur í Heydölum var vígð árið 1975 og var þá gamla kirkjan aflögð. Hafði gamla kirkjan verið reist árið 1856 og samkvæmt fasteignamati 1916-1918 var hún fornt timburhús með turni, máluð að innan en járnklædd að utan á síðari árum. Hún brann síðan árið 1982. Nýja kirkjan stendur um 10-15 m norðan við eldri kirkjuna og hefur kirkjugarðsveggurinn verið færður til norðurs og austurs. Norðurhlið kirkjugarðsveggjarins er í dag þar sem gamla bæjarstæðið var. Á Íslandi er algengt að kirkjur og kirkjugarðar séu byggð á gömlum bæjarhólum.

Skjaskot-ur-skyrslu-sagnabrunns_1671544188240

 

 
 
 
Gamli Heydalabærinn, uppdráttur úr Breiðdælu, bls. 32-33. 1. Stétt, 2. Bæjardyr, 3. Stofa, 4. Frúarhús, 5, Dúnkofi, 6. Göng, 7. Þinghús, 8. Piltahús, 9. Eldhús, 10. Búr, 11. Skemma, 12. Eldhúsbali (glímuvöllur), 13. Smiðja, 14. Hesthús, 15. Hestarétt, 16. Traðir, 17. Vindmylla, 18. Túngarður, 19. Heygarður, 20. Fjós, 21. Kirkjugarður, 22. Kirkja.

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda árið 2015 við nýja byggingu, Einarsstofu við Heydalakirkju, fór Minjastofnun Íslands fram á fornleifarannsókn á staðnum. Engar minjar voru þó greinilegar á yfirborði enda hefur gamla túnið í Heydölum verið sléttað. Ýmislegt kom þó í ljós þegar skyggnst var undir yfirborðið og m.a. fundust brunarústir, sennilega úr gömlu kirkjunni sem brann árið 1982. Einnig fundust torfveggir sem hafa tilheyrt gamla Heydalabænum og leifar af mögulegum kirkjugarðsvegg sem hlaðinn var eftir 1362. Það er því ljóst að þrátt fyrir túnasléttun og framkvæmdir í tengslum við byggingu á kirkjunni virðist heilmikið af minjum hafa varðveist undir sverði í Heydölum sem varpað geta ljósi á sögu staðarins.

Loftmynd-1970-1970-B20-B-5625-qv

Loftmynd af Heydölum, 1970.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Anna Rut Guðmundsdóttir, Bryndís Zoëga og Guðný Zoëga. 2004. Fornleifaskráning vegna aðalskipulags Breiðdalshrepps. Þverhamar/Heydalir/Jórvík. Byggðasafn Skagfirðinga: Sauðárkrókur.

„Heydalir (Eydalir)“. Visit Austurland: https://www.east.is/is/stadur/heydalir-eydalir

Einar Sigurbjörnsson. 2011. „Nóttin var sú ágæt ein“. Kirkjan: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/grein/?itemid=18b2ddc3-2a11-ea11-810a-005056bc594d

Lilja Björk Pálsdóttir. 2015. Heydalakirkja. Könnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Fornleifastofnun Íslands ses.: Reykjavík.

Rannveig Þórhallsdóttir. 2022. Fornleifaskráning á há- og lágspennustrengjum í Breiðdal, Fjarðabyggð. Sagnabrunnur: Seyðisfjörður.

Túnakort 1919.

19. desember - Hraunþúfuklaustur

Gangnamannakofi-og-staersta-gamla-toftin

Loftmynd tekin með flygildi í skráningarferð Minjastofnunar Íslands 2017. Tóftir gangnamannakofa lengst til vinstri en skálatóft til hægri.

Forn byggð í Vestur- og Austurdal í Skagafirði hefur lengi vakið áhuga leikra og lærðra. Þetta er eitthvert afskekktasta svæði Skagafjarðar, en dalirnir hafa að geyma syðstu byggð héraðsins og teygja sig langt inn á hálendið með fjölda smærri afdala. Þarna var byggð á allmörgum bæjum fram á 19. öld, en þeim fór fækkandi eftir því sem leið á þá tuttugustu. Í dag eru aðeins tveir bæir í byggð sem teljast til Austurdals en enginn bær lengur í byggð í Vesturdal. Í dölunum báðum er víða að finna tóftir og leifar eldri bæjarstæða, nöfn og staðsetning hluta þessara byggðaleifa hefur verið þekkt um aldir en þegar fyrst var fjallað um þessar byggðir á prenti í Jarðabókinni frá 1713 voru auk þess á reiki munnmæli um enn fleiri býli og þekkt nöfn bæja sem enginn vissi lengur hvar hefðu staðið. Óvissa um sögu þessarar byggðar og sagnir um nær ótrúlegan fjölda bæja hefur vakið forvitni og sveipað byggðina ákveðinni dulúð, en í Vesturdal eru þekkt 25 bæjarnöfn og í Austurdal eru bæjarnöfnin 30, sum þeirra virðast þó eiga við um sama staðinn.

Hvað mestan áhuga hafa þó vakið minjarnar á Hraunþúfuklaustri í Vesturdal. Þetta er fremsta byggð í Skagafirði, í 430 m hæð yfir sjávarmáli og 80 km frá sjó, en um 20 km norður af Hofsjökli. Klausturnafnið hefur vakið upp margar spurningar um eðli þessara mannvistarleifa. Við það bætast sagnir um jarðfundna kirkjugripi, þjóðsaga um faldan fjársjóð og fleira sem kveikt getur á ímyndunarafli manna. Örnefnið Hólófernishöfði skammt frá rústunum hefur síst verið til að draga úr því. En Hólófernis var yfirherforingi Nebúkadnesar Assýríukonungs sem getið er um í Biblíunni og hefur tæpast verið á margra vörum.

19des_1671452807449

Fræðimenn hafa út frá þessu sett fram ýmsar tilgátur um tilurð þessara örnefna, allt frá því að þarna hafi verið klaustur grísk-kaþólskra Basilíumunka eða að aðrir latínulærðir menn hafi gefið staðnum nafn út frá landslagi, yfir í öllu jarðbundnari hugmyndir um að glettnir gangnamenn hafi gefið staðnum klausturnafnið þegar þeir hafi legið þar í vosbúð og kvenmannsleysi.

IMG_2879-gangnamannkofi-og-adal-toftin-i-bakgrunni

Tóft gangnamannakofa sem reistur var 1912 og notaður fram undir 1960. Áður gistu gangnamenn í einum af þremur hellum sem finna má í klettunum ofan við minjasvæðið á Hraunþúfuklaustri. Í baksýn sjást starfsmenn Minjastofnunar við skráningu á skálatóft.

Í 3. bindi Byggðasögu Skagafjarðar er að finna eitthvert heildstæðasta yfirlitið yfir sagnir og vangaveltur manna um staðinn ásamt niðurstöðum rannsókna sem þar hafa verið gerðar. Fyrstur fræðimanna til að rannsaka staðinn var Daniel Bruun sem kom þangað laust fyrir aldamótin 1900 og gerði uppdrætti og lýsingar á staðnum en gróf þó ekki. Það gerði Sigurður Þórarinsson fyrstur árið 1970 og gróf þá könnunarholu í stærstu tóftina sem Bruun taldi geta verið af kirkju. Þremur árum síðar kom hann þangað aftur ásamt þjóðminjaverði og var sama tóft þá könnuð nánar. Í henni fannst þá gólfskán og eldstæði sem bendir til að um vistarverur manna af einhverju tagi sé að ræða en ekki kirkju og bentu gjóskulög til að byggingin hafi farið í eyði um eða fyrir 1104.

Guðrún Sveinbjarnardóttir mældi upp minjar á staðnum árið 1983 og gerði könnunarholur í nokkrar tóftir til viðbótar sem studdu fyrri niðurstöðu um endalok byggðar um eða fyrir 1104, en við bættist aldursgreining á kolum úr einni tóftanna sem gaf aldurinn 870 eða 900 +/- 100 ár. Á uppdrætti Guðrúnar sést áðurnefnd tóft nr. 1 og líkist helst skála af víkingaaldargerð.

Sumarið 1986 gróf Þór Magnússon þjóðminjavörður ásamt fleirum í megintóftina og fann m.a. brot úr klébergspotti, brýnisbrot og járndoppu með bronshúð. Taldi hann víst að um skála væri að ræða, þótt ekki væri unnt að fá glögga heildarmynd af húsinu.

 
 
Uppdráttur Guðrúnar Sveinbjarnardóttur af minjum á Hraunþúfuklaustri. Aðaltóftin sem mest hefur verið rannsökuð er nr. 1, en tóft nr. 9 er af gangnamannakofa sem byggður var 1912.

 

Teikning-Gudrunar-Sveinbjarnardottur

Minjarnar á Hraunþúfuklaustri voru friðlýstar ásamt fleiri fornum bæjarleifum í Vesturdal af Matthíasi Þórðarsyni árið 1926.

Út frá rannsóknum og skráningu á vettvangi þá bendir allt til að um sé að ræða bæjarstæði frá víkingaöld með tilheyrandi byggingum en ekki klaustur, líkt og heiti staðarins bendir til. Hugmyndir um að glettnir gangnamenn hafi nefnt staðinn Hraunþúfuklaustur þykja því líklegar.

Adal-toftin

Loftmynd tekin með dróna í skráningarferð Minjastofnunar Íslands 2017 af skálatóftinni á Hraunþúfuklaustri. Starfsmenn MÍ við skráningu á jörðu niðri.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Byggðasaga Skagafjarðar 3. .indi. 2004. Hjalti Pálsson (ritstj.). Sögufélag Skagfirðinga: Sauðárkrókur.

Daniel Bruun. 1898. „Nokkurar eyðibygðir: í Árnessýslu, Skagafjarðardölum og Bárðardal“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, bls. 47-77.

Daniel Bruun. 1928. Fortidsminder og nutidshjem på Island. Gyldendal: Kaupmannahöfn.

„Fornleifar benda til dæmigerðs sögualdarbæjar“. Morgunblaðið. 31. júlí 1986.

Guðrún Sveinbjarnardóttir. 1992. Farm abandonment in medieval and post-medieval Iceland: an interdisciplinary study. Oxbow books: Oxford.

Kristján Eldjárn .1973. „Punktar um Hraunþúfuklaustur“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1973, bls. 107-133.

Margeir Jónsson. 1932. „Hraunþúfuklaustur“. Blanda IV, bls. 181.

Selma Jónsdóttir. 1973. „Hverjir byggðu Hraunþúfuklaustur?“. Morgunblaðið. 12. ágúst 1973.

18. desember - Breiðavíkurver

Breidavikurverstod-Fridlystar-minjar-a-leid-i-sjo

Í Breiðavík á Vestfjörðum er að finna merkan minjastað er nefnist Breiðavíkurver. Þar er að finna tugi fornleifa; byggingar og mannvirki sem tengjast útræði á staðnum, s.s. verbúðir, fiskgarðar, uppsátur, naust, lendingarmerki, spil, saltfiskverkunarhús, varir og fiskreitir. Alls ná minjarnar yfir svæði sem er um 6-700 m langt og allt að 70 m breitt. Haf og vindar hafa þó leikið verstöðina grátt í gegnum aldirnar og ljóst er að fjöldi verbúða og annarra mannvirkja er nú horfin. Breiðavíkurver er ein af fjölmörgum verstöðvum við strandlínu landsins sem eru í stórhættu vegna sjávarrofs og er því þekking um þetta helsta lífsviðurværi Íslendinga að hverfa í sjó fram.

Verstodvar-BW

Í Jarðabókinni frá 1703 segir að á vorin hafi ábúendur í Breiðavík legið þar við þrjár verbúðir en aðtökuskip nýtt þá fjórðu, sem byggð var árið 1702. Lending skipa er þá sögð góð á staðnum. Síðar bættust við fleiri verbúðir og geymsluhús meðal annarra mannvirkja. Byggingarefnið sem notað var endurspeglar efnisnotkun hvers tíma; torf, grjót og steypu. Margar búðanna eru kenndar við nafngreinda menn og þótt þær séu ekki tímasettar nákvæmlega má ætla að meirihluti sýnilegra rústa á svæðinu sé frá lokum 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Minjarnar voru friðlýstar árið 1971 sem merkar sjávarútvegsminjar og njóta þar með hæstu verndar skv. lögum.

