Fara í efni

11.desember - Grettisbæli

Inngangurinn í Grettisbælið í Axarnúpi
Inngangurinn í Grettisbælið í Axarnúpi

Dvalarstaðir Grettis sterka Ásmundarsonar eru vel þekktir sögustaðir og er þá að finna víðs vegar um landið. Frá tíma Grettis í útlegð á Möðrudalsheiði eru tvö Grettisbæli þekkt í Þingeyjarsýslu. Annað þeirra er undir klettum þar sem Vígabjörg kallast, fyrir austan Vígabjargafoss í Jökulsá í Öxarfirði. Hitt bælið er að finna bak við klettsnef í Öxarnúpi. Það er í um 30-40 metra hæð og er gangan að bælinu mjög brött og stórgrýtt og er því aðeins fyrir vant göngufólk. Bælið er á skrá yfir friðlýstar fornleifar.

Núpur. Grettisbæli í Axarnúpi, hátt uppi í skriðunni norðan í Núpnum. Sbr. Árb. 1924: 55-56 (með myndum). Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 1931.“ Skrá um friðlýstar fornleifar

Staðsetning og lögun bælisins

Matthías Þórðarson, þjóðminjavörður, fór og skoðaði bælið árið 1912 og taldi hann fyrir víst að bælið væri byggt af Gretti. Veggirnir eru hlaðnir upp af stórgrýti sem hefur verið hróflað til og stuðlabergsdrangar lagðir ofan á veggina til þess að mynda þak. Útlit og lega byggingarinnar í landslaginu gerir það að verkum að bælið sést nánast ekkert fyrr en komið er alveg upp að því. Það er ekki stórt, aðeins um 3 metrar að lengd, 1 metri á breidd og um 1 metri á hæð þar sem mest er. Ekki er hægt að ímynda sér að þægilegt hafi verið að dvelja þar en augljóst er að sterkan mann hefur þurft til þess að reisa það.

Vel mátti sitja hjer og liggja, en varla hefur hann nokkru sinni getað staðið hjer upprjettur. Mjög lítið ber á bælinu fyrr en komið er alveg að því, en þá sjer það hver maður og hlýtur að dást að líkamsþreki þess er lagði slíkt árefti og sálarþreki þess manns, er hlaut að dvelja einmana og ofsóttur ár eftir ár í slíkum hreysum.“ Matthías Þórðarson, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1924: 54-56.

Ljósmyndir sem Matthías Þórðarson tók í ferð sinni að Grettisbæli árið 1912 úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 1924