Fara í efni

13.desember - Gásir

Uppgröftur Minjasafnsins á Akureyri og Fornleifastofnun Íslands ses. á Gásum
Uppgröftur Minjasafnsins á Akureyri og Fornleifastofnun Íslands ses. á Gásum

Verslunarstaðurinn að Gásum er sunnan við Hörgárósa, um 11 kílómetra norðan við Akureyri. Vestan við grunnt lón, sem varið er af stóru sandrifi, sést greinilega móta fyrir fjölda tófta. Elstu rituðu heimild um verslun á Gásum er að finna í Prestssögu Guðmundar góða frá 1163. Minjasvæðið á Gásum vakti mikla athygli fræðimanna frá því á 18. öld og árið 1907 hófu Daniel Bruun og Finnur Jónsson fornleifarannsókn á staðnum. Þeir grófu fjölda könnunarskurða en einbeittu sér einkum að kirkju og búðatóftum á austurhluta svæðisins. Sumarið 1986 gerðu Margrét Hermanns-Auðardóttir og Bjarni F. Einarsson fornleifakönnun á Gásum og grófu þar 4 prufuholur. Á árunum 2001-2006 fór fram stór uppgröftur á Gásum á vegum Minjasafnsins á Akureyri og Fornleifastofnunar Íslands ses. Helstu niðurstöður eru þær að á Gásum hafi verið virk kaupskipahöfn frá 12. öld fram til um 1400. Starfsemin sem fór þar fram líkist hafskipahöfnum nútímans og snérist um uppskipun og útskipun, en talið er verslunin sjálf hafi að mestu farið fram annars staðar.

Uppgröfturinn á Gásum árið 2002, ljósmyndari: Skapti Hallgrímsson.

Myndir frá uppgreftri Minjasafnsins á Akureyri og Fornleifastofnun Íslands ses.

Búðirnar voru niðurgrafnar, sumar þeirra allt að tveggja metra djúpar, hlaðnar úr torfi og svo hefur verið tjaldað yfir þær. Gólfin í búðunum voru þunn en í flestum þeirra fundust eldstæði. Í sumum búðanna var að finna leifar af setum úr torfi, sem voru bekkir meðfram veggjum. Greinilegt er að búðirnar hafa verið í árstíðabundinni notkun, væntanlega í skamman tíma í senn og sáust ummerki um að ítrekað hafi verið gert við þær.

Mikinn fjölda minja er að finna á Gásum eins og sjá má á kortunum hér fyrir ofan.

Timburkirkja stóð á Gásum fram á seinni hluta 14. aldar hið minnsta. Hún var endurbyggð að minnsta kosti í tvígang og stækkuð um meira en helming á seinni hluta 13. aldar. Síðasta kirkjan á staðnum var mjög stór, eða um 16 x 5 metrar. Engir kirkjugripir fundust við uppgröftinn né grafir innan kirkjugarðsins og því ljóst að ekki var greftrað við kirkjuna.

Verkfræðistofan Efla gerði 3D módel af svæðinu sem má nálgast hér: 2022 Gásir - 3D model by EFLA Engineering