18des_1671197175685

Í verstöðvum var ýmislegt brallað; verk unnin er tengdust sjómennsku og útgerð, s.s. gert að fiski, netum, bátum og seglum. Þar styttu menn sér þó einnig stundir við ýmis konar dægradvöl og hafa gripir því tengdir, t.a.m. taflmenn, fundist við fornleifarannsóknir á öðrum verstöðvum, t.d. Gufuskálum á Snæfellsnesi og Siglunesi við Siglufjörð.

Langabud-Large-

Árin 2012 og 2015 fóru fram fornleifarannsóknir í Breiðavíkurveri á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum en þær voru hluti af stærri þverfaglegri rannsókn, Cod Story. Markmið rannsóknarinnar er að tengja saman náttúrufars- og mannfræðilega þætti til að skilja betur náttúrulegar sveiflur og gagnkvæm áhrif manna og dýrastofna á norðurslóðum. Niðurstöður rannsóknanna sýna m.a. að mest var um útræði í verstöðinni á tímabilinu 1400-1700 en eftir það hnignar útgerð frá Breiðavík. Í upphafi útgerðar var aðaláhersla á þorskveiðar og þorskurinn fluttur út en aðrar tegundir voru þó veiddar, s.s. steinbítur, ýsa, lúða og karfi. Líklegast hafa þessar tegundir verið nýttar af vermönnum auk þess sem aflinn hefur verið seldur á bæi í nágrenninu. Þorskafli fór svo dvínandi undir lok miðalda og er það í samræmi við niðurstöður rannsókna á öðrum verstöðvum frá sama tíma. Steinbítsveiðar aukast þegar líður á búsetu á staðnum og í lok 19. aldar er steinbítsafli orðinn meiri en þorskafli.

2016-Breidavikurver-GSS-26-

Út frá rituðum heimildum að dæma er ljóst að verstöð var starfandi í Breiðavík við upphaf 18. aldar en fornleifarannsóknir á staðnum benda til að útræði hafi hafist þar töluvert fyrr, eða a.m.k. á miðöldum.

Myndband af Breiðavíkurveri 

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Birna Lárusdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir Beck. 2016. Fornleifaskráning á þremur jörðum í rauðasandshreppi. Hvallátrar, Breiðavík og Keflavík. FS624-13051. Fornleifastofnun Íslands ses., Reykjavík. Vefútgáfa: Fornleifaskráning á þremur jörðum í Rauðasandshreppi. Hvallátrar, Breiðavík og Keflavík. FS624-13051 (minjastofnun.is)

Guðmundur Ólafsson. 1995. Fornleifaskráning í Sauðasandshreppi. Vesturbyggð. V- Barðastrandarsýslu. 20. -26. ágúst 1994. Rannsóknarskýrslur fornleifadeildar 1994. Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík. Vefútgáfa: Fornleifaskráning í Rauðasandshreppi, Vesturbyggð. 20.-26. ágúst 1994 (minjastofnun.is)

Ragnar Edvardsson. 2013. Fornleifarannsókn í Breiðavík og Kollsvík í Vesturbyggð. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Ragnar Edvardsson. 2016. Fornleifarannsókn í Breiðavík 2015. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

17. desember - Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiði

Gamla-leidin-2

Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur Hellisheiði verið einn af fjölförnustu fjallvegum á Íslandi. Elsta gatan yfir heiðina blasir við af Hringveginum þar sem hann liggur yfir Hellisheiðina en fáir munu þó þekkja gömlu leiðina af raun. Víða á heiðinni sjást djúpar götur markaðar ofan í stálharða klöppina, þær dýpstu allt að ökkla djúpar, sem sýna hversu fjölfarin heiðin hefur verið.

Sumir hafa talið að nafn Hellisheiðar sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli. Þar er að finna miklar sléttar hellur og nafnið því dregið af kvenkynsorðinu 'hella'. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera „Helluheiði” eða „Hellnaheiði” en síðan breyst í Hellisheiði. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni.

17des_1671182774308

Efst uppi á heiðinni, rétt norðan við gömlu leiðina, er Hellukofinn, gamla sæluhúsið á heiðinni. Kofinn er til að sjá eins og kúptur, stór steinn. Hellukofinn var gerður á árunum milli 1830 og 1840 og stendur skammt frá þeim stað er svokölluð Biskupsvarða stóð. Var grjótið úr vörðunni notað í kofann. Þórður Erlendsson, síðasti bóndi á Tannastöðum (d. 1872) í Ölfusi, hlóð kofann og ber hann meistara sínum fagurt vitni. Kofinn er ferhyrndur að lögun, 1.85 m á hvern veg og hæðin upp í mæni um 2 m. Hann er einvörðungu byggður úr hraunhellum. Eftir að fullri veggjarhæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið. Efst er stór hraunhella sem lokar opinu. Dyrnar eru um 60 cm á breidd og 1 m á hæð. Til að þétta veggina var mosa troðið í glufurnar. Kofinn veitti oft hröktum mönnum skjól og til er rituð frásögn er greinir frá því að veturinn 1884 hafi gist þar sex ferðamenn nótt eina í hríðarbyl. Er tekið fram að þeim hafi liðið ágætlega.

Hellukofinn

Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti minjarnar árið 1971. Á friðlýsingarskjalinu stendur: „Gamla sæluhúsið, „Hellukofinn“ svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestan til við miðja heiði. [(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu“.

Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegu rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Gamla-leidin-1

Gamla-leidin

Gamli vegurinn yfir Hellisheiði og sambærilegar götur annars staðar á landinu eru einstakar minjar. Gatan er afrakstur umferðar manna og dýra yfir heiðina frá upphafi byggðar í landinu. Hægt er að fullyrða að fulltrúar allra kynslóða Íslendinga sem lifað hafa í landinu hafi komið að mótun götunnar. Gamli vegurinn yfir Hellisheiði er mannvirki sem á sér upphaf þegar fyrstu kynslóðir landnámsmanna og -kvenna lögðu leið sína yfir heiðina og enn mótar t.d. útivistarfólk veginn á göngu sinni yfir heiðina. Gatan er því ekki einungis slóð í klöppinni yfir Hellisheiðina heldur einnig þráður sem tengir saman kynslóðirnar.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

[Án höfundar]. „Gamla gatan yfir Hellisheiði“. Morgunblaðið 26. júní 1980, bls. 22.

Ágúst Ólafur Georgsson. 1990. Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Fornleifanefnd: Reykjavík.

Skúli Helgason. 1959. Saga Kolviðarhóls. Prentsmiðja Suðurlands: Selfoss.

Svavar Sigmundsson. 2004. „Hvers vegna heitir Hellisheiði þessu nafni“. Vísindavefur Háskóla Íslands: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4308

Þorsteinn Bjarnasonar. 1936. „Saga Kolviðarhóls“. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. Sögurit XVII, bls. 362-170.

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti. Afréttur Ölfushrepps. Örnefnaskrá. Örnefnastofnun: Reykjavík.

16. desember - Hofgarðar í Bárðardal

Hofgardar-Bardardal

Hofgarðar í Bárðadal er eitt af áhugaverðustu og innstu þekktu eyðibýlum landsins. Staðsetning þess sýnir að landnámið náði miklu lengra inn til landsins en áður var talið, en byggð þar lagðist í eyði á 11. öld. Af þeim sökum friðlýsti þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, „Leifar hins forna eyðibýlis Hofgarða, við suðurenda Íshólsvatns, austanmegin.“, þann 25. október 1930. Staðurinn hefur vakið athygli margra í gegnum tíðina og til eru nokkrar heimildir um athuganir á honum.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712 stendur: „Horngardur eður Hofgardur heitir fornt eyðiból hjer skamt fyrir framan, þar eru mikil garðlög og margar rústir, og atla menn, að þetta hafi stór jörð verið. Ekki má hjer aftur byggja, því túnið er allt víði vaxið.“[1] Höfundum Jarðabókarinnar hefur þótt umfang minjanna árið 1712 benda til þess að þarna hafi verið stundaður töluverður búskapur fyrr á öldum.

16des_1671187039077

Daníel Bruun kannaði eyðibýli í Bárðardal í ágústmánuði 1897. Hann vildi meina að flest eyðibýlin þar hefðu farið í eyði fyrir ómunatíð, en hann lýsir Hofgörðum á eftirfarandi hátt: „Hofgarður (XXI. tafla) stendur fyrir austan Rangá og gegnt Íshóli. Þar sjást miklar tóftir og margar.

Bruun-Hofgardar

Rústir bæjarins að Hofgörðum Bárðardal (Króksdal). 1, 2, 3, 6 og 7) peningshús o.fl., 4) svonefnt hoftótt, 5) bæjarhús, 8) rétt, 9) a, b, c, d, e girðingar, 10) túngarður, 11) garður, 12) túngarður, gamall (?).
  1. Lítil (6 x 8 skref) og fremur óglögg tóft, er sýnist vera tvískift.
  2. Mjög lítil og óglögg tóft.
  3. Löng tóft og mjó, 13 x 4 skref.
  4. Tóft með þvervegg nær vesturenda og dyr á við nyrðri hliðvegg (16 x 8 skref). Ef hér hefir hof verið, þá er þessi tóft líklegust til að vera af hofinu, en engin hinna.
  5. Bærinn. Tvísett tóft (118 x 7 x 6 skref); í neðri tóftinni, þeirri er veit að ánni, er þverveggur nær norðurenda; efri tóftin er óglögg.
  6. Lítil tóft, 10 x 6 skref.
  7. Tóft, sem er 17 skref að lengd; við efri enda hennar er önnur tóft um þvert, nær jafnlöng hinni, og enn önnur minni þar innan í; þar hefir verið heygarður eða hlaða.
  8. Stór og mikil tóft, 37 skref að lengd og 12 að breidd, og önnur lítil 6 x 6 skref, við suðurhlið hennar, í norðausturhorni stóru tóftarinnar er lítil kró.
  9. a-e og 10-12. Girðingar í túninu og túngarðar.“ [2]

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur rannsakaði staðinn að hluta til í ágúst 1972. Hann átti auðvelt með að átta sig á minjunum eftir uppdrætti Daniels Bruun. Hann gróf holu í tóft nr. 5 og mældi auk þess jarðvegssnið í brekkunni upp af bænum til samanburðar. Einna merkilegast við þessa könnun er að hann fann gjósku úr Heklugosi frá árinu 1104 (H1104), ofan á mannvistarleifum og „sýnir það, svo eigi verður um villst, að hér hefur verið búið á 11. öld, og það alllöngu fyrir 1104. En sniðið uppi í brekkunni sýnir, að uppblástur hefur verið kominn í fullan gang þarna um 1100.“[3]

Árið 2016 er gerð fornleifaskráning í Bárðardal og lýsir Orri Vésteinsson fornleifafræðingur staðháttum á eftirfarandi hátt:

„Bæjarstæðið er á sléttum árbakka ofan við mjög bugðótta á. Suðvestan við er lægra nes til vesturs sem virðist hafa blásið upp og gróið aftur. Suðaustan við er Hofgarðamýri og nær hún alveg norður að túngarðinum, allmikill mýrarfláki neðst í brekkunni, sá nyrðri af tveimur austanmegin í dalnum. Túnið liggur upp í lyngmóabrekkuna neðst ener annars mest á sle‘ttu. Brekkan ofan við er gróin 60-80 m beint ofan við bæjarstæðið en blásin þar fyrir ofan og neðar til beggja handa. Túnið er vaxið kjarri - víði og fjalldrapa - allþéttu á köflum og er samskonar gróðurfar í kring, einkum til norðurs. Innan túnsins eru lindarpollar á amk tveimur stöðum og rennur úr þeim í læk sem bugðast eftir endilöngu túninu til norðurs. Lágt rofabarð er ofan við þar sem Rangá gengur lengst til austurs og gæti hafa tekið af tóft 03.“[4]

Hofgardar-uppmaeling-edit

Úr skráningaskýrslunni 2016. Minjar á Hofgörðum. Kortagerð: Gísli Pálsson.

