Fara í efni

18. desember - Ábæjarkirkja

Mynd af Ábæjarkirkju, líklegast tekin eftir árið 1965. Ljósmyndari óþekktur.
Mynd af Ábæjarkirkju, líklegast tekin eftir árið 1965. Ljósmyndari óþekktur.

Ábæjarkirkja stendur í Austurdal í Akrahreppi, nú Skagafirði, við austurbakka Austari-Jökulsár. Í Landnámu segir frá því að landnámsmaðurinn Önundur víss, hafi numið land að Ábæ. Minnst er á bæinn í ýmsum heimildum á næstu öldum en bærinn leggst síðan í eyði árið 1941. 

Mynd tekin af Þorsteini Jósepssyni á árunum 1940-1965, af síðustu bæjarhúsunum sem stóðu í Ábæ. 

Fyrst er getið um kirkju á Ábæ í Auðunarmáldaga frá árinu 1318 en þó má vera að kirkja hafi staðið þar jafnvel enn fyrr. Benda heimildir til þess að kirkja hafi ekki staðið samfellt frá upphafi á Ábæ. Hafist var handa við byggingu núverandi kirkju þegar rauðaviðarkirkja, sem reist hafði verið 1842 og vígð ári síðar, var að falli komin. Mikið var rætt um það hvort ráðist ætti í byggingu nýrrar kirkju enda aðeins þrír bæir í byggð í dalnum á þeim tíma og flutningur efniviðar til byggingarinnar vandasamur. Það varð þó að lokum endingin að ný kirkja skyldi reist og var hafist handa við byggingu hennar árið 1921 og henni lokið ári síðar. Það var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, sem teiknaði Ábæjarkirkju og er almennt talið að Ábæjarkirkja sé fyrsta kirkjan sem hann teiknaði.

Í riti Péturs H. Ármannssonar, Guðjón Samúelsson, húsameistari, segir svo um Ábæjarkirkju:

,,Ábæjarkirkja er einstök í byggingarsögunni, sem tilraun til að útfæra byggingarlag íslenskrar torfkirkju í steinsteypu. Varðveittir eru tveir uppdrættir af misstórum kirkjum á Ábæ, dagsettir í apríl 1920. Veggir eru í báðum tilvikum úr steinsteypu og torfhleðsla utan á langveggjum og torf á þaki. Kirkjan, sem talin er minnsta guðshús landsins úr steinsteypu, var reist eftir minni teikningunni. Hún er eigi að síður aðeins stærri en rauðaviðarkirkjan, rúmar um 30 manns í sæti.“

Ábæjarkirkja eins og hún lítur út í dag

Messað er í kirkjunni einu sinni að ári, sunnudag um verslunarmannahelgi, og að messu lokinni boðið til messukaffis á Merkigili. Þar bjó síðasta sóknarbarn Ábæjarsóknar, Helgi Jónsson, en hann lést árið 1997.

Fyrir áhugasama, er hægt að lesa sér frekar til um hús í Akrahreppi í nýútkominni Húsaskrá Akrahrepps eftir Sólborgu Unu Pálsdóttur, pistil í Feyki um Torskilin bæjarnöfn – Ábær í Austurdal sem byggður er á rannsóknum Margeirs Jónssonar og rit Byggðasafns Skagfirðinga sem nefnist Miðaldakirkjur 1000-1300, ritað af Sigríði Sigurðardóttur.