Fara í efni

17. desember - Hofskirkja

Hofskirkja með Hofsfjalli í bakgrunni árið 2001
Hofskirkja með Hofsfjalli í bakgrunni árið 2001

Bæjartorfan að Hofi í Öræfum stendur undir Hofsfjalli, suðvestur af Öræfajökli. Í Landnámu er jörðin hluti af landnámi Þorgerðar, ekkju Ásbjörns son Heyangurs-Bjarna. Hún helgaði sér land frá Kvíá í austri að Skeiðará í vestri og bjó á Sandfelli. Sonur hennar er sagður vera fyrsti ábúandi á Hofi. Í Hofsmáldaga Jóns biskups Sigurðssonar frá 1343 kemur fram að þá hafi staðið kirkja á Hofi. Kirkjan var helguð heilögum Klemens frá Alexandríu sem var dýrlingur sæfarenda. Af máldaganum má draga líkur að því að sú kirkja hafi verið búin að standa í einhvern tíma en hún átti auk þess töluvert af eignum.

Hofskirkja árið 1944, ljósmyndari óþekktur.

Bæjarstæði Hofs árið 1973. Öræfi I, Teikning A3.

 

Saga kirkju á jörðinni er því löng og samkvæmt heimildum hefur kirkjan verið endurbyggð nokkrum sinnum. Kirkjan sem stendur í dag var reist á árunum 1883-1885 af Páli Pálssyni forsmið og snikkara frá Hörgárdal. Kirkjan er torf- og timburkirkja með rismiklu þaki lagt torfi og eru hliðarveggir og kórbak hennar upp undir glugga hlaðin úr torfi og grjóti. Kórbaksþilið er yfir torfvegg og allur framstafninn er klæddur listaþili.

Framstafn Hofskirkju árið 2001.

Um miðbik 20. aldar var kirkjan orðin hrörleg og ljóst að gera þyrfti við hana. Hugmyndir voru uppi um að reisa steinsteypta kirkju en sökum þess að fáar kirkjur voru enn standandi líkt og Hofskirkja var talið ljóst að hana þyrfti að varðveita. Þjóðminjavörður og sóknarnefnd komu sér saman um hvernig skildi staðið að varðveislu kirkjunnar og var kirkjan tekin niður og endurbyggð á árunum 1953-1954.

Kirkjan vekur athygli ekki aðeins sökum byggingarlags og fallegs umhverfis heldur einnig vegna kirkjugarðarins í kringum hana. Hann er með upphlöðnum leiðum samkvæmt gamalli hefð en ekkert leiði eldra en frá 20. öld er merkt. Kirkjan stendur í miðjum hluta eldri garðsins sem er girtur af með hlöðnum garði úr grjóti og torfi. Kirkjan er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en auk þess er kirkjan friðlýst samkvæmt menningarminjalögum.

Kirkjugarðurinn og bakhlið Hofskirkju árið 2020, sést móta vel fyrir upphlöðnu leiðunum.

Hægt er að lesa frekari upplýsingar um Hofskirkju á heimasíðu Minjastofnunar, húsasafni Þjóðminjasafnsins og heimasíðu Bjarnanesprestakalls