Niðurstaða skráningarinnar er að allar tóftirnar sem Bruun teiknaði sjást enn vel og þótt fleiri gætu leynst í þykku kjarrinu bættust engar ótvíræðar minjar við þegar staðurinn var skráður og mældur upp 2016. Einnig er talið óhætt að bæta Hofgörðum, Íshóli, Mjóadal og Hólkoti við skrána um býli sem voru í byggð í Bárðardal á 10. og 11. öld.[5]

En Sigurður Þórarinsson taldi að eftirfarandi lærdóm mætti draga af bráðabirgðaathugunum sínum á eyðibýlum: „Svo virðist sem byggð hafi allvíða snemma, eða á tíundu öld og sumstaðar jafnvel þegar á landnámsöld náð að teygja sig lengra inn í landið en hún hefur nokkru sinni síðar gert, þótt útbreiðslan nálgist víða að verða hin sama, er nálgast miðbik 19. aldar.“[6]

Hofgardur-SB

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1943. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, 11. Bindi. Hið íslenska fræðafjelag: Kaupmannahöfn.

Bruun, Daniel. 1898. „Gennem affolkede bygder pa Islands indre höjland“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. Fylgirit. 13. árg. Reykjavík,bls. 3-27.

Bruun, Daniel. 1987. Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Fyrra bindi. Örn & Örlygur: Reykjavík.

Brynjúlfur Jónsson. 1906. „Rannsókn í Norðurlandi sumarið 1905“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 21. árg. Reykjavík,bls. 3-27.

Orri Vésteinsson. 2016. Fornleifar fremst á Bárðardal vestanmegin: Mýri, Mjóidalur, Íshóll og Litlatunga. FS630-04193. Fornleifastofnun Íslands: Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1976. „Gjóskulög og gamlar rústir“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 73. árg. Reykjavík, bls. 5-38.


[1] Árni Magnússon 1943, 144

[2] Bruun, Daniel 1987, 241

[3] Sigurður Þórarinsson 1976, 19-20

[4] Orri Vésteinsson 2016, 85

[5] Orri Vésteinsson 2016, 89

[6] Sigurður Þórarinsson 1976, 35-36

15. desember - Papós

Papos-loftmynd-betri

Stór hluti fornleifa á Íslandi er enn óskráður eða hefur ekki verið mældur upp og áætlað er að enn sé eftir að skrá um 65-70 prósent fornleifa. Einn þessara óskráðu staða er verslunarstaðurinn Papós í Papafirði í Lóni.

Áður en Papós kom til sögunnar var enginn verslunarstaður allt frá Eyrarbakka í vestri að Djúpavogi í austri og þurftu bændur, sérstaklega í Skaftafellssýslu, að fara langa og erfiða leið í kaupstað. Árið 1848 komu allir prestar og prófastar Skaftafellssýslu saman til að ræða um leiðir til úrbóta í verslunarmálum sýslunnar og í framhaldi var bænarskrá undirrituð af 150 íbúum og afhent Alþingi með ósk um löggildingu verslunarstaðar á Papósi eða Hornafjarðarósi. Þeirri bænarskrá var hafnað. Lítið gerðist í verslunarmálum fyrr en árið 1861 þegar þingmaður Austur-Skaftafellssýslu lagði fram frumvarp til Alþingis um löggildingu verslunarstaðar á Papósi. Frumvarpið var að þessu sinni samþykkt og sent til konungs. Papós varð löggiltur verslunarstaður með konungsbréfi þann 19. janúar 1863 og risu fyrstu verslunarhúsin á staðnum árið eftir.

15des_1671011741946

Aldrei varð fjölmennt á Papósi og þegar mest var samkvæmt manntali bjuggu þar 15 manns í íbúð verslunarstjóra og húsunum Von og Nýjabæ. Auk þessara húsa voru reistar tvær vöruskemmur og lítil verslun.

Gamlabud-a-Hofn-11.07.2005.-GLH-035

Eigendur Papósverslunarinnar voru lengst af Jörgen Johnsen kaupmaður í Hafnarfirði og síðar sonur hans, Johnsen yngri. Þeir bjuggu þó aldrei á staðnum heldur réðu verslunarstjóra til að sjá um verslunina fyrir sig. Árið 1895 keypti Ottó Tulinius verslunarreksturinn á Papósi og flutti þangað sjálfur ásamt konu sinni. Ekki var hægt að koma stórum skipum inn í ósinn og var því róið með húsbúnað hjónanna og töluvert af „jurtapottum með blómum“ frá skipi inn á Papós. Fylgir sögunni að allir jurtapottarnir hafi komist heilir í land. Ekki hefur hjónunum líkað vistin á Papósi nógu vel því tveimur árum síðar var verslunin flutt á Höfn í Hornafirði. Allur húsakostur á Papósi var þá tekinn niður og reistur aftur í Hornafirði. Gamlabúð sem byggð var á fyrsta ári verslunarinnar á Papósi árið 1864 stendur nú við höfnina á Höfn og hýsir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Á Papósi sjást enn greinilega tóftir verslunarstaðarins sem þar var rekinn í rúm 30 ár.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Alþingistíðindi 1861 og 1863.

Alþýðublaðið, 173. t.bl. 16. ágúst 1961, bls. 4.

Sjómannablaðið Víkingur, 2. tbl. 1942, bls. 12-13.

14. desember - Biskupsvörður á Biskupahálsi

Biskupavordur-Horft-i-SSV-Herdubreid-i-baksyn

Biskupavörður standa á mörkum Norðlendingafjórðungs og Austfirðingafjórðungs. Eftir að biskupar urðu tveir á Íslandi, árið 1106, voru þessi fjórðungamörk jafnframt mörk biskupsdæmanna, því biskupinn á Hólum hafði Norðlendingafjórðung undir sér en Skálholtsbiskup hina þrjá fjórðungana.

Um aldur varðanna er lítið vitað en til er skemmtileg þjóðsaga um tilurð þeirra. Þar segir að bóndi nokkur hafi gefið Gottskálki grimma Nikulássyni Hólabiskupi (1496 – 1520) og Stefáni Jónssyni Skálholtsbiskupi (1491 – 1518) sömu jörðina. Olli þetta deilum biskupanna um jarðeignina og segir sagan að þeir hafi hist á mörkum biskupsdæmanna til að útkljá þessi mál. Á meðan biskupar ræddu málin kepptu lið biskupsveina í vörðuhleðslu og eru biskupavörðurnar tvær afrakstur þeirrar keppni.

14des_1670949215787

Vörðurnar gætu verið ævagamlar. Þær eru frekar ólögulegar og líkari hrúgöldum en vörðum, sem þykir styðja sannleiksgildi þjóðsögunnar því ætla mætti að þær hafi verið gerðar af meira kappi en forsjá. Því hefur einnig verið haldið fram að þær hafi verið betur hlaðnar í upphafi og hafi hrunið með tímanum en nánari athugun bendir hins vegar til að þær hafi ekki hrunið mikið. Einnig er hugsanlegt að vörðurnar hafi verið hlaðnar til einhvers konar merkinga. Þannig gæti verið að vörðurnar hafi verið tvær til að marka stefnu, og var miðið þá fundið með því að láta vörðurnar bera hvora í aðra svo bein stefna fengist. Efst í báðum vörðunum er að finna hellur sem standa upp á rönd og eru þær sérstaklega áberandi í nyrðri vörðunni. Gætu hellurnar hafa gegnt hlutverki við stefnutökuna.

Biskupavordur-Kristun-Huld-Sigurdardottir-vid-nyrdri-vorduna

Örnefnin Biskupavörður og Biskupaháls ásamt staðsetningu varðanna á mótum biskupsdæmanna gætu bent til að þær hafi í raun verið hlaðnar til að marka skil þeirra. Vörðurnar eru þó jafnframt á fjórðungs-, sýslu- og jarðamótum og gætu því allt eins átt að marka þeim skil. Undarlegt er hversu óvandaðar þær eru ef haft er í huga að þær hafi verið gerðar að tilstuðlan biskupa, sem voru einna valdamestu menn landsins fyrr á öldum. Ætla mætti að þeir hefðu haft metnað til að vanda betur til verksins. Þjóðsagan gefur skýringu á þessari mótsögn og hvort hún er sönn eður ei gefur hún vörðunum aukið gildi.

Biskupavordur-Horft-i-NV-Takid-eftir-hellunni-efst-i-nyrdri-vordunni

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimild

Einar Ólafur Sveinsson. 1940. Um íslenskar þjóðsögur. Sjóður Margrétar Lehmann-Filhés: Reykjavík.

13. desember - Skansinn

13des_Stafkirkjan-og-Landlyst

Skansinn í Vestmannaeyjum var fallbyssuvirki sem Danakonungur lét reisa undir lok 16. aldar. Lét hann reisa virkið til þess að verja höfnina í Vestmannaeyjum fyrir ágangi enskra útgerðar- og kaupmanna, hvort sem þeir hyggðu á rán eða verslun í leyfisleysi. Í heimildum hefur Skansinn einnig verið nefndur Kornhólsskans vegna nálægðar hans við hól sem nefndur er Kornhóll.

Upp úr 1600 hafði ásókn Englendinga á eyjarnar minnkað og var virkinu því ekki mikið haldið við. Á sama tíma var þó farið að bera á öðru vandamáli fyrir sjófarendur og eyjaskeggja en það voru sjóræningjar sem farnir voru að herja á eyjar um allt Atlantshaf. Þó svo að ásókn Englendinga á eyjarnar hafi minnkað þurftu Vestmannaeyingar því enn á vörnum að halda og var hafist handa við að endurreisa virkið. Þær framkvæmdir voru enn á frumstigi þegar Tyrkjaránið átti sér stað árið 1627. Eftir Tyrkjaránið þótti fullljóst að varnir fyrir eyjarnar væru nauðsynlegar og voru þá gerðar miklar breytingar á Skansinum og hann endurbyggður á árunum 1630-1637. Var hann hlaðinn úr grjóti og var þá um 32 m á lengd og um 15 m á breidd. Hæð grjótveggjarins var um 2 m og þykkt hans um 5 m. Enn fremur var dönskum herþjálfa falið að hafa umsjón með landvörnum þaðan. Var Herfylking Vestmannaeyja síðar stofnsett, eða um miðja 19. öld, og fóru æfingar fylkingarinnar fram á Skansinum. Í síðari heimsstyrjöldinni varð Skansinn svo að bækistöð breska herliðsins í Eyjum.

13des_1670927787087

13des_Skansinn

Ætla má að endurhleðsla og viðgerðir hafi farið fram á virkisveggjum í gegnum aldirnar, án þess þó að heimildir séu fyrir því. Hluti af þeim fóru þó undir hraun í eldgosinu í Heimaey árið 1973. Hleðslur virkisins voru síðast lagfærðar árið 1992 af Víglundi Þorsteinssyni. Enn má þó glöggt sjá eldri hleðslur í kantinum meðfram stígnum sem liggur í gegnum virkið og einnig eru eldri hleðslur í brekkunni upp að austurhlið virkisveggjarins. Virkisminjarnar á Skansinum voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni, þáverandi þjóðminjaverði, þann 25. október 1930.

Við endurhleðsluna árið 1992 var reynt að gæta þess að hreyfa ekki við hleðslum að óþörfu og mun það hafa tekist að mestu leyti. Þó mun það hafa gerst að traktorsgrafa, sem notuð var til að fjarlægja jarðveg úr vegg Skansins, rakst í mannabein við sunnanverðan vegginn að innan. Var gröfin talsvert sködduð þegar fornleifafræðingur kom á staðinn til að rannsaka hana. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar var gröfin tekin í gegnum gjóskulag, líklega landnámslagið svokallaða, sem og annað svart gjóskulag, sem talið var vera frá fyrri hluta 10. aldar. Í gröfinni fundust nokkrir gripir, þ.m.t. armband, kambur og þrír steinar. Út frá niðurstöðu gjóskulagarannsóknarinnar og þeim gripum sem í gröfinni fundust, var talið að gröfin væri frá síðari hluta 10. aldar, þ.e. fyrir kristnitöku. Enn fremur segir þó að ekki sé hægt að útiloka að gröfin gæti verið aðeins yngri, e.t.v. frá upphafi 11. aldar, enda ekki víst að grafsiðir hafi breyst snögglega við kristnitökuna.

