Fara í efni

16. desember - Haukadalur

Yfirlitskort af staðsetningu minja í Haukadal. ©Loftmyndir.
Yfirlitskort af staðsetningu minja í Haukadal. ©Loftmyndir.

Þrjá friðlýsta minjastaði er að finna í Haukadal í Dalabyggð og eiga allir þessir staðir það sameiginlegt að tengjast Eiríks sögu rauða. Fyrsti og eflaust þekktasti staðurinn eru Eiríksstaðir í landi Stóra-Vatnshorns en þar er að finna friðlýstar rústir sem taldar eru vera bústaður Eiríks rauða. Lýsa bæði Landnáma og Eiríks saga rauða búsetu Eiríks í Haukadal og hvernig hann hrökklaðist í útlegð til Grænlands vegna vígaferla sinna. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort Leifur heppni Eiríksson hafi fæðst á Eiríksstöðum en engar sannanir eru fyrir því. Nokkrar fornleifarannsóknir hafa farið fram á Eiríksstöðum í gegnum tíðina, þá einna helst rannsóknir Þorsteins Erlingssonar árið 1895, Matthíasar Þórðarsonar, þjóðminjavarðar, árið 1938 og að lokum rannsóknir Guðmundar Ólafssonar og Ragnheiðar Traustadóttur árið 1997 og 1998. Tilgátubær sem byggður var á upplýsingum úr þessum fornleifarannsóknum var svo vígður árið 2000.

Stóra-Vatnshorn. Rústaleifar Eiríksstaða við landamæri milli Vatnshorns og Skriðukots. Sbr. Árb. 1895: 20; Bruun 1928: 136-138. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 20.06.1931. Skrá um friðlýstar fornleifar

Bæjartóft Eiríksstaða, vettvangsferð minjavarðar Vesturlands 2007.

Uppmælingar fornleifa á Eiríksstöðum og tilgátubærinn vinstra megin .

 

Annar staðurinn er litlu austar (innar) í dalnum og er þar um að ræða eyðibýlið Valþjófsstaði í landi Jörfa. Valþjófsstaði er einnig fjallað um bæði í Landnámu og Eiríks sögu rauða en þar er sagt að þrælar Eiríks hafi komið af stað skriðu sem lagði bæinn í eyði. Á þá Eyjólfur saur að hafa hefnt frænda síns Valþjófs, sem bjó á Valþjófsstöðum, og drepið þræla Eiríks við Skeiðsbrekkur upp af Vatnshorni. Eiríkur hefndi þá þræla sinna með því að drepa Eyjólf. Þar hófst vígaför Eiríks á Íslandi sem endaði með að hann var gerður útlægur og fór þá til Grænlands árið 982.

Jörfi. Rústaleifar Valþjófsstaða, að nokkru leyti undir skriðu. Sbr. Árb. 1895: 20. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 20.06.1931. Skrá um friðlýstar fornleifar

Uppmælingar fornleifa á Valþjófsstað.

Illgreinanlegar tóftir Valþjófsstaða, vettvangsferð minjavarðar Vesturlands 2007.

Þriðja staðinn er að finna í landi Saurstaða en þeir eru á móti Eiríksstöðum, hinum megin í dalnum. Þar á Eyjólfur saur að hafa búið og er þar friðlýst ferhyrnd girðing austan við bæinn. Sögur segja að þar hafi Eiríkur orðið Eyjólfi að bana. Lengra upp með ánni er grashvammur sem nefnist Orrustuhvammur og þar á Eiríkur að hafa vegið Eyjólf. Í hvammi þessum er að finna stekkjartóftir nokkrar sem ekki eru friðlýstar en friðaðar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

Saursstaðir. Ferhyrnd girðing á móafles austanmegin ársprænunnar fyrir austan Saurstaði. Sbr. Árb. 1895: 20. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 20.06.1931. Skrá um friðlýstar fornleifar

Ferhyrnda tóftin við Saurstaði, vettvangsferð minjavarðar Vesturlands 2007.

Uppmælingar fornleifa á Saurstöðum.

Lesa má nánari lýsingu á atburðarás þessari og stöðunum þremur í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 1895. Meira ítarefni er einnig að finna á heimasíðu Benedikts Jónssonar um Haukadal í Dalasýslu: Eíríksstaðir, Valþjófsstaðir og Saurstaðir.

Skoðaðu svæðið á minjavefsjá Minjastofnunar