Fara í efni

19. desember - Kjarvalsstaðir

Vesturálma, sýningarsalur. Hér má sjá listræna útfærslu á burðarvirki hússins og hlýlega áferð sjónsteypunnar. Mynd fengin að láni frá heimasíðu Kjarvalstaða: https://listasafnreykjavikur.is/kjarvalsstadir
Vesturálma, sýningarsalur. Hér má sjá listræna útfærslu á burðarvirki hússins og hlýlega áferð sjónsteypunnar. Mynd fengin að láni frá heimasíðu Kjarvalstaða: https://listasafnreykjavikur.is/kjarvalsstadir

Við óskum Kjarvalsstöðum til hamingju með 50 ára afmælið í ár. Húsið var teiknað af Hannesi Kr. Davíðssyni arkitekt og var opnað árið 1973. Kjarvalsstaðir voru hannaðir sérstaklega fyrir myndlist á Íslandi og hefur því mikið menningarsögulegt gildi. Húsið er nefnt eftir Jóhannesi S. Kjarval sem skipar sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu og er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. 

Efnt var til hugmyndasamkeppni um Klambratún árið 1957. Seinkun varð á framkvæmdum garðsins vegna gatnagerðar við Miklubraut og þegar loks átti að undirbúa framkvæmdir hafði viðhorf til garðsins breyst og árið 1964 var samþykktur uppdráttur að skrúðgarði sem gerði ráð fyrir sýningarskála og veitingahúsi í garðinum. Árið 1965 voru samþykktir uppdrættir Hannesar Kr. að Kjarvalsstöðum, sem var skipulagt sem tvær aðalbyggingar með tengibyggingu á milli. Listaverk Kjarvals eru til sýnis í annarri aðalbyggingunni.

Rými fyrir framan inngang í sýningarsal. Hér má sjá súlu sem stendur skáhallt í gegnum loftglugga. Ljósmyndari: Jakob Jakobsson, arkitekt og fulltrúi í minjaráði Reykjavíkur og nágr.

Miðjugarður á suðurhlið þar sem gluggar frá gólfi til lofts mynda fallega andstæðu við annars lokaðar hliðar hússins. Mynd fengin að láni frá heimasíðu Kjarvalsstaða.

Hannes var undir áhrifum norræns módernisma með japönsku ívafi við hönnun byggingarinnar sem samanstendur af þremur álmum með koparklæddu þaki, sem umlykja miðjugarð. Húsið er frekar lokað ásýndar til norðurs, austurs og vestur þar sem sýningarrýmin eru, en opnast mót suðri þar sem gluggar frá gólfi til lofts hleypa birtu inn í veitingahús, afgreiðslu, verslun og gangrými.

Meginbyggingarefni er ómeðhöndluð steypa þar sem æðateikning mótatimbursins er sýnileg og gefur húsinu hlýlega áferð. Eitt sérkenni hússins má lesa í grönnum súlum sem standa skáhallt í gegnum loftglugga úr gleri inni í húsinu og gefa burðarvirki byggingarinnar léttleika og undirstrika fínleika hússins.

Kjarvalsstaðir hafa ekki tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Vandaður frágangur og efnisval arkitektsins gefa byggingunni klassískt yfirbragð og nýtur hún sín vel í samspili við náttúru Klambratúnsins.

Hér má sjá Bandaríkjaforseta og Frakklandsforseta við inngang Kjarvalsstaða á opnunarári listasafnsins 1973. Mynd fengin að láni frá heimasíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Teikning sem sýnir loft í sýningarsal og birtuútreikninga.

Líkan af Kjarvalsstöðum