13des_dronamynd

Á Skanssvæðinu má í dag finna Stafkirkjuna, eftirlíkingu norskrar stafkirkju en kirkjan var gjöf frá Norðmönnum, byggð árið 2000 í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Á Skansinum er einnig að finna Landlyst, fyrsta fæðingarheimili landsins og eitt elsta hús í Vestmannaeyjum, byggt árið 1847. Það má með sanni segja að á Skansinum í Vestmannaeyjum sé að finna áhugaverða blöndu af bæði eldri og yngri minjum.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Halldór Baldursson. 1997. Vígbúnaður á Skansinum 1586-1997. Fylkir,(3. tbl.), 19-21.

Katrín Gunnarsdóttir. 2009. Fornleifaskráning á Skansinum í Vestmannaeyjum vegna lagningar háspennustrengs. Reykjavík.

Mjöll Snæsdóttir. 1992. Beinafundur á Skansinum í Vestmannaeyjum. Rannsókn 30.1 – 2.2. 1992. Fornleifadeild ÞjóðminjasafnsÍslands: Reykjavík.

Skansinn í Vestmannaeyjum. Vísir, (186. tbl.), 9-13.

12. desember - Dysjar Þorgeirs og Gauts

Thorgeirsdys-Hraunhafnarviti-i-bakgrunni

Í Fóstbræðra sögu segir frá Þormóði Bersasyni, Kolbrúnarskáldi, og Þorgeiri Hávarssyni sem saman ólust upp á Ísafirði og tengdust snemma sterkum vinaböndum. Þeir gengu í fóstbræðralag og sóru með því eið að hefna hvors annars ef annar yrði veginn. Fóstbræðurnir voru taldir miklir vígamenn og sagan segir frá ferðum þeirra og afskiptum á Íslandi.

Hér ætlum við þó að einblína á seinni hluta sögunnar sem gerist á Melrakkasléttu og þá aðallega Hraunhafnartanga. Á Hraunhafnartanga er að finna tvær dysjar sem eru nátengdar Fóstbræðra sögu, Þorgeirsdys og Gautsdys. Dysjar eru upphækkaðar grafir sem venjulega hafa verið huldar með grjóthrúgu og þekkist sú hefð vel frá heiðinni tíð, þótt oft reynist erfitt að finna þær.

Þeir sem heimsótt hafa Hraunhafnartanga vita að Þorgeirsdys blasir þar við á tanganum miðjum – há varða ofan á stórum grjóthaug. Er þetta talin vera dys Þorgeirs Hávarssonar sem drepinn var í heilmiklum bardaga við Hraunhöfn. Í þessum bardaga lést reyndar fjöldi manna og eru þeir einnig sagðir dysjaðir á Hraunhafnartanga, líkt og segir í Fóstbræðra sögu:

12des_1670843986217

Sléttukarlar ruddu kaupskipið og fluttu til lands og jörðuðu þar í höfninni allra manna lík, þeirra er þar höfðu fallið á skipi og á landi, því að þeir nenntu eigi til kirkju að færa líkin því að í þenna tíma voru engvar kirkjur í nánd höfninni.

Thorgeirsdys-Arbok

Ljósmynd af Þorgeirsdys úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1924, bls. 56. Ljósmynd: Heinrich Erkes. 1909?

Þó svo að í sögunni segi að á tanganum hafi fjöldi manna verið dysjaður þá er þar aðeins eina önnur þekkt dys. Gautsdys er skammt frá Þorgeirsdys, en hún er þó ekki jafn auðfinnanleg. Gautsdys hefur ekki verið skráð með nútímatækni en lýsingu á staðsetningu hennar má finna í grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá árinu 1924. Hún er sögð lág og grasi vaxin og að umhverfis hana sé einfaldur steinahringur. Gautsdys er talin vera dys Gauts Sleitusonar sem Þorgeir Hávarsson myrti eftir að Gautur notaði spjót og skjöld Þorgeirs sem eldivið.

Og er menn voru sofnaðir þá rís Þorgeir upp og tekur exi sína í hönd sér og gengur til tjalds þess er Gautur var í og sprettir tjaldskörum og gengur inn í tjaldið og að rúmi Gauts og vekur hann. Gautur vaknar og spratt upp og vildi taka til vopna. Og í því bili höggur Þorgeir til Gauts og klýfur hann í herðar niður. Fékk Gautur af því sári bana. Þorgeir gengur á brott og til búðar sinnar. Búðunautar Gauts vakna við brestinn er hann var veginn. Styrmdu þeir yfir líki hans og bjuggu um.

Fóstbræðra saga hefur almennt verið talin skrifuð undir lok 13. aldar, en atburðarrás þessi sem lýst var hér að framan er talin hafa átt sér stað sumarið 1024.

Bæði Þorgeirsdys og Gautsdys voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni árið 1930, friðlýsingin er tilkomin vegna tengingar minjanna við Íslendingasögurnar líkt og algengt var á fyrri hluta 20. aldar.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Fóstbræðra saga

Matthías Þórðarson. 1924. Smávegis: Um staði og fornminjar. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1924, bl.s 56-57. Ísafoldarprentsmiðja: Reykjavík

Þorgeirsdys í Sarpi, Menningarsögulegu gagnasafni Þjóðminjasafns Íslands

11. desember - Fengsæll

IMG_6265

Þeir sem hafa átt leið um Álftafjörð á leið til Súðavíkur hafa kannski rekið augun í bát sem liggur í fjörunni á Langeyri. Þetta er Fengsæll, elsti varðveitti eikarbátur á Íslandi. Á kreppuárunum 1930-1940 var lítil endurnýjun á stærri bátum og togurum á Íslandi. Öðru máli gegndi með minni báta og var Fengsæll einn af yfir 20 svipuðum bátum sem smíðaðir voru í Friðrikssundi í Danmörku og fluttir inn til Íslands á árunum 1929-1938. Fengsæll er sá eini sem eftir er.

Fengsæll var smíðaður árið 1931 og hóf feril sinn á Íslandsmiðum undir nafninu Huginn hjá Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar í Vogum ásamt systurskipi sínu Muninn. Báturinn flokkast eins og áður segir með minni bátum en hann er 15,86 m á lengd, 4,36 m á breidd og 1,76 m á dýpt og er alls 30 brúttólestir. Eftir að hafa verið gerður út frá Vogum um nokkra hríð færðist hann til annarra bæjarfélaga á vesturströnd Íslands en alls hafa eigendur verið 15 í gegnum tíðina. Stuttu fyrir aldamótin 2000 var hann kominn til Súðavíkur þaðan sem hann var gerður út á rækju.

11des_1670596583014

Árið 2000 var Fengsæll orðinn elsti eikarbátur á floti á Íslandi. Samkvæmt skipaskrá 2005 var Fengsæll langelsta þilfarsskipið í flokki fiskiskipa á Íslandi. Þá var hann einnig elsti sléttsúðungurinn á skipaskrá og elsta eikarskipið. Á árunum 1971-72 fór Fengsæll í slipp í Njarðvík þar sem hann var endursmíðaður. Á þeim tíma gekk hann undir nafninu „Torfbærinn“ líkast til vegna aldursins sem þá þegar þótti hár. Báturinn er nú aldursfriðaður skv. menningarminjalögum. Í umfjöllun í Fornbátaskrá um Fengsæl kemur einmitt fram að sjómenn tali um að gömlu trébátarnir hafi svipað menningarlegt gildi og torfbæirnir og mikilvægt sé að augu manna opnist fyrir því áður en þeir hverfa allir.

IMG_6235

Frá árinu 2010 hefur Fengsæll verið skráður í núllflokki hjá Fiskistofu og árið 2013 var búið að sigla honum upp í fjöru við Langeyri. Haustið 2021 höfðu eigendur Fengsæls samband við Minjastofnun en þá höfðu þeir í nokkur ár reynt að koma Fengsæl í varanlegt fóstur án árangurs. Var niðurstaðan sú að Sögufélagið í Vogum á Vatnsleysuströnd, þar sem Fengsæll hóf Íslandsferil sinn, mun taka við bátnum. Nú bíður hann þess að verða fleytt til Ísafjarðar innan skamms þaðan sem hann verður fluttur suður á gömlu heimaslóðir sínar á Reykjanesinu og komið í slipp. Það standa því allar vonir til að hægt verði að bjarga þessum elsta eikarbáti Íslands og sigla honum enn á ný við Íslandsstrendur.

IMG_6239

Smelltu hér til að skoða staðsetningu Fengsæls í minjavefsjá

Heimildir

Helgi Máni Sigurðsson. 2019. Skip eldri en 1950 á skipaskrá Samgöngustofu, skýrsla nr. 27. Fornbátaskrá 2019. Samband íslenskra sjóminjasafna.

Samgöngustofa: Skipaskrá 2005 og 2006.

10. desember - Rútshellir

IMG_2576

Rútshellir kúrir neðst í fjallshlíð undir Eyjafjöllum. Til er munnmælasaga af hálftröllinu eða risanum Rúti sem sagður er hafa gert hellinn í fyrndinni og búið í honum. Hann hafi komist upp á kant við menn í sveitinni sem hafi sótt að honum í hellinum en áður grafið holuna sem er á milli aðalhellisins og rúmbálksins og ætlað að koma spjótslagi á hann sofandi í gegnum gatið. Ýmsum sögum fer af því hvernig áhlaupinu lauk. Eggert Ólafsson og Páll Vídalín segja mennina hafa drepið Rút en aðrar sögur segja hann hafa komið að mönnunum, tvístrað þeim, hlaupið þá uppi og drepið þá alla hist og her í nágrenni hellisins. Hann hafi svo þurft að elta Guðna nokkurn upp á Eyjafjallajökul og drepa hann þar undir steini sem síðan heitir Guðnasteinn.

Rútshellir hefur lengi vakið athygli fólks, sumpart vegna legu sinnar, svo nálægt alfaraleið, en hann þykir líka falleg og býsna flókin smíð. Hann er holaður út í fíngert móberg sem er að mestu leyti laust við bergganga og eitla. Sérstakt við hellinn er að enginn strompur skuli vera á honum sem nær upp í gegnum bergið og út. Eftir að fjárhúsið var byggt framan við hellinn um 1920 hefur meginhellirinn verið notaður sem hlaða en fyrir þann tíma fer ekki miklum sögum af hlutverki hellisins. Meginhellirinn er einn geimur sem einhvern tímann hefur verið þiljaður af því nóg er bæði af berghöldum (78 stykki) sem og sporum í bergið eftir timburrafta. Í botni meginhellisins má sjá leifar þess sem gæti hafa verið set eða rúmbálkur. Hugsanlega jata.

2020-06-14-18.31.23-1

10des_1670596272004

 

Köntuðu holurnar í afhellinum – Stúkunni – hafa verið útskýrðar sem aflgröf og nóstokkur, en þríhyrndi steinninn sem steðjasteinn. Einkennilegt er þó strompleysið, hafi verið eldsmíðað í Stúkunni. Auðvitað má ímynda sér að aflinn hafi verið nálægt opinu og reykurinn á einhvern hátt leiddur út stutta vegalengd eða að gegnumtrekkurinn hafi náð að blása reyknum út.

