Fara í efni

10.desember - Bensínstöðvar

Ægisíða 102 eins og hún leit út þegar hún var opnuð árið 1978.
Ægisíða 102 eins og hún leit út þegar hún var opnuð árið 1978.

Hús og mannvirki sem byggð voru eftir árið 1940 njóta engrar sjálfkrafa lagalegrar verndar. Þau hafa verið Minjastofnun Íslands ofarlega í huga undanfarin ár, því sú mikla uppbygging og meiriháttar samfélags breytingar sem nú eru í deiglunni; orkuskipti, þétting byggðar, hugmyndir um borgarlínu og fleira, hefur áhrif á iðnaðarsvæði og byggð sem reis á síðari hluta 20. aldar. Bensínstöðvar eru einn flokkur bygginga frá því um og eftir miðja 20. öld, sem lítið hefur verið horft til með tilliti til listræns eða menningarsögulegs gildis.

Bensínstöðvar eru samofnar þróun og uppbyggingu þéttbýlis í Reykjavík. Fyrsti nothæfi bíllinn kom til Íslands sumarið 1913 og markaði hann upphaf bílaaldar í Reykjavík. Í upphafi var erfitt að fá bensín á bílana sem fjölgaði jafnt og þétt. Bensín var flutt inn í blikkdunkum og tunnum og hellt á bílana með tilheyrandi eldhættu enda geymt í skúrum hér og þar um bæinn. Fyrstu bensínafgreiðsludælurnar voru settar upp árið 1922. Nokkrum árum síðar, 1937, var fyrsta nútímalega bensínafgreiðslustöðin á Íslandi reist í Hafnarstræti af Hinu íslenzka steinolíuhlutafélagi (H.Í.S). Hún var hönnuð af Sigurði Guðmundssyni arkitekt.

Laugavegur 180 eftir Þór Sandholt var reist árið 1949 - mynd fengin að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Nesti við Suðurlandsbraut sem reist var árið 1959 sem búið er að rífa. Stöðina hannaði Manfreð Vilhjálmsson arkitekt og var hún ein af fyrstu bílalúgusjoppunum á Norðurlöndum.

Stöðvunum fjölgaði síðan eftir því sem bílum fjölgaði í landinu og töluverður metnaður og alúð var lögð í hönnun margra þeirra sem byggðar voru allt fram til loka síðustu aldar. Þær eru hluti af sögu 20. aldar og byggingarsögu þjóðarinnar. Þrátt fyrir að margar hafi því miður horfið í tímas rás eigum við enn nokkrar listrænar perlur, hannaðar af virtum arkitektum. Sem dæmi má nefna bensínstöðina við Laugaveg 180 eftir Þór Sandholt, sem reist var árið 1949 og sem með nýju hlutverki hefur verið glædd lífi á ný. Önnur dæmi um framsækinn arkitektúr við hönnun bensínstöðva voru þær sem Manfreð Vilhjálmsson arkitekt teiknaði fyrir Nesti en því miður eru þær allar horfnar.

Stöðin við Ægisíðu var reist árið 1978 eftir teikningum Guðmundar Kr. Kristinssonar og Ferdinands Alfreðssonar. Byggingarlist stöðvarinnar er í háum gæðaflokki. Byggingarstíllinn fellur undir það afbrigði fúnkisstílsins sem einkennist af náttúrulegum formum. Einstökum hlutum byggingarinnar er raðað saman líkt og blævæng út frá sívalningi í miðju.

Grunnmynd þar sem sjá má hvernig vísun í blævæng út frá sívalningi í miðju.

Ægisíða 102 eins og hún leit út árið 2014 þar sem sjá má hvernig útliti hennar hefur verið breytt með klæðningu, ljósum o.fl.