Fara í efni

12.desember - Kjalvegur

Skoðunarferð Minjastofnunar Íslands að Hvítárnesi árið 2015. Skálinn í bakgrunn og Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, við skrif í Tjarnarrústinni
Skoðunarferð Minjastofnunar Íslands að Hvítárnesi árið 2015. Skálinn í bakgrunn og Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, við skrif í Tjarnarrústinni

Samkvæmt grein eftir Jón Eyþórsson, Kjölur og Kjalvegur, sem birtist í Morgunblaðinu í maí 1964 lá hinn forni Kjalvegur úr Skagafirði og endaði í Hvítárnesi á Kili þó að í dag sé almennt talað um Kjalveg hinn forna sem leið á milli Hveravalla og Hvítárness. Hluti af leiðinni, þar sem hún liggur upp á hraunið vestan Rjúpnafells og tekur þaðan beina stefnu á austanvert Kjalfell, hefur verið vörðuð frá forni fari, en nýjar vörður voru hlaðnar þar um síðustu aldamót fyrir atbeina Daniels Bruun, hins mikla ferðamanns og sannarlegs Íslandsvinar.

Kjalvegar er getið strax í Landnámu en landnámsmönnum í Skagafirði lék þá hugur á að kanna lönd suður af sínum byggðum. Segir í Landnámu að Hrosskell landnámsmaður að Ýrarfelli hafi sent Roðrek, þræl sinn í landaleit til suðurs. Hann snéri hins vegar brátt við og vildi þá Vekell hinn hamrammi á Mælifelli leggja land undir fót. Komst hann langt suður á heiði en snéri hann aftur við Haugakvísl og heita þar enn Vekelshaugar. Eiríkur í Goðdölum frétti af suðurferð Vekels og sendi hann þá þræl sinn er Rauðungur hét suður á fjöll. Hann komst lengra en fregnast hafði áður en þegar hann kom á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar kom hann þar á manns spor og taldi fyrir víst að þau kæmu sunnan að. Hlóð hann þar vörðu sem enn heitir Rangaðarvarða. Þar eftir tókust á ferðir milli Sunnlendinga og Norðlendinga og gaf Eiríkur í Goðdölum Rauðungi frelsi fyrir þetta afrek sitt.

Kjalvegur hinn forni eins og hann liggur frá Hveravöllum að Hvítárnesi

Á Hvítárnesi, þangað sem Kjalvegur liggur, stendur skáli Ferðafélags Íslands, reistur á árunum 1929 og 1930. Jón J. Víðis mælingamaður teiknaði skálann, Jakob Thorarensen skáld annaðist alla trésmíði og Jón Jónsson bóndi að Laug í Biskupstungum hlóð útveggi. Er um að ræða fyrsta sæluhúsið sem Ferðafélag Íslands lét reisa. Skálinn er klæddur panel að innan en að utan er hann byggður í gömlum íslenskum stíl með grjót- og torfveggi á langhliðum en stafnar og þak eru nú klædd bárujárni. Hefur skálanum verið viðhaldið á síðustu áratugum en sem dæmi má nefna að undirstöður hafa verið lagfærðar, torfveggir endurhlaðnir og nýir gluggar settir í. Skálinn var friðlýstur 15. september 2010 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun og nær friðlýsingin til ytra byrðis skálans.

Aðeins örfáum metrum til suðausturs má finna friðlýstar fornleifar en þar er um að ræða Tjarnarrústina svokölluðu. Er um að ræða forna eyðibýlisrúst, austanmegin Tjarnár þaðan sem nafn rústarinnar er komið. Var rústin friðlýst árið 1927 af Matthíasi Þórðarsyndi þjóðminjaverði. Eru rústirnar nokkuð greinanlegar í landslaginu en aldur þeirra er ókunnur en þó talið líklegt að þær séu frá 9. til 12. öld.

Skálinn á Hvítárnesi eftir viðgerðir árið 2018