Eftir valdatöku nasista í Þýskalandi árið 1933 varð til nokkurskonar vísindaakademía innan SS-sveitanna undir stjórn Heinrich Himmlers. Einhverra hluta vegna gerði þessi nasista-akademía út rannsóknarleiðangur til Íslands undir stjórn Paul Burkerts sem fékk til liðs við sig Walter Gehl sem hafði lokið háskólaprófi í norrænum fræðum við Leipzig-háskóla. Sá náungi hafði verið í sambandi við Matthías Þórðarson þjóðminjavörð fyrir stríð í því augnamiði að koma til Íslands og rannsaka hofrústir. Upphaflega stóð til að fara vestur á firði og rannsaka hof þar en einhverra hluta vegna enduðu þeir félagar í Rútshelli. Þeir dvöldu hér við rannsóknir og skiluðu skýrslu til nasista-akademíunnar þess efnis að Rútshellir væri heiðið hof af þróaðri gerð, steðjasteinninn þríhyrndi væri fórnarsteinn þar sem fórnardýrið væri bundið á og svo þegar dýrið væri skorið á háls fylltist bollinn – steðjaakkerið – og þvínæst hafi blóðið verið látið renna eftir gróp frá bollanum ofan í köntuðu holuna í gólfinu. Í hinni holunni hafi verið öndvegissúla. Þeir kumpánar veittu því athygli að gólf meginhellisins hækkar til hliðanna og sáu því í hendi sér að hellirinn hafi verið veislusalur þar sem blótgestir sátu meðfram langveggjum með langeld á milli sín en Stúkan hafi verið sérstakt blóthýsi þar sem fórnarathafnir fóru fram.

IMG_2570

Á árunum 2015-16 var ráðist í framkvæmdir við Rútshelli og hafði Minjastofnun Íslands milligöngu um það. Ákveðið var að hlaða upp fjárhúsið framan við hellinn, en það er miklu yngra en hellirinn, um 100 ára gamalt. Timburþil var endurgert í hellismunnanum ofan við fjárhúsið og taði mokað úr gólfi. Hleðsla við „bakdyr“ var einnig lagfærð. Til verksins réðust bræður af Ströndum, Guðjón hleðslumeistari og Benjamín smíðameistari Kristinssynir. Verkið var unnið í góðu samráði og samstarfi við heimamenn, Fannar á Hrútafelli, Magnús á Steinum og Grétar á Seljavöllum. Staðurinn er nú mikil prýði við þjóðveginn og sækir þangað fjöldi fólks.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Textinn er byggður að mestu upp úr punktum frá Þórði Tómassyni og bókinni Manngerðir hellar á Íslandi eftir Árna Hjartarson, Guðmund J. Guðmundsson og Hallgerði Gísladóttur. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík, 1991.

9. desember - Grænavatn

Graenavatn-baer

Bæjarstæði Grænavatns í Mývatnssveit er einstakt. Þar stendur reisulegur og fallegur gamall frambær og umhverfis hann eru útihús á ólíkum aldri, auk gamalla tófta sem saman mynda heildrænt menningarlandslag.

Frambærinn er eitt stærsta timburhús síns tíma, byggt árið 1913. Páll Kristjánsson smiður (1876-1968) sem verið hafði yfirsmiður Húsavíkurkirkju teiknaði húsið. Það kom í stað framhúsa gamla torfbæjarins en aðrir hlutar hans voru notaðir áfram. Frambærinn er hæð og yfir henni portbyggt ris með tveimur kvistum. Grunnflötur jarðhæðar er um 160 m2. Tvær fjölskyldur bjuggu í bænum og var honum skipt í tvennt eftir miðju. Beggja vegna bæjardyranna voru stofur sem tilheyrðu hvorri fjölskyldu. Þó var hægt að opna á milli stofanna og var það oft gert þegar samkomur voru haldnar á Grænavatni. Undir húsinu eru tveir aðskildir kjallarar. Árið 1947 var fjórbýli á jörðinni og bjuggu þá allar fjölskyldurnar fjórar í torfbænum og framhúsinu til ársins 1952 þegar hafin var bygging nýrra íbúðarhúsa. Síðustu íbúarnir fluttu ekki úr bænum fyrr en 1969. Torfbærinn var þá felldur niður en rústir hans má nú sjá að baki frambæjarins. Traðir liggja upp að Grænavatnsbænum að sunnan og má sjá þær á gömlu myndinni sem fylgir hér.

 

9des_1670509375846

38-0057

Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri. Ljósmyndari óþekktur.

Norðan við bæinn er stórmerkileg hlaða sem enn stendur undir þaki og er talin reist um miðja 19. öld. Hún er aflöng með lítið eitt sveigðum langveggjum og snýr göflum í norður og suður. Veggirnir eru hlaðnir úr hraungrýti og eru hornin bogalaga. Þakið er klætt bárujárni en veggir, dyraumbúnaður, hurðir og lamir eru upprunaleg.

Hlada-a-Graenavatni

Bakkhús eru fjárhús sem standa enn á bakka Grænavatns. Um er að ræða hefðbundin torffjárhús, þrjú talsins með hlöðu. Veggirnir eru hlaðnir úr hraungrýti en bárujárn er á þakinu, fergt með grjóti og ýmsu lauslegu. Húsin eru farin að halla töluvert og spurning hvað þau munu standa lengi. Fleiri greinilegar útihúsatóftir eru víða um heimatúnið, má þar nefna tóftir Nýhúsa sem eru um 20 m austan við bakka Grænavatns. Einnig var hesthúsatóft 15-20 m norðaustan við gamla bæinn. Að lokum eru tvenn fjárhús, nefnd Grundarhús, sem hafa verið löguð og endurbætt að nokkru leyti úr bárujárni og steypu en fremri hlutinn er ennþá úr torfi og grjóti.

IMG_5945

Húsafriðunarsjóður hefur styrkt endurbyggingu frambæjarins að Grænavatni síðustu ár og verður því verki framhaldið næstu ár. Spennandi verður að fylgjast með framtíðaruppbyggingu á svæðinu.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Hjörleifur Stefánsson. 2013. Af jörðu. Íslensk torfhús. Crymogea: Reykjavík.

Elín Ósk Hreiðarsdóttir & Orri Vésteinsson. 1999. Fornleifaskráning íSkútustaðahreppi III: Fornleifar við sunnanvert Mývatn, milli Haganess og Garðs. FS086-96013. Fornleifastofnun Íslands ses.: Reykjavík.

8. desember - Kúvíkur

8des_dronamyndKúvíkur standa við Reykjarfjörð í Árneshreppi á Ströndum. Í gamalli munnmælasögu segir að áður fyrr hafi gömul einsetukona búið á Sætrunum, sem eru beint á móti Kúvíkum til norðurs, og hafi hún átt eina kú. Segir sagan að eitt sinn hafi fallið snjóflóð á kofa hennar með þeim afleiðingum að allt sópaðist út í sjó, þar með talið konan og kýrin. Kúna á að hafa rekið yfir fjörðinn og komið að landi í Kúvíkum og mun nafnið þaðan vera komið.

Sumarið 2003 fór fram fornleifaskráning í Árneshreppi á Ströndum á vegum Fornleifastofnunar Íslands ses. Gerð var heimildakönnun fyrir hreppinn auk þess sem minjar voru skráðar á vettvangi. Ein þeirra jarða sem skráðar voru er Kúvíkur en bærinn var þá skráður undir jörðinni Kambi. Sumarið 2020 fóru starfsmenn Minjastofnunar Íslands aftur á vettvang í þeim tilgangi að mæla upp minjarnar á Kúvíkum með betri tækni en í boði var árið 2003 sem og að mynda þær úr lofti og á jörðu niðri. Hvatinn að þessari endurskoðun á skráningu minjanna voru hugmyndir heimamanna um varðveislu, kynningu og hugsanlega nýtingu minjanna í þágu ferðaþjónustu á svæðinu.

Gengið var kerfisbundið á þegar skráðar minjar en einnig var eitthvað um nýskráningu áður óþekktra minja. Skráðar voru minjar í heimatúni Kúvíka sem og á svæðum fjarri heimatúninu, en verður umfjöllunin hér bundin við minjar í heimatúni.

Túnstæðið í Kúvíkum er í grösugum hvammi sem hallar niður að fjöru, mót norðri. Að austan og suðaustan markast hvammurinn af fremur háu klettabelti en að vestanverðu rennur Búðará. Á Kúvíkum er að finna fjöldann allan af minjum sem flestar virðast vera frá síðasta skeiði búsetu á staðnum og sjást á túnakorti sem gert var árið 1917.

8des_1670493486593

Meðal minja í heimatúni Kúvíka má nefna fjölda landbúnaðarminja auk minja frá tímum verslunar sem rekin var í Kúvíkum a.m.k frá árinu 1602, þegar einokun komst á í landinu, og fram yfir aldamótin 1900 þegar verslun fluttist í Djúpavík. Bæjarlækur Kúvíka liggur um miðbik heimatúnsins frá suðvestri til norðausturs og skiptir því í tvo nokkurn veginn jafna hluta, austan og vestan lækjar.

Túngarður Kúvíka er að mestu hlaðinn úr grjóti, fyrir utan 30-40 m kafla meðfram norðurjaðri túnsins. Víða eru rof í túngarðinum, til að mynda þar sem bæjarlækurinn rennur í gegnum hann, en einnig hafa víða verið hlið á honum. Virðist aðallhliðið á túngarðinum hafa verið þar sem akvegur kemur að Kúvíkum, en um það hefur legið fjölfarnasta leiðin heim að bæ. Traðir liggja til norðausturs frá áðurnefndu aðalhliði og eru þær vel greinanlegar á um 150 m löngum kafla að þyrpingu verslunarminjanna sem eru nyrst fyrir miðju túni.

Í túninu eru minjar áveitumannvirkja og beðaslétta áberandi, bæði austan og vestan lækjar. Má þar helst nefna merki um umfangsmikla áveituskurði, líkt og sjá má á korti hér að neðan, sem stýrt hafa vatnsflæði til og frá jarðræktarsvæðunum. Beðaslétturnar eru mjög reglulegar og liggja flestar langsum í norður-suður. Hver slétta er um 2 m á breidd og grunnar rásir sjást á milli beða. Til norðurs, niður við sjávarsíðuna, má finna minjar þeirra húsa sem áður stóðu á Kúvíkum í tengslum við verslun á staðnum. Má þar m.a. nefna leifar af íbúðarhúsi Jakobs Thorarensen, rúst aðalverslunarhússins í Kúvíkum sem og rústir annarra húsa, svo sem hænsnakofa, útihúsa, bræðsluhúss og fjárhúss. Auk þess mun aðalbryggja verslunarstaðarins hafa staðið fram af verslunarhúsinu, en hennar sjást nú engin merki.

8des_kort

Til austurs í túni Kúvíka, á svæði sem nefnt er Á hlaðinu, má enn fremur finna minjar frá þeirri tíð sem verslun var stunduð í Kúvíkum. Má þar helst nefna grunn undan íbúðarhúsi Carls Jensens sem flutt var af grunni sínum og stendur nú í Kaldbaksvík. Grunnurinn er steinsteyptur að mestu og norðan til í honum vottar fyrir leifum af grjóthlöðnum kjallara. Tröppur liggja enn upp að dyrum á miðri norðurhlið hússins. Austan við íbúðarhúsið mun hafa verið lítil verslun en hennar sjást nú engin merki. Beint suður af húsgrunninum er lítil tóft af hænsnakofa og meðfram henni liggur lítið garðlag sem myndar næstum S og má segja að þetta garðlag aðgreini fyrrnefnd svæði, þ.e. heimatún Kúvíka og Á hlaðinu. Á þessu svæði er svo að finna frekari minjar, svo sem rúst fjárhúss, útihúss og óþekktrar tóftar.

Með sanni má segja að minjasvæði Kúvíka sé einstakt vegna þeirra heildstæðu minjaflokka sem þar er að finna, þ.e. landbúnaðarminja annars vegar og minjar um verslun á staðnum hins vegar.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Birna Lárusdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir og Uggi Ævarsson. 2005. Fornleifaskráning í Árneshreppi II: Fornleifar fráKolbeinsvík til Kjörvogs og frá Seljanesi til Skjaldarbjarnarvíkur. Fornleifastofnun Íslands: Reykjavík.

Guðmundur Stefán Sigurðarson, Margrét Valmundsdóttir og Oddgeir Isaksen. 2022. Kúvíkur í Árneshreppi á Ströndum: Endurskoðun fornleifaskráningar. Minjastofnun Íslands: Reykjavík.

7. desember - Umferðarmiðstöð BSÍ

365-Reykjavik-Umferdarmidstodin-3

Umferðarmiðstöðin árið 1988, ljósmynd: Kristján A. Einarsson. Mynd tekin í suðausturátt að aðalinngangi hússins.

Umferðarmiðstöð BSÍ er hluti af svokölluðum yngri minjum, í flokki samgönguminja. Byggingin hefur ekki náð þeim aldri að vera friðuð samkvæmt lögum um menningarminjar, en hún er engu að síður mikilvægur hluti af menningar- og byggingarsögu þjóðarinnar. Á síðustu árum hefur orðið mikil vitundarvakning um verndun og endurnýtingu bygginga meðal annars út frá umhverfissjónarmiðum. Stefnan í löndunum í kringum okkur er farin að fjalla í auknum mæli um endurbætur og umbreytingu bygginga og vernda þannig sögulega vídd og fjölbreytni í borgarmynd framtíðar.

Umferðarmiðstöð BSÍ var teiknuð af Gunnari Hanssyni arkitekt árið 1960 og er hún að stofni til stílhrein og látlaus bygging og gott dæmi um móderníska byggingarlist 6. áratugarins. Upphaflega var gert ráð fyrir viðbótarálmum til beggja enda og var hún þannig hugsuð sem hluti af stærri húsasamstæðu. Umferðarmiðstöð BSÍ hefur mikið menningarsögulegt gildi sem opinber bygging sem lengi hefur þjónað hlutverki einnar helstu samgöngumiðstöðvar Reykjavíkur. Þrátt fyrir að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á ytra byrði hússins er útlit þess enn í miklu samræmi við upprunalegar teikningar frá árinu 1960. Það sem einna helst truflar þá ásýnd hússins í dag er mikið magn auglýsingaskilta og hefur byggingin látið töluvert á sjá vegna ónógs viðhalds. Helstu breytingar hafa verið á innra skipulagi en burðarkerfi hússins einfalt í anda módernisma og því auðvelt að breyta skipulaginu án þess að raska eiginleikum rýmisins.

 

7des_1670331735928

T-GE-926-0-0a

Umferðarmiðstöðin árið 1970, ljósmynd: Gunnar Einarsson. Biðsalurinn, bjart og opið rými með göngubrú á efri hæð þar sem var aðkoma að skrifstofum og fundarsal. Hér sést vel hið einfalda burðarkerfi hússins.
T-GE-926-4-4a
Umferðarmiðstöðin árið 1970, ljósmynd: Gunnar Einarsson. Suðurhlið BSÍ við rútubílastæðin.
IMG_1092
Suðurhlið BSÍ eins og hún lítur út í dag.

Umferðarmiðstöð BSÍ þótti mjög glæsileg bygging á upphafsárum sínum og þó að viðbótarálmurnar hafi aldrei verið reistar þá stendur húsið sem gróið kennileiti í Vatnsmýrinni. Enn er mikið pláss á lóðinni og því möguleikar fyrir hendi að endurnýja og stækka bygginguna eins og hugmyndir voru um í upphafi. Umferðarmiðstöð BSÍ myndi þá lifa áfram sem vitnisburður um bjartsýni og stórhug borgaryfirvalda þess tíma, í nýju hverfi sem mögulega mun rísa þar í framtíðinni.

1960-10-27_4

Teikning sem sýnir norður- og suðurhlið hússins, undirrituð af Gunnari Hanssyni arkitekt árið 1960.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Bréf Minjastofnunar Íslands dagsett 14. janúar 2014. Efni: Umferðarmiðstöð BSÍ við Vatnsmýrarveg, mat á varðveislugildi.

Bréf Árbæjarsafns dagsett 29. september 1999. Efni: Varðandi Umferðarmiðstöðina v. Vatnsmýrarveg.

Reykjavík 1. tölublað 10. janúar 2015. Blaðagrein, Atli Þór Fanndal.

Morgunblaðið 17. október 2019, blaðsíða 16. Blaðagrein Sigtryggur Sigtryggson. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/10/17/tharf_umferdarmidstodin_ad_vikja/

Húsaskráning Vatnsmýrarvegur 10, unnið af Minjasafni Reykjavíkur, dagsett 17. desember 2013

6. desember - Þórarinsstaðir

IMG_6564_Thorarinsstadir_Baejarrust_NV_1670323887359

Rústir eyðibýlisins Þórarinsstaða eru staðsettar við Stangará á Hrunamannaafrétti, vestast í svonefndri Hnausheiði. Getur þar að líta leifar bæjarhúsa, auk þriggja fjárhúsa, sem samanlagt rúmuðu um 200 fjár, og smiðjuleifar.

Er svæðið illa farið af uppblæstri og má segja að túnstæði Þórarinsstaða sé örfoka melur, en umhverfis eru þykkar óblásnar torfur með rofabörðum. Eru minjarnar því nú illgreinilegar.

Elstu lýsingar á Þórarinsstaðarústum eru frá árinu 1895, en Brynjúlfur Jónsson og Þorsteinn Erlingsson komu báðir á staðinn það ár og gerði sá síðarnefndi jafnframt lauslegan uppdrátt af rústunum. Daniel Bruun kannaði svo staðinn árið 1897 og stóð fyrri minniháttar uppgreftri á hluta bæjarhúsanna. Sumarið 1945 stóð Kristján Eldjárn svo fyrir ítarlegri rannsókn á staðnum og gróf þá upp leifar bæjarhúsanna, fjárhúsanna og smiðjunnar. Birti hann yfirgripsmikla skýrslu um rannsóknina í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-1948. Þegar rannsóknin fór fram virðist uppblástur þegar hafa verið farinn að herja nokkuð á minjasvæðið, en ástand þess var þó öllu skárra en nú er og var hluti rústanna undir þykkri jarðvegstorfu. Voru veggir allháir og gjarnan „úr torfi eða grjóti eða hvort tveggja“.

 

6des_1670323884440

Bæjarrústin, sem snýr nokkur veginn norður-suður, skiptist í sex meginrými. Fyrir miðju var skáli, ca. 35 m2að innanmáli. Aðalinngangur virðist hafa verið norðarlega á vesturvegg og hellulagt gólf inn eftir honum frá stétt fyrir utan skálann, en bakdyr á móts við aðalinnganginn á austurvegg. Leifar eldstæðis fundust í miðjum skálanum og ummerki um set meðfram langveggjum. Rými sem túlkað var sem stofa tengdist skálanum að sunnanverðu um um 4,5 m löng göng en miðja vegu á milli skálans og stofunnar voru svo dyr til austurs inn í rými sem túlkað hefur var sem búr. Á móts við búrið voru svo útidyr á vesturvegg ganganna. Í stofunni, sem var um 18 m2að stærð, gat að líta leifar bekkja úr uppreistum grjóthellum og jarðvegi meðfram langveggjum, en við suðurenda eystri bekkjarins voru svo leifar grjóthlaðinna hlóða. Í suðvesturhorni stofunnar var lítið útskot í langvegginn, fóðrað með hellugrjóti, og fyrir framan það 34 kljásteinar. Ekki er ljóst hvert hlutverk útskotsins hefur verið en kljásteinarnir benda þó til þess að þarna hafi staðið vefstaður.

Thorarinss

Í búrinu sem var um 13 m2 að innanmáli, fundust ummerki um tvo stóra niðurgrafna sái og einn minni, far eftir tunnu, og grjóthlaðna bekki meðfram norður- og austurvegg. Frá norðurenda skálans var innan gegnt í fjósið sem var um 26 m2 að stærð að innanmáli. Gat þar að líta leifar 14 bása úr hellugrjóti og voru níu við vesturvegginn en fimm við austurvegginn, flór úr hellugrjóti var á milli básaraðanna og lá sú hellulögn frá tengidyrum við skálann til norðurs eftir fjósinu endilöngu. Dyr voru á norðurenda fjóssinn út í stutt göng eða rangala sem lá að dyrum sem opnuðust til vesturs. Voru þessi göng hellulögð sem og dyrnar. Innangengt var úr fjósinu í hlöðu sem var sambyggð þvert á það norðarlega að austanverðu. Norðan við hlöðuna var svo lítið rými með óskilgreint hlutverk sem Kristján kallaði kofa og tengdist fjósrangalanum.

IMG_6560_Thorarinsstadir_Bur_A

Leifar af búrinu

Gólflög sem fundust á Þórarinsstöðum voru fremur þunn og taldi Kristján því að búseta hafi varðað þar stutt. Þóttu honum bæjarhúsin líkjast bæjum af „Þjórsárdalsgerðinni“, svokölluðu, sem grafnir höfðu verið í Þjórsárdal, að öllu leyti en því að í Þjórsárdal virðast fjós sjaldnast hafa verið sambyggð íveruhúsum. Honum þótti því líklegt að Þórarinsstaðir hafi verið frá svipuðum tíma og Þjórsárdalsbæirnir. Voru rústirnar auk þess fylltar sama ljósa Hekluvikrinum og aðrar bæjarrústir sem fundist hafa í Þjórsárdal. Taldi Kristján því að Þórarinsstaðir hafi farið í eyði í sama Heklugosi og eyddi byggð í Þjórsárdal, eða um 1300, en seinna átti þó eftir að koma í ljós að vikurinn var úr gosi sem tímasett hefur verið til 1104. Bærinn er því talinn töluvert eldri og búseta lögst af fyrir eða um 1104.

Thorarinsstadir

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Kristján Eldjárn. 1949. Eyðibyggð á Hrunamannaafrétti. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, bls. 1-43. Ísafoldarprentsmiðja: Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1968. Beinagrindur og bókarspennsli. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1967-69, bls. 50-58. Kristján Eldjárn (ritstj.). Ísafoldarprentsmiðja: Reykjavík.

5. desember - Klyppstaðarkirkja

100_3634

Á kirkjustaðnum Klyppstað í Loðmundarfirði, afskekktri eyðibyggð á Austurlandi, stendur lítil timburkirkja, reist árið 1891. Klyppstaðarkirkja er einföld alþýðukirkja af yngri gerð turnlausra kirkna sem risu víða um land á tveimur seinustu áratugum 19. aldar, eftir að nýklassísk áhrif urðu áberandi í íslenskri timburhúsagerð. Hún sver sig í ætt við þrjár austfirskar kirkjur sömu gerðar: Eiða-, Hjaltastaða- og Þingmúlakirkjur, sem allar risu fáum árum á undan. Sérstaklega er skyldleikinn við Þingmúlakirkju augljós. Hlutföll, form, gluggagerð og fleiri útlitsatriði eru áþekk. Klyppstaðarkirkja er aðeins minni og ekki eins mikið lagt í innansmíð hennar. Líklegt er að Þingmúlakirkja hafi verið fyrirmynd við kirkjusmíðina, þó þess sé hvergi getið í heimildum. Klyppstaðarkirkja var í upphafi með sams konar klæðningu og Þingmúlakirkja, láréttum borðum (plægðri vatnsklæðningu) sem máluð voru í ljósgráum lit. Tvennt var þó ólíkt. Bárujárn var á þaki Klyppstaðarkirkju frá fyrstu tíð og veggklæðing hennar inni er af eldri gerð, endurnýtt úr fyrri kirkju.

Klyppstaðarkirkja hefur haldið öllum einkennum sínum og er nánast í sömu mynd og þegar hún var reist, ef undanskilin er bárujárnklæðing á veggjum. Henni hefur verið vel við haldið í seinni tíð og viðgerðir hafa verið gerðar af virðingu fyrir upphaflegri gerð. Kirkjan er í umsjón prófasts Austurlandsprófastsdæmis sem hefur falið Þórhalli Pálssyni arkitekt á Eiðum að annast viðhald og endurbætur. Auk Þórhalls hefur Björn Björgvinsson húsasmíðameistari á Breiðdalsvík unnið að viðgerðum. Viðhald kirkjunnar er merkilegt framtak í ljósi þess að byggð lagðist af í Loðmundarfirði á áttunda áratug 20. aldar. Verkið hefur að mestu verið fjármagnað með styrkjum úr húsafriðunarsjóði því engin eru sóknargjöldin. Messað er í kirkjunni á hverju sumri.

5des_1670234260417

100_3627

Í næsta nágrenni Klyppstaðar er skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Landvörður þar varðveitir lykil að kirkjunni og er hún til sýnis gestum sem að garði ber. Það segir sitt um einstakt menningargildi Klyppstaðarkirkju og annarra kirkna í eyðibyggðum að þeir sem þangað eiga ættir að rekja skuli reiðubúnir að kosta tíma og fé í viðhald og umhirðu svo byggingarnar megi standa áfram sem áþreifanlegur vitnisburður um lífsbaráttu og trúarlíf genginna kynslóða. Fyrir ferðamenn á eyðislóðum eru byggingarnar ekki síður mikilvægar sem áþreifanleg tenging við menningu og sögu horfinnar byggðar sem fátt annað af mannvirkjum er til vitnis um.

100_3637

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Höf. Pétur H. Ármannsson

4. desember - Surtshellir

20180911_110841_1669992634647

Í Hallmundarhrauni, undir hlíðum Eiríksjökuls, í landi Kalmanstungu í Borgarfjarðarhéraði er að finna Surtshelli, einn stærsta og þekktasta helli landsins. Hellirinn hefur verið sögusvið goðsagna og útilegumannasagna svo lengi sem heimildir geta. Er hann talinn vera sögusvið Hallmundarkviðu í Landnámu sem fjallar um átök milli Þórs og Surts eldjötuns. Nafn hellisins er einmitt talið dregið af heiti Surts þótt því hafi einnig verið velt upp hvort um sé að ræða tilvísun í sortann sem er inni í hellinum. Í Hellismanna sögu sem gerist í uppsveitum Borgarfjarðar er hellirinn sögusvið sagnar umátján skólapilta frá Hólum sem áttu að hafa lagst út í Surtshelli. Hellirinn kemur einnig við sögu í Sturlungu þar sem segir frá því þegar Sturla Sighvatsson fer með Órækju Snorrason í hellinn Surt til að pynta hann og limlesta. Lýsing hellisins í Sturlungu bendir til þess að hann hafi verið vel þekktur á þeim tíma er sagan er rituð, á 12. og 13. öld.

Surtshellir hefur lengi haft mikið aðdráttarafl fyrir landkönnuði og ævintýraferðamenn sem hafa kannað hellinn og minjarnar. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um svæðið árið 1750 var þeim eindregið ráðið frá að fara inn í hellinn þar sem draugar og andar ættu þar bólfestu. Ekki fóru þeir eftir tilmælunum en ítarlega lýsingu og fyrsta uppdráttinn af hellinum er að finna í Ferðabók Eggerts og Bjarna, en þeir félagar könnuðu hellinn og mældu hann upp árið 1753. Matthías Þórðarson taldi Surtshelli merkastan allra hella á Íslandi og friðlýsti hann menningarminjarnar í hellinum árið 1930.

4des_1669992148120

20130823_125806

Um 200 m fyrir innan aðalop Surtshellis skerast tveir afhellar inn í bergið hvor sínu megin. Um 30 m inn í þeim syðri er að finna friðlýstu minjarnar sem samanstanda af grjóthlöðnu mannvirki og beinahrúgu. Mannvirkið er um 7 m langt og 3,5 m breitt í miðju en mjókkar til endanna og er um 1,5 m við gaflana. Syðri langveggurinn er bogadreginn. Veggirnir eru um 0,8-1 m á hæð og virðast ekki hafa verið hærri upprunalega eða haft þak. Tveir inngangar eru á mannvirkinu: einn frá aðalhellinum á miðri hlið nyrðri langveggjar og hinn á syðri, innri langvegg. Við austurgaflinn er innbyggt hólf í veggnum og stór flöt hraunhella er yfir hólfinu. Annað svipað hólf er að finna nálægt vesturgafli. Á árunum 2001 og 2013 fóru fram rannsóknir á fornminjum í Surtshelli og gólflag í mannvirkinu var fjarlægt til greiningar. Fundust ýmsir gripir í gólfinu svo sem glerperlur, kross og met úr blýi.

Kross

Utan við tóftina að framanverðu er allstór beinahrúga; 3,7 m löng og 2 m á breidd. Árið 2001 var grafinn könnunarskurður í hana og sýni tekið til greiningar. Beinahrúgan reyndist vera aðeins 3-7 sm að þykkt en ummerki á veggnum benda til þess að hún hafi upprunalega verið 50 sm þykk. Í ferðabók Eggerts og Bjarna frá miðri 18. öld kemur fram að þeir hafi eytt efsta hluta beinahrúgunnar, án þess að útskýra það nánar. Í seinni tíð tíðkaðist meðal ferðamanna að taka með sér bein sem minjagrip um heimsóknina í hellinn en slíkt er nú stranglega bannað. Á 20. öld afmarkaði Kristleifur Þorsteinsson bóndi á Húsafelli stíg meðfram beinahrúgunni með einfaldri steinaröð til að hlífa henni frá ágangi ferðamanna.

Beinasýnin sem tekin voru við rannsóknina árið 2001 hafa verið greind til tegunda: nautgripa, svína, hesta, kinda og geita, en markverð var fjarvera leifa af villbráð, skeldýrum og fiski. Beinin virðast hafa verið brotin viljandi í smátt. Aldursgreiningar á beinum sýndu að þau væru frá fyrstu áratugum landnáms, rétt eftir að Hallmundarhraun rann, um miðja 10. öld.

Surtshellir_164649

Surtshellir er í töluverðri fjarlægð frá byggð. Eingöngu er hægt að fara inn í hellinn um tvö op, annars vegar aðalmunna Surtshellis og hins vegar við íshelli. Ekki er fært inn né út um önnur op í hellinn án þess að hafa klifur- og sigbúnað. Gólfið í hellinum er grýtt og seinfarið sökum hruns úr lofti. Eigi að fara inn í hellinn þarf að hafa góðan útbúnað svo sem góða skó, vasaljós og hlý föt. Þá er æskilegt að vera með hjálm. Ekki er ráðlagt að vera einn á ferð og mikilvægt er að láta vita af ferðum sínum áður en lagt er af stað inn í hellinn.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Eggert Ólafsson. 1981. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Örn og Örlygur: Reykjavík.

Guðni Jónsson. 1953. Landssaga og landnám. Íslendingasögur I. bindi. Prentverk Odds Björnssonar H.F.: Akureyri.

Guðmundur Ólafsson, Kevin P. Smith og Agnes Stefánsdóttir. 2004. Rannsókn á minjum í Surtshelli. Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafns 2001, VIII. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík.

Kevin P. Smith, Guðmundur Ólafsson & Thomas H. McGovern. 2010. „Surtshellir: A fortified Outlaw Cave in West Iceland“. The Viking Age: Ireland and the West: Proceedings of the Fifteenth Viking Congress, Cork, 2005. Four Courts Press: Dublin, bls. 283-297.

Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason, Kristján Eldjárn, & Magnús Jónsson. 1946. Sturlunga saga. Sturlunguútgáfan: Reykjavík.

Ólafur Briem. 1959. Útilegumenn og auðar tóttir. Bókaútgáfa menningarsjóðs: Reykjavík.

3. desember - Núpsstaður

20220922_143602

Núpsstaður er austasti bær í Skaftárhreppi. Innan marka jarðarinnar eru þjóðkunnar náttúruperlur á borð við Lómagnúp, Grænalón og Núpsstaðarskóga. Núpsstaður var öldum saman einn afskekktasti bær á landinu en komst í þjóðbraut með opnun vegarins um Skeiðarársand árið 1974. Frá Núpsstað var veitt fylgd yfir jökulvötnin miklu á Skeiðarársandi á tímum hestaferða.

Núpsstaður er nú í eyði en samfelld búseta var á staðnum fram til ársins 2010 þegar síðasti ábúandinn lést. Bærinn hefur verið í eigu sömu ættar frá því um 1730.

Á Núpsstað er ein heillegasta þyrping bæjarhúsa frá seinni hluta 19. aldar sem varðveist hefur hér á landi, alls fimmtán uppistandandi útihús úr torfi og grjóti auk bænhúss, íbúðarhúss úr timbri og rústa af fjórum útihúsum. Bæjarhúsin ásamt tröðum, hlöðnum túngörðum og öðrum búsetuminjum fyrri tíðar mynda einstæða og lítt snortna minjaheild.

3des_1669978071098

20220922_145917

Á síðasta hluta 19. aldar var íbúðarhúsið á Núpsstað reisulegur torfbær af sunnlenskri gerð með burstum fram að hlaði. Austustu og elstu húsin: skáli, búr og Litlahús, sem sneru langhlið að hlaðinu voru rifin um 1890. Árið 1905 viku stofa, gestakamers, bæjardyr og búr fyrir nýju timburhúsi með tveimur burstum fram á hlað. Árið 1929 var timburhúsið stækkað, burstirnar teknar af og húsið hækkað. Nýtt ris var sett á húsið með mæni samsíða hlaði og þvert á önnur bæjarhús. Húsið stendur enn og er núverandi íbúðarhús. Það hefur varðveist að mestu óbreytt að ytra borði ef gluggar eru frátaldir.

20220922_150349

Heimildir eru um kirkju á Núpsstað allt frá árinu 1200. Við bæinn stendur torfhlaðið bænhús af fornri gerð. Bænhúsið er minnst þeirra torfkirkna sem varðveist hafa hér á landi og hefur einstakt gildi frá sjónarhóli byggingarlistar. Það var fyrsta torfhúsið sem sett var á fornleifaskrá árið 1931. Deildar meiningar eru um aldur bænhússins, hvort það sé frá 17. öld eða miðri 19. öld.

Núpsstaður hefur sérstöðu meðal íslenskra torfbæjarþyrpinga vegna fjölda og upprunagildis þeirra húsa sem varðveist hafa. Þá er Núpsstaður eini staðurinn á landinu þar sem bæði bæjarhús og kirkja úr torfi standa enn á sínum upprunastað.

Gildi staðarins felst ekki síst í samspili menningarminja og stórbrotins landslags, andstæðum lágreistra torfbygginga og hrikalegra kletta sem gnæfa yfir bænum. Bæjartorfan á Núpsstað er einn þeirra staða sem efst eru á lista yfir torfhús á hinni íslensku yfirlitsskrá í tengslum við heimsminjaskrá UNESCO.

20220922_15082920220922_150558

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

Gísli Gestsson. 1961. „Gamla bænahúsið á Núpsstað“. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1961, bls. 61-84.

Gísli Gestsson. 1970. „Gömul hús á Núpsstað“. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1969, bls. 15-44.

Guðmundur L. Hafsteinsson. 2014. „Bænhúsið á Núpsstað“. Kirkjur Íslands 23, bls. 45-64. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag o.fl.

Guðmundur L. Hafsteinsson. 2006. Núpsstaður – Byggingalýsingar. Reykjavík: Þjóðminjasafnið (ljósrit í vörslu Minjastofnunar).

Hjörleifur Stefánsson. 2013. Af jörðu: íslensk torfhús. Reykjavík: Crymogea o.fl.

Hörður Ágústsson. 1998. Íslensk byggingararfleifð I: Ágrip af húsagerðarsögu 1750- 1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.

2. desember - Útilegumannabælin í Eldvörpum

2des

Í Grindavíkurhrauni ofan við Húsatóftir fundust fyrir tilviljun árið 1872 rústir af mörgum smákofum, hlöðnum úr hraunhellum. Hafa minjar þessar verið bæði leikum og lærðum tilefni mikilla vangavelta í gegnum tíðina enda er tilurð þeirra og tilgangur nokkur leyndardómur. Minjarnar eru í lítilli kvos við jaðar Sundvörðuhrauns, sem er úfið apalhraun, en flestar rústirnar standa niðri á sléttara helluhrauni Eldvarpahraunanna. Illfært hefur verið að komast á þennan stað. Ef komið er að norðan frá Eldvörpum er yfir úfið apalhraunið að fara og er það illt yfirferðar en gönguleiðin víðast nokkuð skýr. Ef komið er að sunnan frá Húsatóftum er í fyrstu gengið eftir Árnastíg, sem er gömul þjóðleið sem liggur inn á Skipsstíg norðan Stapafells og þaðan áfram til Keflavíkur. Beygja þarf af Árnastíg inn á svokallaðan Brauðstíg og ganga tæplega 2 km leið til vesturs. Minjarnar liggja skammt norðaustan við Brauðstíginn en rústirnar eru lítt sýnilegar fyrr en komið að kvosinni. Op hennar vísar mót vestri og þar hefur verið gott skjól.

IMG_7027

Þorvaldur Thoroddsen landfræðingur lýsti minjunum í Ferðabók sinni, en hann kom á staðinn árið 1883. Tveimur áratugum síðar, sumarið 1902, var Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi á ferð um svæðið og birti um það og fleira grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1903. Brynjúlfur fann sjö tóftir en sú stærsta þeirra er innst í kvosinni, byggð inn í hraunviki og gæti hafa verið allt að 4 metrar að lengd að innanmáli og 1 ½ metri á breidd. Telur Brynjúlfur þessa tóft líklegasta til að hafa verið mannabústað – „Þar er skjól gott og fylgsni gott“. Aðrar tóftir eru smærri og sumar með vindaugu á göflum og veggjum. Gætu þær hafa verið geymsluhjallar t.d. fyrir þurrkað kjöt. Ólíklegt telur hann að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Ólafur Briem fjallaði svo ítarlega um þennan stað í riti sínu Útilegumenn og auðar tóftir, sem kom út 1959. Gerir hann grein fyrir tíu tóftum og eru tvær þeirra uppi á hraunbrúninni. Reft hefur verið yfir með hraunhellum sem nú eru fallnar inn í tóftirnar eða utan við þær. Ein tóftin hefur mjög einkennilegt lag, en það eru eiginlega þrjár tóftir sem snúa bökum saman og opnast hver í sína áttina. Í einni þeirra er ein þakhella óhögguð og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í þessum rústum. Auk þess fann Ólafur grjóthlaðið aðhald sem líklega hefur verið notað fyrir sauðfé. Árið 1930 voru minjar þessar friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði. Við framkvæmdir árið 1982 fannst svo „útilegumannahellir“, skammt við borholu HS orku um 1 km norðan við minjastaðinn, og var hann rannsakaður af Guðmundi Ólafssyni fornleifafræðingi. Hellirinn hefur nánast verið ósýnilegur ókunnugum og taldi Guðmundur líklegast að um felustað væri að ræða sem hefur ekki verið í notkun um langt skeið og mætti hugsanlega tengja við minjarnar suður af í hraunkvosinni.

DJI_0245

Á síðari tímum hefur Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og fornleifafræðingur farið margar ferðir að minjastaðnum ásamt ferðafélögum úr ferðahópi rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR). Hafa fjölmargar greinar um efnið birst á heimasíðu þeirra ferlir.is. Í þeim ferðum hefur bæst í fjölda þeirra minja sem fundist hafa á svæðinu. Á sjálfu minjasvæðinu hefur fundist refagildra, en um 1 km í vestur í Eldvörpum hafa fundist tvær aðrar tóftir sambærilegar að gerð auk annars „útilegumannahellis“ þar sem finna mátti hleðslur og augljóst er að menn hafa hafst við. Líklegt má telja að fleiri minjar af þessu tagi leynist í hrauninu og er eðlilegt að horfa á þessa minjastaði sem eina heild. Friðlýstu minjarnar voru fyrst mældar upp af Agnesi Stefánsdóttur á vegum Fornleifaverndar ríkisins árið 2008 og eru gögnin aðgengileg í vefsjá Minjastofnunar ásamt skýrslu um rústirnar.

Margar tilgátur hafa komið fram um uppruna minjanna og hlutverk. Þorvaldur Thoroddsen, sem fyrstur gerði grein fyrir þeim, telur ólíklegt að þarna hafi verið mannabyggð að staðaldri heldur hafi menn byggt þetta sem skjól á ófriðartímum og nefnir ófrið Þjóðverja og Englendinga 1532 og svo Tyrkjaránin 1627. Vera má að Grindvíkingar hafi reist þessi skýli til nota ef í nauðir rak fyrir erlendum óaldalýð eða þá að þetta hafi verið fylgsni sakamanna og má nefna að þekktar eru sögur af stigamönnum og útilegumönnum á Baðvöllum skammt frá Grindavík. Brynjúlfur Jónsson bendir á að aðgangur að vatni hefur verið af skornum skammti og staðurinn því illa hentað til langdvala. Hann veltir upp þeirri hugmynd að einhverjir stálpaðir unglingar hafi gert sér að leik að hlaða upp kofa þessa en fellur svo frá þeirri tilgátu, enda myndu „flestir drengir kjósa annað til skemmtunar, en að leita leiksviðs í ófæru hrauni“. Ólafur Briem kemst ekki frekar en Þorvaldur og Brynjúlfur að ákveðinni niðurstöðu, en sýnist helst að staðurinn hafi verið valinn með það fyrir augum að vera felustaður og sennilegast hæli manna sem þurftu að fara huldu höfði og bendir á að vatnsból megi finna um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu. Ef kofarnir hafa verið byggðir fyrir Grindvíkinga til að fela sig á hættutímum er ekki víst að þeir hafi nokkurn tímann verið teknir í notkun. Rústirnar eru alþaktar mosa og má ætla að þær séu margra alda gamlar. Síðast gaus í Eldvörpum árið 1228 og eru minjarnar því yngri en það.

DJI_0300

Ómar Smári Ármannsson setti fram hugmyndir um tilgang byrgjanna, en hann telur litlar líkur á að þarna hafi verið mannabústaður, einkum vegna smæðar bygginganna. Líklegra má telja að þarna hafi verið fiskigeymslur þar sem bændur gátu skotið undan fiski og sótt sér þegar vistir þraut. Bendir hann á að útvegsbændur áttu ekkert – en Skálholtsstóll allt. Það skyldi því ekki koma á óvart að menn hafi reynt að koma einhverju undan á hungurtímum. Hann bendir á að engin þörf hafi verið á að hlaða sér felustaði þar sem nóg er af rúmgóðum hellum þarna í hrauninu. Einnig má benda á mikinn fjölda refagildra á svæðinu, hugsanlega til að sporna gegn því að tófan kæmist í eitthvað í byrgjunum. Ómar Smári skráði fornleifar í Eldvörpum ásamt Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðingi og gáfu þau út skýrslu árið 2013. Þar eru minjarnar í hraunkvosinni nefndar „Tyrkjabyrgi“.

Hér hefur verið tæpt á helstu tilgátum sem komið hafa fram um uppruna og tilgang minjanna en ljóst er að minjar þessar þurfa frekari rannsóknar við og hugsanlega mætti fá betri hugmynd um hlutverk og aldur þeirra með rannsókn á gólfum. Við samantekt þessa hefur verið stuðst við ýmis rit og hefur verið vitnað til þeirra helstu hér að ofan.

Smelltu hér til að skoða þrívíddarmódel af svæðinu

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

1. desember - Hvanndalir

1des_1669888563214

Um aldir voru Hvanndalir ein afskekktasta byggð á Íslandi, staðsett á Tröllaskaga milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Aðkoma var erfið en oftast var farið um Hvanndalaskriður frá Héðinsfirði. Einnig var lending frá sjó varasöm nema í veðurblíðu. Jarðarinnar er fyrst getið í máldaga Hólakirkju frá 1374 en ekki er vitað hvenær byggð hófst á staðnum. Þó er ljóst að hún var stopul þar til árið 1896 en þá keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörðina gagngert til að koma í veg fyrir að byggð héldist þar lengur. Sumarið 2006 voru Hvanndalir skráðir af Fornleifastofnun Íslands ses. (FSÍ) sem hluti af heildarskráningu fornleifa í Hvanneyrarhreppi hinum forna. Sú umfjöllun sem hér fylgir um minjarnar er byggð á þeirri vinnu en alls voru skráðar yfir 30 fornleifar af ýmsu tagi á jörðinni.

Ey021_001-003A

Fyrst má nefna bæjarstæðið sjálft en í örnefnalýsingu Helga Guðmundssonar segir: „Stóð bærinn niður frá mynni hins ytri og meiri, eða aðaldalsins, mót norðaustri. Er þar útsýn og byggðarstæði hið fegursta. Túnvöllur mikill, sléttur og fagur, en sjávarbakkar hvarvetna háir að neðan.“ Bæjarstæðið er á grösugu flatlendi, víðast hvar dálítið mýrlendu. Þar eru greinilegar þrjár tóftir; bæjarhóllinn 001, fjárhús 002 og fjós 003. Enginn hóll er undir bæjarrústinni og því fátt sem bendir til að bærinn hafi staðið þar lengi og líklega hafa síðustu bæjarhúsin verið að mestu úr timbri. Fjárhúsið er frammi á þverhníptum sjávarbakka 40-50 m suður af bæjartóftinni.

Dálítill hóll, allt að rúmlega 1 m hár, er undir tóftinni sem gæti verið vísbending um að tóftin standi á eldri minjum. Þriðja tóftin á bæjarstæðinu er skammt ofan eða vestan við slysavarnarskýli, hún er tvískipt og hefur líklega verið notuð sem fjós. Hugmyndir eru um að bærinn hafi áður staðið þar sem nú heitir Ódáinsakur. „Eru nokkuð stórar bæjartóftir, og enn fremur niðurgrafin tóft á bakkabrúninni, kannski naust, eða hjallveggir“ segir í örnefnaskrá Björns Grímssonar. Þar segir enn fremur: „Þjóðsagan um Ódáinsakur er á þá leið, að enginn hafi þar getað dáið, svo að bera varð hina deyjandi menn út fyrir ána, svo að þeir fengju losnað úr líkamsböndunum. Þessi átti svo að vera ástæðan fyrir því að bærinn var fluttur norður fyrir ána.“ Í fornleifaskráningunni segir að greinilegur og stór bæjarhóll sé á Ódáinsakri, á suðurbakka Hvanndalaár. Mjög grösugt er umhverfis hólinn en ekkert bendir til að vísun um „akur“ í örnefninu sé til vitnis um ræktun, a.m.k. eru engin sjáanleg ummerki um slíkt. Alls er hóllinn 25 x 25 m að stærð og um 2 m hár. Allt bendir til þess að hér hafi lengi verið aðalbæjarstæðið í Hvanndölum, enda er uppsöfnun jarðvegs margfalt meiri en á yngra bæjarstæðinu.

Ey021_014SV

EY021_010-NV-a

EY021_001_002_003-Converted-

Fleiri áhugaverðar minjar eru í Hvanndölum sem vert væri að fjalla um en stöldrum hér við einn stað enn sem er á leiðinni ef gengið er frá Hvanndölum til Ólafsfjarðar, leið sem nefnd hefur verið að fara gjána úr Sýrdal. Þá er gengið í suðaustur frá slysavarnarskýlinu að Selskál og upp á brún Hádegisfjalls. Þar er Sýrdalurinn suður og austur af Selskálinni og þar „... dálítið skarð eða einstigi ... að vestan sem hægt var að komast um niður í hann. Þangað voru lömb rekin á vorin, hlaðið upp í skarðið, og þau látin ganga þar yfir sumarið," segir í örnefnaskrá. Hleðslurnar eru enn nokkuð sýnilegar. Ekki er um heila garðhleðslu að ræða heldur hefur verið hlaðið í gloppur og göt efst í skarðinu, á svæði sem er um 15 m langt. Beggja vegna við hleðslurnar eru mjög brött, grýtt og vel gróin gil.

Í dag eiga fáir aðrir en útivistarfólk erindi í Hvanndali, en þau sem þangað koma upplifa náttúrufegurð svæðisins og geta einnig staldrað við og reynt að setja sig í spor þeirra sem lifðu við þessa einangrun.

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

Heimildir

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/242672/ sótt 16.11.2022

Birna Lárusdóttir (Ritst.) Fornleifaskráning í Hvanneyrarhreppi II: Minjar í Siglufirði (sunnan Siglufjarðarbæjar og austan fjarðar), Héðinsfirði og Hvanndölum Fornleifastofnun Íslands FS391-04042 Reykjavík 2008